Ránargata 2, Flateyri
Saga:
Árið 1912 missti Guðrún Torfadóttir (1872-1956) eiginmann sinn Jóhann Lúther Sveinbjarnarson (1854-1912), prest að Hólmum í Reyðarfirði. Þá ákvað ekkjan að flytja ásamt börnum sínum fjórum og tveimur fósturdætrum aftur til æskustöðvanna, vestur til Sólbakka í Önundarfirði, þar sem móðir hennar og systkini bjuggu. Áður en Guðrún giftist séra Jóhanni hafði hún lokið námi frá Den kvindelige industriskole sem handavinnukennari telpna og starfaði í verslun á Ísafirði.
Ásamt Ástríði Torfadóttur (1867-1949) systur sinni lét Guðrún reisa nýtt hús að Sólbakka sem kallað var Litlabýli. Árið 1936 var húsið flutt út á Flateyri, þar sem það stendur enn við Ránargötu 2. Guðrún gerðist símstöðvarstjóri á Flateyri og var símstöðin rekin í húsi hennar og jafnframt pósthús þegar póstafgreiðsla var opnuð í húsinu árið 1961. Starfinu gegndi hún til ársins 1942 þegar María (1907-2003) dóttir hennar tók við af henni, en starfsemin var í húsinu þar til Póstur og sími byggði hús sitt handan götunnar árið 1966.
Þær systur Ástríður og Guðrún bjuggu saman á meðan báðar lifðu og oft var gestkvæmt í Litlabýli, þær systur gestrisnar og settu mark sitt á bæjarlífið. Ástríður nam hjúkrunarfræði erlendis og stundaði hjúkrunarstörf framan af ævi. Hún var barnlaus en bar hag systkinabarna sinna í brjósti og sinnti þeim sem sínum eigin börnum, sérstaklega þó börnum Guðrúnar. Guðrún sinnti félags- og mannúðarmálum og var m.a. fyrsti formaður kvenfélagsins Brynju á Flateyri og gegndi því starfi í 23. ár.1Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir (2016). Þorp verður til á Flateyri. 1. hefti. Þræðir spunnur út frá sendibréfum föður til sonar, bls. 17-19. Þingeyri: Vestfirska forlagið; Minning: María Jóhannsdóttir (2003, 12. desember). Morgunblaðið, 91. árg., 337. tbl., bls. 56; Snorri Sigfússon (1969). Ferðin frá Brekku. Minningar II, bls. 40-41. Reykjavík: Iðunn.
Leitarorð: Önundarfjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 23. febrúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir (2016). Þorp verður til á Flateyri. 1. hefti. Þræðir spunnur út frá sendibréfum föður til sonar, bls. 17-19. Þingeyri: Vestfirska forlagið; Minning: María Jóhannsdóttir (2003, 12. desember). Morgunblaðið, 91. árg., 337. tbl., bls. 56; Snorri Sigfússon (1969). Ferðin frá Brekku. Minningar II, bls. 40-41. Reykjavík: Iðunn.
Deila færslu
Síðast uppfært 23. febrúar, 2024