Hólakot, Höfðaströnd, Skagafirði
Saga:
Á litlum höfða við ósa Grafarár á Höfðaströnd var verslunarstaður frá árinu 1835 til 1915. Fyrsta húsið sem þar var reist var hús sem C. M. Nisson kaupmaður átti í Hofsósi og flutti í Grafarós 1835 vegna yfirgangs kaupmannsins í Hofósi. Síðan bættust fleiri kaupmenn við og fleiri hús og á tímabili var þar nokkur fjöldi timburhúsa, auk torfhúsa.1Páll Sigurðsson (2016). Skagafjörður austan Vatna. Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Árbók Ferðafélags Íslands 2016, bls. 100-101. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
Þegar verslunin í Grafarósi lagðist af árið 1915 fluttu flestir íbúarnir til Hofsóss, sumir með hús sín eða við þeirra með sér og þær vörubirgðir sem til voru.
Erlendur Pálsson (1856-1922) var verslunarstjóri Gránufélagsins í Grafarósi á árunum 1904 til 1915. Þar bjó hann með eiginkonu sinni, Guðbjörgu Stefánsdóttur (1855-1943) í svokölluðu Faktorshúsi, en þau fluttu síðan til Hofsóss þegar verslunin í Grafarósi lagðist af. 2Guðbjartur Jóakim Guðbjartsson (2005). Dagbókarbrot frá Skagafirði 1905, bls. 118. Skagfirðingabók, bls. 115-122; Bryndís Zoëga (2013). Strandminjar við austanverðan Skagafjörð. 1. áfangi, bls. 37. Byggðasafn Skagfirðinga. Rannsóknaskýrslur 2013/133.
Árið 1920 eignaðist Erlendur jörðina Hólakot á Höfðaströnd. Þá „… lét hann taka niður íbúðarhús sitt sem staðið hafði í Grafarósi og endurbyggja í Hólakoti.“3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014). Byggðasaga Skagafjarðar. VII. bindi. Hofshreppur, bls. 343. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki. Sögufélag Skagfirðinga. Árið 1926 var húsið metið til skatts og þá var því lýst þannig:
Það var 8×13 álnir að utanmáli með pappaþaki. Að vestanverðu var framþil út timbri en hálfstafnar úr torfi og austur að hálfu úr torfi. Loft er í öllu húsinu með krossrisi yfir og kvisti á vesturhlið. Á lofti eru 7 herbergi, gólfi 6 herbergi með forstofu, þar af 3 herbergi veggfóðruð og máluð. Kjallari er undir öllu húsinu, grjóthlaðinn en ekki steinlímdur, með einu herbergi afþiljuðu. Alls eru á húsinu 14 gluggar mismunandi stórir. … Hurðir á járnum alls 14.4Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014), bls. 343.
Ekki er alveg víst að það hafi verið svokallað Faktorshús, sem Erlendur flutti frá Grafarósi. Í fornleifaskráningu sem gerð hefur verið í Grafarósi kemur fram að tóftin undir Faktorshúsinu sé 9 x 10 m,5Katrín Gunnarsdóttir (2001). Grafarós og Hofsós. Fornleifaskráning, ekkert bls.tal. Byggðasafn Skagfirðinga, Rannsóknaskýrslur 5. en húsið sem reist var í Hólakoti var um 5 x 8 m, en engu að síður mjög veglegt hús. Hafi það verið Faktorshúsið sem Erlendur flutti hefur því verið talsvert breytt þegar það var reist í Hólakoti.
Árið 1952 var byggt við húsið og gamla húsið og viðbyggingin sameinuð undir valmaþaki. Húsið brann í júní 1972, en síðustu ábúendurnir höfðu flutt úr því árið áður. Íkveikjan varð út frá rafmagni þegar vatnsleki komst inn í rafmagnstöfluna og olli skammhlaupi.6Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014), bls. 343.
Þess má geta að Vilhelm, sonur Erlendar, flutti hús úr Grafarósi til Hofsóss. Annar sonur Erlendar, Páll, flutti Hallgrímshús úr Grafarósi að Þrastarstöðum á Höfðaströnd.
Minnt er á að ekki eru til ítarlegar upplýsingar um afdrif húsanna í Grafarósi og þær heimildir sem til eru oft misvísandi.
Leitarorð: Skagafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 5. september, 2024
Heimildaskrá
- 1Páll Sigurðsson (2016). Skagafjörður austan Vatna. Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Árbók Ferðafélags Íslands 2016, bls. 100-101. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
- 2Guðbjartur Jóakim Guðbjartsson (2005). Dagbókarbrot frá Skagafirði 1905, bls. 118. Skagfirðingabók, bls. 115-122; Bryndís Zoëga (2013). Strandminjar við austanverðan Skagafjörð. 1. áfangi, bls. 37. Byggðasafn Skagfirðinga. Rannsóknaskýrslur 2013/133.
- 3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014). Byggðasaga Skagafjarðar. VII. bindi. Hofshreppur, bls. 343. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki. Sögufélag Skagfirðinga.
- 4Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014), bls. 343.
- 5Katrín Gunnarsdóttir (2001). Grafarós og Hofsós. Fornleifaskráning, ekkert bls.tal. Byggðasafn Skagfirðinga, Rannsóknaskýrslur 5.
- 6Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014), bls. 343.
Deila færslu
Síðast uppfært 5. september, 2024