Vallargata 13, Keflavík
Saga:
Þegar breikka átti Aðalgötuna í Keflavík undir lok síðustu aldar og reisa þar ný fjölbýlishús þurftu öll gömlu húsin sem stóðu við Aðalgötuna á milli Túngötu og Kirkjuvegs að víkja. Húsið númer 12 við Aðalgötu, Litla Garðshorn, endaði í Garði, en húsið númer 14 fór aðeins styttra.1Jónatan Ingimarsson (2023, 4. janúar). Tölvupóstur. Húsbóndi hússins númer 14 var bróðir húsmóðurinnar í húsi númer 12.
Árið 1908 byggði Eyjólfur Þórarinsson (1867-1931) hús í Garðshorni í Keflavík, sem leysti af hólmi eldra hús á jörðinni. Eyjólfur byggði hús sitt að mestu sjálfur og einnig ýmsa innansstokksmuni í húsið, enda var hann vel hagur á bæði tré og járn og var harðduglegur til allra verka og var sívinnandi að smíðum þegar stund gafst frá sjósókn og öðrum aðkallandi störfum.
Eiginkona hans var Guðrún Egilsdóttir (1866-1941).2Marta Valgerður Jónsdóttir (1958, 1. febrúar). Minningar frá Keflavík. Faxi, 18. árg., 2. tbl., bls. 18-20. Um Guðrúnu sagði Marta Valgerður Jónsdóttir í Faxa árið 1958:
Guðrún Egilsdóttir var myndarkona, er bar í svipmóti auðsæ merki um geð og gerð, hún var forkur dugleg og hreinleg að sama skapi, hún var ágæt matreiðslukona, enda tók hún oft menn í fæði um lengri eða skemmri tíma. Var allt hreint og fágað á heimili hcnnar, utan húss sem innan. Man ég hve þvottur hennar var drifhvítur og fallegur og vel hengdur upp á snúrurnar.
Kæmi það fyrir að ég væri send í hús hennar, tók hún ævinlega á móti mér með hýru brosi, sem leið svo fallega yfir andlitið og gerði svip hennar móðurlega mildan.3Marta Valgerður Jónsdóttir (1958, 1. febrúar), bls. 18.
Þau Eyjólfur og Guðrún eignuðust 7 börn. Sum þeirra bjuggu um tíma í Garðshorni með sínum fjölskyldum, þannig að þar var oft mjög mannmargt, og stundum bættust vetrarmenn til sjóróðra við. Sem dæmi má nefna að 1. desember árið 1920 bjuggu 18 manns í húsinu.4K. A. J. (1998, 1. desember). Garðshorn við Aðalgötu. Ættarsögubrotum raðað saman. Faxi, 58. árg., 5. tbl., bls. 120-123. Síðar fékk húsið númerið 14 við Aðalgötu og stóð á horni Aðalgötu og Kirkjuvegar.
Þegar Garðshornshjónin voru öll tók Eyjólfur (1904-1977) vélsjóri, sonur þeirra, við húsforráðum í Garðshorni ásamt konu sinni Sigurbjörgu Davíðsdóttur (f. 1907). Hún lést árið 1997 í húsi sínu. Eftir hennar dag fór húsið úr eigu Garðshornsfólksins og árið eftir andlát Sigurbjargar var húsið flutt að Vallargötu 13 í Keflavík.5K. A. J. (1998, 1. desember).
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 25. mars, 2024
Heimildaskrá
- 1Jónatan Ingimarsson (2023, 4. janúar). Tölvupóstur.
- 2Marta Valgerður Jónsdóttir (1958, 1. febrúar). Minningar frá Keflavík. Faxi, 18. árg., 2. tbl., bls. 18-20.
- 3Marta Valgerður Jónsdóttir (1958, 1. febrúar), bls. 18.
- 4K. A. J. (1998, 1. desember). Garðshorn við Aðalgötu. Ættarsögubrotum raðað saman. Faxi, 58. árg., 5. tbl., bls. 120-123.
- 5K. A. J. (1998, 1. desember).
Deila færslu
Síðast uppfært 25. mars, 2024