Hömluholt 1953. Heimild: Þorsteinn Jónsson (2000). Eyja- og Miklaholtshreppur. Ábúendur og saga Eyja- og Miklaholtshrepps frá 1900, bls. 55. Reykjavík: Sögusteinn.
Hömluholt 1953. Heimild: Þorsteinn Jónsson (2000). Eyja- og Miklaholtshreppur. Ábúendur og saga Eyja- og Miklaholtshrepps frá 1900, bls. 55. Reykjavík: Sögusteinn.

Hömluholt, Eyja- og Miklaholtshreppi

Heiti: Skógarneshólmi – Hólmur - Hömluholt
Byggingarár: 1913
Brann: 1963
Upphafleg notkun: Verslunarhús
Fyrsti eigandi: Verslunin Tang & Riis
Aðrir eigendur:
1932: Þorkell Teitsson
1935: Sigurgeir Þórarinsson og Jófríður Margrét Jónsdóttir
1942: Bjarni Einarsson og Skúlína Friðbjörnsdóttir
Upphafleg staðsetning: Skógarneshólmi í landi Syðra-Skógarness í Miklaholtshreppi
Flutt: 1935 að Hömluholtum

Saga:

Skógarneshólmi er í landi Syðra-Skógarness í Miklaholtshreppi. Þaðan var talsvert útræði á fyrri öldum. Upp úr 1890 hófust reglubundnar skipaferðir með fólk og vörur frá Reykjavík í Skógarneshólma eða Hólminn, eins og staðurinn var oftast nefndur. Skömu síðar fara að koma þangað lausakaupmenn á skipum með vörur sínar, svonefndir spekúlantar. Engin aðstaða var þó í Hólminum heldur varð fólk að fara um borð í skipin til að versla. Árið 1905 var þar löggiltur verslunarstaður og verslunin Tang & Riis í Stykkishólmi reisti fyrsta verslunarhúsið. Fyrst í stað var ekki um fasta búsetu þar að ræða, en 1913 hafði Tang & Riis bæði reist þar verslunarhús og íbúðarhús verslunarstjóra. Fyrsti verslunarstjórinn þar með fasta búsetu var Helgi Guðmundsson (1889-1943), sem bjó þar ásamt konu sinni Kristínu Ólafsdóttur (1891-1986) til ársins 1917 þegar Ólafur Sigvaldason Blöndal (1888-1966) tók við og stýrði versluninni þar til hún var lögð niður árið 1932. Eignirnar, þ.e. verslunarhús, sláturhús, íbúðarhús, fjós og hlöðu, keypti Þorkell Teitsson (1891-1949) símstöðvarstjóri og póstafgreiðslumaður í Borgarnesi. Um tíma frá árinu 1930 bjuggu hjónin Kristján Gíslason (1897-1990) og Jóhanna Ólafsdóttir (1897-1980) í faktorshúsinu. Þorkell reyndi að stunda verslun í smáum stíl í Skógarnesi í nokkur ár, en árið 1935 voru húsin seld og flutt burt. Jón Aðalsteinn Sigurgeirsson (1901-1946) frá Hömluholtum keypti íbúðarhúsið og endurbyggði það á Vegamótum í Miklaholtshreppi, verslunarhúsið var flutt að Hömluholtum og sláturhúsið var flutt að Ytra-Rauðamel og reist þar á ný sem fjós og hlaða.1Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur (2014, maí). Eyja- og Miklaholtshreppur. Húsa- og mannvirkjakönnun 2012-2014, bls. 19;  Þorsteinn Jónsson (2000). Eyja- og Miklaholtshreppur. Ábúendur og saga Eyja- og Miklaholtshrepps frá 1900, bls. 210-215. Reykjavík: Sögusteinn.

Á þessum tíma bjuggu Sigurgeir Þórarinsson2Sigurgeir var faðir Jóns, sem keypti íbúðarhúsið í Skógarneshólma og flutti að Vegamótum (sjá þar). (1873-1938) og Jófríður Margrét Jónsdóttir (1872-1953) í Hömluholtum. Þegar Sigurgeir lést hélt Jófríður áfram búskap til ársins 1942. Við tóku þau Bjarni Einarsson (1913-1966) og Skúlína Friðbjörnsdóttir (1914-1995) og síðan hjónin Ármann Bjarnfreðsson (1928-1988) og Kristín Óskarsdóttir (1925-2012), sem leigðu hjá Bjarna.3Þorsteinn Jónsson (2000), bls. 54-59.

Þegar Ármann og Kristín fluttust með barnahópinn sinn [þau eignuðust 12 börn] að Hömluholtum var hann fullur bjartsýni en henni féllust hendur þegar hún sá nýja heimilið, bárujárnsklæddan timburhjalla, sem hvorki hélt vatni né vindum. Ekki var vatn né rafmagn leitt í húsið, er brunnur með rauðamýrarvatni þjónaði bæði mönnum og skepnum, en í þær þurfti að bera allt vatn þegar þær voru á húsi.4Þorsteinn Jónsson (2000), bls. 58.

Þegar íbúðarhúsið brann til kaldra kola haustið 1963 fluttu þau hjón burt. Húsið brann til grunna á klukkutíma, en allir sem þar voru inni björguðust en svo til engu af innanstokksmunum var bjargað.5Slapp með 8 börn úr logandi bænum (1963, 29. október). Tíminn, 47. árg., 234. tbl., bls. 1 og 15.

 

Leitarorð: Snæfellsnes

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 31. janúar, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 31. janúar, 2024