Skerplugata 5, Reykjavík
Tjarnargata 5a, Reykjavík, 1975-1985. Ljósm.: Hannes Pálsson. Borgarsögusafn. Myndasafn. Mynd nr. HAP RVK 152 2-2. jpg. Sótt 1. ágúst 2024 af https://borgarsogusafn.is/myndasafn.
Hús til brottflutnings. Tjarnargata 5A, Reykjavík (1989, 16. desember). Þjóðviljinn, 64. árg., 217. tbl., bls. 9.
Til vinstri er húsið frá Tjarnargötu 5a í Skerjafirði, þar sem það bíður þess að komast á nýjan grunn við Skerplugötu 5 í júní 1990. Hitt húsið er Bergstaðastræti 8, sem á að verða Skerplugata 4. Gömul hús í nýju hverfi (1990, 23. júní). Dagblaðið – Vísir, 80. og 16. árg., 141. tbl., bls. 23.
Skerplugata 5, Reykjavík, um 2015. Ljósm.: Höfundur.
Saga:
Árið 1895 lét Geir T. Zoëga (1857-1928), kennari og rektor Latínuskólans í 14 ár, byggja fyrir sig tvílyft timburhús á syðsta hluta lóðar sinnar við Tjarnargötu 5, en hann hafði þá búið í 10 ár í húsinu númer 5 við Tjarnargötu, en flutti í nýja húsið um leið og það var tilbúið og seldi það gamla. Nýja húsið fékk númerið 5a við Tjarnargötu og þar bjó hann með fjölskyldu sinni til ársins 1917.
Með annasömu starfi sínu samdi Geir þrjár orðabækur, ensk-íslenska, íslensk-enska og orðabók yfir íslenskt fornmál með enskum þýðingum. Eiginkona hans var Bryndís Sigurðardóttir (1858-1924). Þau gengu í hjónaband árið 1884 og eignuðust sex börn. Meðal þeirra var Geir vegamálastjóri og Sigríður ljósmyndari.
Upphaflega var suðurhlið og austurgafl hússins klætt járni en borðaklæðning var á hinum hliðum þess en þak var með lágu járnklæddu risi. Árið 1925 er byggð viðbygging við norðurgafl hússins úr steyptum steini og árið 1935 var allt húsið járnklætt. Eftir það var húsinu lítið breytt, nema póstar voru teknir úr gluggum á efri hæð.
Árið 1917 keypti Christen Zimsen (1882-1932), afgreiðslumaður Sameinaða gufuskipafélagsins, húsið og bjó þar með fjölskyldu sinni fram yfir 1930. Eiginkona hans var Johanne Zimsen (f. Hartmann, 1883-1957). Þau eignuðust tvö börn.
Húsið var notað til íbúðar fram yfir 1975 og oftast bjuggu þar tvær fjölskyldur. Eftir það voru skrifstofur í húsinu. Nokkrum árum eftir að síðustu íbúarnir fluttu úr húsinu var farið að tala um að húsið þyrfti að víkja vegna þess að auka þurfti húsakost Alþingis. Það var þó ekki fyrr en árið 1989 að húsið var auglýst til brottflutnings og árið eftir skrifaði Sigurður Örlygsson undir leigusamning um lóð fyrir húsið að Skerplugötu 5 í Reykjavík, þar sem húsið stendur enn. Þar var þá að myndast nýtt hverfi sem samanstóð af gömlum aðfluttum húsum. Sigurður var myndlistarmaður og hugðist innrétta vinnustofu í húsinu auk íbúðar.1Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1987). Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur, bls. 255. Reykjavík: Torfusamtökin; Árbæjarsafn. Húsaskrá Reykjavíkjur. Í gagnasafni Húsafriðunarnefndar; Geir T. Zoëga (1918, 17. apríl). Morgunblaðið, 15. árg., 88. tbl., bls. 3; Christen Zimsen ræðismaður (1932, 27. maí). Vísir, 22. árg., 141. tbl., bls. 2; Hús til brottflutnings. Tjarnargata 5A, Reykjavík (1989, 16. desember). Þjóðviljinn, 64. árg., 217. tbl., bls. 9; Gömul hús í nýju hverfi (1990, 23. júní). Dagblaðið Vísir, 141. tbl., bls. 23.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 2. ágúst, 2024
Heimildaskrá
- 1Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1987). Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur, bls. 255. Reykjavík: Torfusamtökin; Árbæjarsafn. Húsaskrá Reykjavíkjur. Í gagnasafni Húsafriðunarnefndar; Geir T. Zoëga (1918, 17. apríl). Morgunblaðið, 15. árg., 88. tbl., bls. 3; Christen Zimsen ræðismaður (1932, 27. maí). Vísir, 22. árg., 141. tbl., bls. 2; Hús til brottflutnings. Tjarnargata 5A, Reykjavík (1989, 16. desember). Þjóðviljinn, 64. árg., 217. tbl., bls. 9; Gömul hús í nýju hverfi (1990, 23. júní). Dagblaðið Vísir, 141. tbl., bls. 23.
Deila færslu
Síðast uppfært 2. ágúst, 2024