Um vefinn
Sumir safna merktum pennum, aðrir safna gömlum símum, ég safna upplýsingum um hús sem hafa verið flutt.
Rætur þessa vefs má rekja til þess að árið 2011 lauk ég M.A.-prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Lokaverkefni mitt nefndist „Með hús í farangrinum. Flutningur íbúðarhúsa á Íslandi til 1950“. Þar var rakin saga 234 húsa sem höfðu verið flutt fyrir árið 1950 og byggð árið 1925 eða fyrr.
En ég gat ekki látið staðar numið, hús höfðu næstum því tekið hug minn allan, og allar götur síðan hef ég safnað upplýsingum um hús sem hafa verið flutt. Þær upplýsingar hafa ratað til mín eftir margvíslegum leiðum, m.a. í samtölum við fólk, tilviljunarkennt við lestur aragrúa ævisagna og endurminninga, við markvissa leit í ýmsum heimildum um byggðasögu bæja og sveita, með grúski á timarit.is og vegna vinnu minnar hjá Húsafriðunarnefnd frá árinu 2005 og síðan hjá Minjastofnun Íslands eftir að hún varð til árið 2013 við samruna Húsafriðunarnefndar og Fornleifaverndar ríkisins.
Á vef þessum verða sagðar sögur húsa sem voru byggð árið 1925 og fyrr, reyndar með nokkrum undantekningum. Ég hef eingöngu beint sjónum mínum að húsum sem einhvern tímann hefur verið búið í og gert að skilyrði að húsið hafi verið flutt út af lóðinni sem það stóð upphaflega á. Mestu áherslu hef ég lagt á að finna heimildir um flutningshús sem enn standa, en engu að síður má hér finna mörg hús sem því miður eru horfin.
Eins og nærri má er ekki um tæmandi skrá að ræða og eflaust mun slík skrá aldrei líta dagsins ljós. Hins vegar þigg ég með þökkum allar upplýsingar um hús sem hafa verið flutt, hvort sem það eru viðbótarupplýsingar um þau hús sem hér er að finna eða einhver allt önnur hús. Einnig þætti mér vænt um að fá ábendingar um allt sem betur má fara eða er beinlínis rangt. Vinsamlega sendið mér þá tölvupóst í netfangið gudlaugv@gmail.com.
Góða skemmtun !
Í október 2023,
Guðlaug Vilbogadóttir, fornleifafræðingur