Hlíðarendi í Óslandshlíð, Skagafirði
Saga:
Á litlum höfða við ósa Grafarár á Höfðaströnd var verslunarstaður frá árinu 1835 til 1915. Fyrsta húsið sem þar var reist var hús sem C. M. Nisson kaupmaður átti í Hofsósi og flutti í Grafarós 1835 vegna yfirgangs kaupmannsins í Hofósi. Síðan bættust fleiri kaupmenn við og fleiri hús og á tímabili var þar nokkur fjöldi timburhúsa, auk torfhúsa.1Páll Sigurðsson (2016). Skagafjörður austan Vatna. Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Árbók Ferðafélags Íslands 2016, bls. 100-101. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
Þegar verslunin í Grafarósi lagðist af árið 1915 stóðu þar líklega fimm timburhús.2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 192. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.
Eitt þessara húsa var flutt að Hlíðarenda í Óslandshlíð í Skagafirði árið 1917 þegar hjónin Rögnvaldur Jónsson (1856-1926) og Steinunn Helga Jónsdóttir (1861-1942) gerðust þar frumbyggjar, en Hlíðarendi var upphaflega grasbýli úr landi Miklarbæjar.
Hús þeirra hjóna var lítið timburhús „… með pappaþaki sem áður hafði staðið í Grafarósi en var tekið sundur og flutt að Hlíðarenda. Það var 8×10 álnir að stærð.“3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014). Byggðasaga Skagafjarðar. VII. bindi. Hofshreppur, bls. 54. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki. Sögufélag Skagfirðinga.
Rögnvaldur var smiður bæði á járn og tré og eftirsóttur við veggjahleðslu og hvers konar byggingarvinnu. Hann var einn af stofnendum bindindisfélagsins ,,Tilreyndin” í Óslandshlíð 1898 er síðar varð Ungmennafélagið Geisli, nú Neisti.[4Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Skjalaskrá. Sótt 31. ágúst 2024 af https://atom.skagafjordur.is/index.php/rognvaldur-jonsson-1856-1926.
Þegar Rögnvaldur lést árið 1926 hélt Steinunn áfram að búa á jörðinni til ársins 1936, en þá seldi hún Stefáni Sigmundssyni (1904-1982) jörðina og flutti til Siglufjarðar.
Stefán bjó síðan allan sinn aldur á Hlíðarenda ásamt konu sinni Ósk Halldórsdóttur (1905-1989) og enn búa afkomendur þeirra á jörðinni.5Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014), bls. 54-56; Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Skjalaskrá. Sótt 31. ágúst 2024 af https://atom.skagafjordur.is/index.php/steinunn-h-jonsdottir.
Höfundur veit ekki hvort húsið standi enn, sem er reyndar fremur ólíklegt.
Minnt er á að ekki eru til ítarlegar upplýsingar um afdrif húsanna í Grafarósi og þær heimildir sem finnast eru oft misvísandi.
Lesa má um fleiri hús á þessum vef sem tengjast Grafarósi. Má t.d. nefna Tindastól á Sauðárkróki, Hvassafell í Hofsósi, hús á Þrastarstöðum og Hólakoti á Höfðaströnd.
Leitarorð: Skagafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 31. ágúst, 2024
Heimildaskrá
- 1Páll Sigurðsson (2016). Skagafjörður austan Vatna. Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Árbók Ferðafélags Íslands 2016, bls. 100-101. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
- 2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 192. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.
- 3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014). Byggðasaga Skagafjarðar. VII. bindi. Hofshreppur, bls. 54. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki. Sögufélag Skagfirðinga.
- 4Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Skjalaskrá. Sótt 31. ágúst 2024 af https://atom.skagafjordur.is/index.php/rognvaldur-jonsson-1856-1926.
- 5Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014), bls. 54-56; Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Skjalaskrá. Sótt 31. ágúst 2024 af https://atom.skagafjordur.is/index.php/steinunn-h-jonsdottir.
Deila færslu
Síðast uppfært 31. ágúst, 2024