Leirárdalur
Hákot við Kirkjubraut 28 á Akranesi, 1930-1949. Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 21245. Sótt 26. júlí 2023 af http://ljosmyndasafn.akranes.is/myndir.

Hákot, skátaskáli Leirárdal

Heiti: Hákot
Byggingarár: 1926
Rifið: 1978
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Sveinbjörg Eyvindsdóttir
Aðrir eigendur:
1962: Skátafélag Akraness
1978: Stefán Þorsteinsson
Upphafleg staðsetning: Kirkjubraut 28, Akranesi
Flutt: 1962 í Leirárdal í Skarðsheiði
Hvernig flutt: Í heilu lagi
Hákot dregið á grunn sinn í Leirárdal. Líklega árið 1962 eða 1963. Ljósm.: Þjóðbjörn Hannesson.

Hákot dregið á grunn sinn í Leirárdal. Líklega árið 1962 eða 1963. Ljósm.: Þjóðbjörn Hannesson.

Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 52660. Sótt 28. júlí 2023 af http://ljosmyndasafn.akranes.is/myndir.

Hákot-í-Leirárdal

Hákot í Leirárdal (1970-1979). Ljósm: Haraldur Bjarnason.

Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 25109. Sótt 28. júlí 2023 af http://ljosmyndasafn.akranes.is/myndir.

Saga:

Sveinbjörg Eyvindsdóttir (1902-1959) tók við húsmóðurstörfum í Hákoti á Akranesi árið 1919, aðeins 17 ára gömul. Hún var gift Valdimar Jónssyni (1891-1922) sem tekið hafði við Hákoti af afa sínum árið 1919. Valdimar var sjómaður og var um margra ára skeið vélamaður á mótorbátum. Hann fórst með mótorbátnum Heru árið 1922. En Sveinbjörg gafst ekki upp, enda „… afburða dugleg kona, hyggins og stjórnsöm …“1Ólafur B. Björnsson (1948). Hversu Akranes byggðist. 3. kafli. – 1840-1870. Byggðin eykst og færist ofar. Akranes, 9.-12. tbl., bls. 128.. Fjórum árum eftir að hún varð ekkja jafnaði hún húsin í Hákoti við jörðu, en byggði í þeirra stað snoturt, lítið timurhús, sem var númer 28 við Kirkjubraut.

Sveinbjörg kom einnig einkasyni þeirra hjóna, Eyvindi (1921-2002), til mennta hjálparlaust og af eigin rammleik. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1942 og í byggingarverkfræði í Svíþjóð árið 1949.2Minning: Eyvindur Valdimarsson (2002, 17. september). Morgunblaðið, 90. árg., 217. tbl., bls. 34. „Má af því sjá að ekki er dagsverkið alllítið, auk þess að sjá fyrir móður sinni aldurhniginni.“3Ólafur B. Björnsson (1948). Hversu Akranes byggðist. 3. kafli. – 1840-1870. Byggðin eykst og færist ofar. Akranes, 9.-12. tbl., bls. 128.

Árið 1937 giftist Sveinbjörg í annað sinn, Sigurði Guðnasyni (1914-1959). Og í annað sinn missti hún mann sinn í sjóinn, því Sigurður drukknaði með mótorbátnum Júlí í febrúar 1959. Ekki lifði Sveinbjörg mann sinn lengi, því hún lést í júlí sama ár.4Ólafur B. Björnsson (1948). Hversu Akranes byggðist. 3. kafli. – 1840-1870. Byggðin eykst og færist ofar. Akranes, 9.-12. tbl., bls. 124-130; Úr handraða sóknarprests (1960, 2. febrúar). Bæjarblaðið, 2. tbl., bls. 3; Minning: Eyvindur Valdimarsson (2002, 17. september). Morgunblaðið, 90. árg., 217. tbl., bls. 34.

Þegar Búnaðarbanki Íslands hugðist byggja yfir starfsemi sína á Akranesi þurfti Hákot að víkja. Í Morgunblaðinu 14. júní 1962 er lítil grein með fyrirsögninni: „Skátaskáli Akurnesinga undir Skarðsheiðinni“. Þar segir að nýverið hafi skátafélag Akraness keypt gamla Hákot á Kirkjubraut 28 og hafi nýlokið við að grafa og steypa grunn undir húsið „uppi undir Skarðsheiði, norðan Leirár, sem fellur ofan úr Leirárdal“ og flytja eigi húsið um leið og jörð þornar. Bæði ætla skátarnir að nota húsið til útilegu á sumrin og sem skíðaskála á vetrum.5Skátaskáli Akurnesinga undir Skarðsheiðinni (1962, 14. júní). Morgunblaðið, 49. árg., 132. tbl., bls. 23; Þjóðbjörn Hannesson (2023, 4. september). Munnleg heimild.

Skálinn var síðan fluttur í september sama ár. „Voru þeir [sem fluttu skálann] 7-8 klst. síðasta áfangann, 5 km veg, eftir melunum frá þjóðveginum að heiðinni og höfðu sér til hjálpar tvo 10 hjóla trukka, jarðýtu, traktor og vörubíl.“6Oddur (1962, 28. september). Hákot komið að Skarðsheiði. Morgunblaðið, 49. árg., 215. tbl., bls. 2.

Skálinn var vígður árið 1964.7Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 56698. Sótt 28. júlí 2023 af http://ljosmyndasafn.akranes.is/myndir.

Árið 1978 seldi skátafélagið skálann Stefáni Þorsteinssyni með því skilyrði að húsið yrði fjarlægt og öll ummerki um það afmáð. Ástæðan var sú að ekki hafði verið gengið nægilega vel frá samningum um staðsetningu skálans, sem stóð í Leirárdal í óþökk jarðeigenda. Stefán reif húsið niður og nýtti ýmsa viði þess í sumarbústað sem hann byggði sér í landi jarðarinnar Bakka í Hvalfjarðarsveit (áður Leirársveit).8Þjóðbjörn Hannesson (2023, 4. september). Munnleg heimild: Stefán Þorsteinsson (2023, 4. september). Munnleg heimild.

 

Leitarorð: Leirárdalur

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 13. desember, 2023

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 13. desember, 2023