Strandgata 49, Mikla bygging, Akureyri
Saga:
Komið hefur fram sú tilgáta að miðhluti Gránufélagshúsanna við Strandgötu 49 á Akureyri, svokölluð Mikla bygging, sé upprunninn úr Grafarósi á Höfðaströnd í Skagafirði. En byrjum á byrjuninni.
Á litlum höfða við ósa Grafarár á Höfðaströnd var verslunarstaður frá árinu 1835 til 1915. Fyrsta húsið sem þar var reist var hús sem M. C. Nisson (1805-1857) kaupmaður átti í Hofsósi og flutti í Grafarós 1835 vegna yfirgangs kaupmannsins í Hofósi. Síðan bættust fleiri kaupmenn við og fleiri hús og á tímabili var þar nokkur fjöldi timburhúsa, auk torfhúsa.
Verslunin gekk síðan kaupum og sölum eins og sést í upptalningu hér að ofan, þar til Grafarósfélagið keypti verslunina í Grafarósi árið 1875. Rekstur félagsins gekk brösugleg og haustið 1878 voru eignir félagsins boðnar upp, allar vöru, innanstokksmunir og verslunarhúsin. Stærstan hlut eignanna, þ. á m. verslunarhúsin keypti Tryggvi Gunnarsson, sem þá var í forsvari fyrir Gránufélagið á Akureyri, sem hafði í hyggju að hefja verslun í Grafarósi.1Páll Sigurðsson (2016). Skagafjörður austan Vatna. Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Árbók Ferðafélags Íslands 2016, bls. 100-101. Reykjavík: Ferðafélag Íslands; Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 174-181. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga. „Tryggvi lét þegar rífa annað verslunarhúsið og flytja til Akureyrar …“2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 181.
Vitað er að Martin Nisson lét reisa verslunar- og íbúðarhús í Grafarósi árið 1835. Húsin voru reyndar tvö en hvort Nisson lét smíða þau bæði eða eftirkomendur hans seinna húsið er ekki vitað fyrir víst. Þó er frekar talið að Nisson hafi byggt þau bæði. Hvor tveggja húsin stóðu þangað til Grafarósfélagið endaði starfsemi sína vorið 1878. …
Eins og fram kom … hér að framan lét Tryggvi rífa annað verslunarhusið og flytja viði þess norður til Akureyrar strax sumarið 1878. Það er sérkennilegt, ef það er tilviljun, að sama ár var byggt við hús Gránufélags á Oddeyri á Akureyri, hin svokallaða Mikla bygging, hátimbrað tveggja hæða hús með risi, sem tengdi saman Vestdalseyrarhúsið og Skjaldarvíkurstofuna. Flýtirinn að rífa Grafaróshúsið og flytja í brott um leið og Gránufélagið var búið að komst [svo] yfir það hlýtur að vera vegna þess að nota hafi þurft viðina úr því strax. Þetta er auðvitað engin sönnun en freistandi tilgáta að hér sé um að ræða sama húsið. Hitt verslunarhúsið var tekið niður og flutt sjóveg til Sauðárkróks, að talið er 1884, þar sem byggt var úr viðum þess stórhýsi sem síðar var nefnt Hótel Tindastóll.3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 190.
Um sögu Gránufélagshúsanna á seinni tímum er vísað í ítarlega grein Arnórs Blika Hallmundssonar.
Leitarorð: Skagafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 5. september, 2024
Heimildaskrá
- 1Páll Sigurðsson (2016). Skagafjörður austan Vatna. Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Árbók Ferðafélags Íslands 2016, bls. 100-101. Reykjavík: Ferðafélag Íslands; Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 174-181. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.
- 2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 181.
- 3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 190.
Deila færslu
Síðast uppfært 5. september, 2024