Aðalgata 14 í Keflavík skömmu áður en húsið var flutt. Heimild: K. A. J. (1998, 1. desember). Garðshorn við Aðalgötu. Ættarsögubrotum raðað saman. Faxi, 58. árg., 5. tbl., bls. 120.
Aðalgata 14 í Keflavík skömmu áður en húsið var flutt. Heimild: K. A. J. (1998, 1. desember). Garðshorn við Aðalgötu. Ættarsögubrotum raðað saman. Faxi, 58. árg., 5. tbl., bls. 120.

Vallargata 13, Keflavík

Heiti: Garðshorn
Byggingarár: 1908
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Eyjólfur Þórarinsson og Guðrún Egilsdóttir
Aðrir eigendur:
1941-1997: Eyjólfur Eyjólfsson og Sigurbjörg Davíðsdóttir
Upphafleg staðsetning: Aðalgata 14, Keflavík
Flutt: 1998 að Vallargötu 13, Keflavík

Saga:

Þegar breikka átti Aðalgötuna í Keflavík undir lok síðustu aldar og reisa þar ný fjölbýlishús þurftu öll gömlu húsin sem stóðu við Aðalgötuna á milli Túngötu og Kirkjuvegs að víkja. Húsið númer 12 við Aðalgötu, Litla Garðshorn, endaði í Garði, en húsið númer 14 fór aðeins styttra.1Jónatan Ingimarsson (2023, 4. janúar). Tölvupóstur. Húsbóndi hússins númer 14 var bróðir húsmóðurinnar í húsi númer 12.

Árið 1908 byggði Eyjólfur Þórarinsson (1867-1931) hús í Garðshorni í Keflavík, sem leysti af hólmi eldra hús á jörðinni. Eyjólfur byggði hús sitt að mestu sjálfur og einnig ýmsa innansstokksmuni í húsið, enda var hann vel hagur á bæði tré og járn og var harðduglegur til allra verka og var sívinnandi að smíðum þegar stund gafst frá sjósókn og öðrum aðkallandi störfum.

Eiginkona hans var Guðrún Egilsdóttir (1866-1941).2Marta Valgerður Jónsdóttir (1958, 1. febrúar). Minningar frá Keflavík. Faxi, 18. árg., 2. tbl., bls. 18-20. Um Guðrúnu sagði Marta Valgerður Jónsdóttir í Faxa árið 1958:

Guðrún Egilsdóttir var myndarkona, er bar í svipmóti auðsæ merki um geð og gerð, hún var forkur dugleg og hreinleg að sama skapi, hún var ágæt matreiðslukona, enda tók hún oft menn í fæði um lengri eða skemmri tíma. Var allt hreint og fágað á heimili hcnnar, utan húss sem innan. Man ég hve þvottur hennar var drifhvítur og fallegur og vel hengdur upp á snúrurnar.
Kæmi það fyrir að ég væri send í hús hennar, tók hún ævinlega á móti mér með hýru brosi, sem leið svo fallega yfir andlitið og gerði svip hennar móðurlega mildan.3Marta Valgerður Jónsdóttir (1958, 1. febrúar), bls. 18.

Vallargata 13, Keflavík.

Þau Eyjólfur og Guðrún eignuðust 7 börn. Sum þeirra bjuggu um tíma í Garðshorni með sínum fjölskyldum, þannig að þar var oft mjög mannmargt, og stundum bættust vetrarmenn til sjóróðra  við. Sem dæmi má nefna að 1. desember árið 1920 bjuggu 18 manns í húsinu.4K. A. J. (1998, 1. desember). Garðshorn við Aðalgötu. Ættarsögubrotum raðað saman. Faxi, 58. árg., 5. tbl., bls. 120-123. Síðar fékk húsið númerið 14 við Aðalgötu og stóð á horni Aðalgötu og Kirkjuvegar.

Þegar Garðshornshjónin voru öll tók Eyjólfur (1904-1977) vélsjóri, sonur þeirra, við húsforráðum í Garðshorni ásamt konu sinni Sigurbjörgu Davíðsdóttur (f. 1907). Hún lést árið 1997 í húsi sínu. Eftir hennar dag fór húsið úr eigu Garðshornsfólksins og árið eftir andlát Sigurbjargar var húsið flutt að Vallargötu 13 í Keflavík.5K. A. J. (1998, 1. desember).

 

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 25. mars, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Jónatan Ingimarsson (2023, 4. janúar). Tölvupóstur.
  • 2
    Marta Valgerður Jónsdóttir (1958, 1. febrúar). Minningar frá Keflavík. Faxi, 18. árg., 2. tbl., bls. 18-20.
  • 3
    Marta Valgerður Jónsdóttir (1958, 1. febrúar), bls. 18.
  • 4
    K. A. J. (1998, 1. desember). Garðshorn við Aðalgötu. Ættarsögubrotum raðað saman. Faxi, 58. árg., 5. tbl., bls. 120-123.
  • 5
    K. A. J. (1998, 1. desember).

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 25. mars, 2024