Rætur þessa vefs má rekja til ritgerðar til M.A.-prófs í fornleifafræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands vorið 2011. Hér er ágripið sem fylgdi verkefninu. Megintexta verkefnisins má finna hér. Á geisladiski sem fylgdi með verkefninu var sögð saga 234 flutningshúsa. Um flest þeirra er fjallað á þessum vef.

 

Með hús í farangrinum

Flutningur íbúðarhúsa á Íslandi til 1950

Ágrip

 

Afar lítið hefur verið fjallað um húsaflutninga á Íslandi. Í þessu verkefni er flutningum íbúðarhúsa gerð skil, húsa sem byggð voru árið 1925 og fyrr og flutt fyrir 1950. Hér er rakin saga 234 húsa (sjá meðf. geisladisk), sem falla innan tímarammans, og með hliðsjón af þeim upplýsingum velt fyrir sér hvers vegna og hvernig þessi hús voru flutt. Elstu húsin sem fjallað er um eru frá 17. öld, en þau yngstu byggð árið 1925. Nokkurn veginn er vitað um byggingarár 184 húsa. Um helmingur þeirra stendur enn. Flest húsanna, eða 65% eru byggð á þremur áratugum, frá 1880 til 1909. Húsaflutningurinn fylgir í kjölfarið tveimur áratugum síðar, 106 húsaflutningar (tæp 48%) af þeim 221 þar sem flutningsár er þekkt, fóru fram á árunum 1900-1929.

Þegar ástæður húsaflutninganna voru skoðaðar kom í ljós að þær byggingaraðferðir sem notaðar voru við smíði timburhúsa á Íslandi auk viðvarandi skorts á byggingarefni gerði flutning húss vænlegan kost, þrátt fyrir að engar vinnuvélar eða önnu flutningstæki væru til. Því var nauðsynlegt að reiða sig á útsjónarsemi, mannafl og hesta auk „aðstoðar“ frá náttúruöflunum, freðna jörð, ísilögð vötn og firði og gott sjóveður. Við nánari athugun sést að greina má nokkrar meginástæður fyrir húsaflutningunum. Tekin var sú ákvörðun að skipa þeim í eftirfarandi átta flokka: Breytt starfsemi, Búferlaflutningur, Hættusvæði, Nýbygging, Nýr eigandi, Skipulags­breytingar, Útgerðarstaður yfirgefinn og Verslunar­staður yfirgefinn. Meginstefið í þessum flokkum er að húsin voru flutt vegna þess að sá atvinnurekstur sem húsin voru byggð til að þjóna eða eigendur þeirra gerðu ráð fyrir að stunda bar sig ekki. En hús voru einnig flutt af svæðum þar sem náttúran ógnaði þeim og vegna skipulagsbreytinga.

Fjörutíu húsanna 234 hafa verið flutt oftar en einu sinni svo vitað sé, en hluti þeirra flutninga fór að vísu fram eftir 1950. Sé einungis litið til flutninga sem fram fóru fyrir 1950 hefur eitt hús verið flutt fjórum sinnum, eitt hús þrisvar og 20 hús tvisvar.

Þó lítið hafi verið skrifað um húsaflutninga hafa margar rannsóknir verið gerðar á húsagerðarlist, alþýðuhúsagerð og gagnvirku sambandi manns og húss eða heimilis. Minnst er á nokkrar slíkar rannsóknir og ýmsar kenningar sem þær hafa leitt af sér sem tengjast viðfangsefni verkefnisins, sérstaklega því þegar hlutverki húss er breytt og hvernig hús tengist sjálfsvitund eigandans.