Skerplugata 4, Reykjavík
Bergstaðastræti 8 nýkomið á Skerplugötuna í júní 1990. Sú hlið sem sneri til vesturs á Bergstaðastræti. Ljósm.: Sveinn Þórðarson. Gömul hús í nýju hverfi (1990, 23. júní). Dagblaðið – Vísir, 80. og 16. árg., 141. tbl., bls. 23.
Skerplugata 4 í Reykjavík, í júní 2022. Ljósm.: Ja.is.
Saga:
Árið 1900 byggði Guðmundur Magnússon (1850-1918) steinsmiður (múrari) einlyft timburhús með risi á lóðinni nr. 8 við Bergstaðastræti.1Þorsteinn Jónsson (2011). Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg. Aðalstræti – Bergstaðastræti 8, bls. 313. Reykjavík: Sögusteinn. Í nóvember var húsið virt til brunabóta. Í matsgjörðinni segir m.a.:
Hús þetta er byggt af bindingi, klætt utan borðum, pappa og járni þar yfir á þrjá vegu og með járnþaki á súð með pappa á milli. Niðri í húsinu eru 4 herbergi auk eldhúss, allt þiljað og málað og 2 af herbergjunum með panilpappa innaná þiljum og neða á loptum sem öll eru tvöföld. Þar eru 2 ofnar og 2 eldavjelar. Uppi eru 4 eldhús [líklega er átt við herbergi] allt þiljað og málað. Þar er 1 ofn og 1 eldavjel.
Kjallari er undir öllu húsinu og hann hólfaður í 4 rími.
Við vesturhlið hússins er inn og uppgangsskúr, bygður af bindingi, klæddur utan járni á langböndum og með járnþaki á langböndum.2Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Brunabótavirðingar 1900 til 1905. Aðfnr. 735.
Fimm árum síðar reisti hann annað hús áfast við norðurgafl eldra hússins.3Borgarsögusafn – Árbæjarsafn. Húsaskrá Reykjavíkur. Það var einnig með húsnúmerið 8 og árið 1910 voru alls 22 skráðir til heimilis í báðum húsunum að Bergstaðastræti 8 4Þjóðskjalasafn Íslands. Manntal 1910. Sótt 5. október 2023 af https://manntal.is/.
Eiginkona Guðmundar var Katrín Halldórsdóttir (1852-1914). Henni hafði Guðmundur kvænst árið 1895 og áttu þau eina dóttur. Fyrri kona hans var Sigríður Gísladóttir (f. 1852), sem lést árið 1882. Þau eignuðust fjögur börn.5Þorsteinn Jónsson (2011), bls. 313
Um 1990 var húsið flutt að Skerplugötu 4 í Litla Skerjafirði, en þangað var fluttur talsverður fjöldi húsa sem þurftu að víkja af sínum upprunalega vegna nýbygginga og annarra framkvæmda.
Við Bergstaðastrætið var reist fjölbýlishús og bílastæðahús.
Þess má geta að um svipað leyti var húsið númer 6c við Bergstaðastræti flutt í Skerjafjörð og varð númer 9 við Skerplugötu, þannig að enn eru húsin nágrannar.
Leitarorð: Skerjafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 4. mars, 2024
Heimildaskrá
- 1Þorsteinn Jónsson (2011). Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg. Aðalstræti – Bergstaðastræti 8, bls. 313. Reykjavík: Sögusteinn.
- 2Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Brunabótavirðingar 1900 til 1905. Aðfnr. 735.
- 3Borgarsögusafn – Árbæjarsafn. Húsaskrá Reykjavíkur.
- 4Þjóðskjalasafn Íslands. Manntal 1910. Sótt 5. október 2023 af https://manntal.is/.
- 5Þorsteinn Jónsson (2011), bls. 313
Deila færslu
Síðast uppfært 4. mars, 2024