Vörðustígur 3, Hafnarfirði
Saga:
Við þekkjum þróunina þegar mikill útvegur fluttist frá Vatnsleysuströndinni og til Hafnarfjarðar. Það skeði með vélvæðingunni en þá gátu menn ekki lengur sett upp báta sína. Hafnleysi háði útvegsmönnum á Vatnsleysuströndinni og þess vegna voru menn nauðbeygðir til að flytja sig um set. Margir fluttu því til Hafnarfjarðar. Og menn fluttu ekki bara báta sína og fjölskyldur heldur einnig fluttu menn með sér húsin. Byggingarefni var oft af skornum skammti svo að menn brugðu á það ráð að rífa húsin, spýtu fyrir spýtu, og endurbyggja í Hafnarfirði. Oft fylgdu nöfnin með og húsin voru í daglegu tali nefnd sömu nöfnum og hétu suður á Strönd.1Jón Kr. Gunnarsson (1998). Húsin voru rifin á Vatnsleysuströndinni og flutt inn í Hafnarfjörð. Viðtal við Jón Guðmundsson rafvirkjameistara. Í Af kunnum æskuslóðum. Viðtöl við valinkunna eldri Hafnfirðinga, bls. 98. Hafnarfirði: Rauðskinna.
Í manntali árið 1890 kemur fram að í þurrabúð í Nýjabæ í landi Stóru-Vatnsleysu í Kálfatjarnarsókn búa hjónin Jónas Guðmundsson (1848-1931) og Ólöf Helgadóttir (1858-1934) ásamt þremur börnum sínum, Helga (1882-1916), Guðmundi (1884-1965) og Ingibjörgu (1886-1945). Samkvæmt manntali 1901 hafa þau eignast einn son til viðbótar, Jón (1892-1916), og árið 1903 bættist enn við sonurinn Pétur Sigurbjörn (d. 1953). Ingibjörg giftist Sigurði Lárusi Jónssyni (1879-1916) og settust þau að í Miðengi, sem var skammt frá Nýjabæ. Í manntali 1920 sést hins vegar að þau hjón, Jónas og Ólöf, búa á Vörðustíg 3 í Hafnarfirði, þar sem einnig búa synir þeirra Guðmundur, sem þá er ekkill, og bróðir hans Pétur Sigurbjörn.2Manntal.is. Sótt 28. september 2020 af https://manntal.is/; Guðmundur Björgvin Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 351 og 361. Útgáfustaðar ekki getið: höfundur.
Ástæðan fyrir flutningi þeirra var sú að árið 1916 misstu þau Jónas og Ólöf tvo syni sína, Helga og Jón, ásamt Sigurði tengdason sinn, þegar þeir fórust með mótorbátnum Hermanni við Garðskaga. Þá má segja að bæði Jónas og Ólöf og Ingibjörg dóttir þeirra hafi misst fyrirvinnur sínar. Þá þótti elsta syninum, Guðmundi sem bjó í Hafnarfirði, standa sér næst að hlaupa undir bagga með foreldrum sínum og systkinum. Hann brá á það ráð árið eftir að rífa húsin tvö sem þau bjuggu í á Vatnsleysuströndinni og flytja til Hafnarfjarðar. Til þess sjósetti hann tvo gamla uppskipunarbáta sem dregnir voru af mótorbáti, sem hann fékk lánaðan hjá Ágústi Flygenring vinnuveitanda sínum. Á þeim var timbrinu komið fyrir þegar búið var að seila það allt saman í knippi. Flutningur Nýjabæjar gekk vel, en við flutning Miðengis kom í ljós að uppskipunarbáturinn var svo fúinn að allt timbrið fór í sjóinn, en allt skilaði það sér þó að lokum (sjá Krosseyrarvegur 2).
Nýibær, sem oft var kallaður Guðmundarhús eftir eiganda sínum, var settur niður við Vörðustíg 3 í Hafnarfirði, á grunn sem steyptur hafði verið undir húsið. Bitar undir gólfið í stofu og eldhúsi voru úr barkskipinu Vasco de Gama, sem nokkrir Hafnfirðingar höfðu keypt til niðurrifs og seldu úr því góðmálma og við. Þegar þáverandi eigendur voru að gera húsið upp árið 1999 gaus ætíð upp mikil sprittlykt þegar sagað var í gamla viði í húsinu. Þótti það staðfesta að um gamla evrópska viði væri að ræða, því lenska var í Evrópu að fúaverja skipsvið í sprittbaði.3Guðmundur Björgvin Jónsson (1987), bls. 351 og 361; Jón Kr. Gunnarsson (1998), bls. 101-103; Hafnarfjörður (1913, 24. nóvember). Morgunblaðið, 1. árg., 23. tbl., bls. 106; Margrét S. Jónsdóttir (2024, 31. janúar). Tölvupóstur.
Í elstu brunavirðingu af húsinu frá 2. nóvember 2017 kemur fram að Guðmundur Jónasson sé eigandi hússins. Þá er því lýst þannig: „Húsið er einlyft með risi 1,90m. Því er skipt í 3 stofur og eldhús, klætt innan með panel og stofurnar eru fóðraðar., allt málað. Húsið notað til íbúðar. 5 gluggar á húsinu, 1 eldavél, 1 ofn í húsinu. Undir öllu húsinu er 2m. hár steinsteyptur kjallari með 2 gluggum, notaður til geymslu. b) Anddyri áfast við húsið einlyftmeð risi 0,40m. Klætt innan með panel og málað. Stærð: L. 1,40m. B. 2,20m. H. 2,50m. 1 gluggi.“ Árið 1993 var húsið stækkað töluvert.4Gláma Kím arkitektar (2021, 15. janúar). Vesturbær Hafnarfjarðar. Húsakönnun, bls. 44.
Leitarorð: Hafnarfjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 2. febrúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Jón Kr. Gunnarsson (1998). Húsin voru rifin á Vatnsleysuströndinni og flutt inn í Hafnarfjörð. Viðtal við Jón Guðmundsson rafvirkjameistara. Í Af kunnum æskuslóðum. Viðtöl við valinkunna eldri Hafnfirðinga, bls. 98. Hafnarfirði: Rauðskinna.
- 2Manntal.is. Sótt 28. september 2020 af https://manntal.is/; Guðmundur Björgvin Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 351 og 361. Útgáfustaðar ekki getið: höfundur.
- 3Guðmundur Björgvin Jónsson (1987), bls. 351 og 361; Jón Kr. Gunnarsson (1998), bls. 101-103; Hafnarfjörður (1913, 24. nóvember). Morgunblaðið, 1. árg., 23. tbl., bls. 106; Margrét S. Jónsdóttir (2024, 31. janúar). Tölvupóstur.
- 4
Deila færslu
Síðast uppfært 2. febrúar, 2024