Friðheimur, Mjóafirði
Saga:
„Í Dýrafirði var árið 1893 reist hvalstöð á Höfðaodda, sem Norðmenn nefndu Framnes.“1Trausti Einarsson (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirannsóknir Sagnfræðistofununar Háskóla Íslands 8. bindi, bls. 54. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Stöðina átti félagið Victor A/S frá Túnsbergi og hana rak Lauritz Jakob Berg. Berg (f. 1845) var ævinlega kallaður kapteinn Berg því hann var gamalreyndur hvalveiðimaður og hafði víða farið, sem meðal annars má marka af því að elstu dætur hans tvær voru fæddar í Suður-Atlandshafi og í Síam í Kína. Berg lét reisa íbúðarhús sitt spölkorn frá vinnslustöðinni.2Kjartan Ólafsson (1999). Firðir og fólk 900-1900. Vestur Ísafjarðarsýsla. Gengið bæ frá bæ í Arnarfirði, Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði, litið á landslag og hugað að mannlífi og minjum eitt þúsund ára, bls. 202. Árbók Ferðafélags Íslands 1999. Reykjavík: Ferðafélag Íslands. Heimildum ber ekki saman um heiti hússins. Í sumum heimildum er íbúðarhús Bergs nefnt Friðheimur, en annars staðar er það sagt hafa verið nafnið á samkomuhúsi því sem Norðmenn reistu á Höfðaodda.3Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir (2003). Ísafjörður og Vestfirðir – miðstöð hvalveiða, bl.s 236. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen og Magnús Skúlason ritnefnd, Af norskum rótum – gömul timburhús á Íslandi, bls. 227-249. Reykjavík: Mál og menning.; Kjartan Ólafsson (1999), bls. 202. Magnús Gíslason, sem vann við Framnesstöðina segir í endurminningum sínum að Berg hafi nefnt íbúðarhús sitt Friðheim.4Magnús Gíslason (1949). Á Hvalveiðastöðvum, bls. 19-20. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja. En dóttir Bergs, Mims, nefnir íbúðarhús fjölskyldunnar í Dýrafirði ætíð Framnes, en hús fjölskyldunnar í Mjóafirði Friðheim.5Spreckelsen, M. von (1970). Barndomsår på Island, bls. 35. Osló: E-Trykk A/S.
Þess má geta að árið 1897 flutti Berg
… nýja Mýrakirkju tilsniða til landsins og lét starfsmenn sína reisa hana. Hún var vígð í júlí sama ár og sama dag gifti elsta dóttir Bergs sig í kirkjunni. Fer tvennum sögum af þessum rausnarskap forstjórans. Samkvæmt kirkjustól Mýrakirkju lagði Berg 500 krónur til kirkjunnar en fékk það nær allt til baka fyrir timburflutninginn.6Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir (2003), bls. 236.
Magnús Gíslason hefur lýst vinnu sinni við hvalveiðistöðvar á Íslandi og erlendis. Hann vann m.a. á Framnesi um aldamótin. Honum segist m.a. svo frá:
Framnes, eða Höfðaoddi, var eins og tilvalinn staður fyrir hvalveiðistöð. Það var svo innarlega í firðinum, að þar var oftast sléttur sjór. Svo var oddinn eggsléttur og mátulega breiður fyrir hvalveiðistöðina. Að utanverðu var bryggja og kolageymsluhús upp af henni. En hinumegin á móti, innanvert á oddanum, var aðalstöðvarhúsið, stór og mikil bygging, með miklum reykháfi. Lítið eitt ofar stóðu tvö hús, hvert hjá öðru, það voru íbúðarhús verkamannanna. Milli þeirra lá gangur til hægðarauka fyrir kokkana að bera fram matinn.
Þegar hvalveiðibátarnir komu inn með hvali, fóru þeir með þá inn fyrir oddann og lögðu þeim þar við bauju. Flensararnir urðu að haga vinnu eftir sjávarföllum, því að sjór féll yfir flensu-planið á flæðum og var látið fjara þar undan hvalnum áður en spikið var tekið af honum. Kjötskurðarpallurinn var fyrir ofan flæðarmál, rétt við húshliðina. Þaðan gekk kjötið í skúffu-elevator upp á efri hæð, þar féll það í rennur, sem lágu að kötlunum.7Magnús Gíslason (1949), bls. 20-21.
Félagið flutti starfsemi sína til Hamarsvíkur í Mjóafirði árið 1903. Víkin er fyrir sunnanverðum botni fjarðarins. Stöðin var flutt með gufuskipinu Alpha, sem lagðist fyrir akkerum undir Leiru í Mjóafirði 18. febrúar. Framkvæmdahraðinn var mikill því „6. mars var kveikt upp í fyrsta sinni í hinu nýja húsi Bergs.“ Ekki er nákvæmlega vitað við hvaða hús er átt, en vitað er að 23. febrúar árið eftir brotnaði efri hliðin á húsi Bergs inn af vatnsflóði í stórrigningu.8Vilhjálmur Hjálmarsson (1988). Mjófirðingasögur. Annar hluti, bls. 243-246. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Þá virðist Berg hafa gripið til þess ráðs að ná í hús vestur í Dýrafjörð, því 15. mars
kom Alpha og Berg sjálfur með. Uppskipun lauk á fjórum dögum og þann 21. var byrjað að aka timbrinu í hús Bergs. Voru það 7 ferðir, nefnilega 14 sleðar með 2 hestum fyrsta daginn. Þremur dögum seinna settu þeir brú á ána, en í tvennu lagi. Ekki tókst þó betur til en svo, að þann 26. fauk síðari parturinn af brúnni. Úr því var snarlega bætt! Þetta var snyrtileg göngubrú sem síðan var tekin af á haustin og sett upp á vorin.
Smiðirnir unnu sitt verk og laugardaginn 28. maí flutti Berg sig inn í hið nýja hús.9Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 246.
Heimildum ber ekki alveg saman um það hvort það var íbúðarhús Bergs í Dýrafirði eða samkomuhúsið sem kapteinninn gerði að íbúðarhúsi sínu í Mjóafirði,10Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir (2003), bls. 236. en hvað sem öðru líður var forstjórabústaðurinn fallegt og myndarlegt hús „með sólríku útskoti á staurum“. (Nánar má lesa um það hús og heimilislífið á Framnesi í umfjöllum um Ólafshús í Viðey.) 11Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 246. Þegar húsið var nýreist í Mjóafirði var því lýst þannig:
34×20 fet að stærð, vegghæð 17 fet, byggt úr plönkum, þakið járni, klætt borðum, vandað að gjörð. 2 hliðarskýli við aðra hlið … sumpart innanbyggt. 14 gluggar eru á húsinu og skýlunum, húsið sundurhólfað í mörg herbergi, eldstæði 4 niðri … fordyri lítið, en vandað. Lítið þvottahús fráskilið aðalbyggingunni.12Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 246.
Í endurminningum eiginkonu kapteins Berg og dóttur hans kemur fram að fjölskyldan hafi kvatt Dýrafjörð með söknuði árið 1903 en það hefði verið bót í máli að reiðhestarnir þeirra hafi verið fluttir með. Frú Berg hugsar einnig með eftirsjá til 13 herbergja íbúðarhúss fjölskyldunnar í Dýrafirði. Þær mæðgur segja að árið eftir hafi kapteinn Berg flutt samkomuhúsið „Fredheim“ úr Dýrafirði til Mjóafjarðar, látið byggja við það og gert að íbúðarhúsi fjölskyldunnar.13Spreckelsen, M. von (1970), bls. 32-35; Berg, M. (1985). Erindringer, bls. 103. Osló: E-Trykk A/S.
Det andet år på Mjóafjord, 1904, reiste Pap op i forveien for bl. a. a bygge hus til os selv. Det blev forsamlingshuset fra stationen i Dyrefjord, Fredheim, som blev fikset op her og der. Fikset er forresten ikke ordet, for arkitekturen blev besynderlig: en etage byggen ovenpå til fire soveværesler, – en gevækst bakenfor til kjøkken, kontor, bad, o. s. v. – et særpræget bygværk. Ind flyttet vi, – det var ikke de store rummelige værelserne som på Framnes, men hyggelig blev til likevel.14Spreckelsen, M. von (1970), bls. 35.
Þó húsið hafi verið vistlegt var mikið um rottugang í því, sem var nýlunda á Íslandi, en Mims segir að þær hafi komið með skipum til landsins. Gripið var til þess ráðs að kaupa rottuhunda frá Skotlandi til að vinna bug á þessum ófögnuði.15Spreckelsen, M. von (1970), bls. 35-36.
Húsið stóð á nær sléttum, þurrlendum grundum og þar var bæði komið upp skrúðgarði og tennisflöt. Fyrsta símalögnin í Mjóafirði var lögð frá hvalstöð Bergs í íbúðarhúsið tveimur dögum áður en hann flutti inn.16Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 246.
Victorsfélagið rak stöðina í Mjóafirði til ársins 1911, þegar Peder Johannessen skipstjóri í Túnsbergi keypti hana, en hann gafst upp á rekstrinum tveimur árum síðar.17Jón Þ. Þór (2003). Hval- og síldveiðar Norðmanna við Ísland, bls. 101. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen og Magnús Skúlason ritnefnd, Af norskum rótum – gömul timburhús á Íslandi, bls. 91-103. Reykjavík: Mál og menning. „Það sem ekki þótti nýtilegt úr hvalstöðvum í Mjóafirði var bændum selt á uppboði.“18Trausti Einarsson (1987), bls. 54.
Í bókinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi segir þetta um hús Bergs:
Tómas Ólafsson keypti framkvæmdastjórabústað hvalveiðistöðvarinnar 1914, reif húsið og endurbyggði ásamt Þorsteini Tómassyni 1921 á sléttri grund milli [Fjarðar í Mjóafirði] og Fjarðarár skammt inn af fjarðarbotninum miðjum. Tvær íbúðir voru í húsinu, enda löngum tvíbýli. Býlið var jafnan nefnt Friðheimur. Það féll úr ábúð 1956, en húsið stendur enn [1975].19Sveitir og jarðir í Múlaþingi. II. bindi. Fljótsdalur, Skriðdalur, Skógar og Vellir, Egilsstaðahreppur, Eiðaþinghá, Hjaltastaðaþinghá, Borgarfjörður, Loðmundarfjörður, Seyðisfjörður, Mjóifjörður, bls. 535 (1975). [Egilsstöðum:] Búnaðarsamband Austurlands.bls. 535.
Vilhjálmur Hjálmarsson segir hins vegar að hús Bergs hafi verið rifið árið 1922
og byggt annað litlu ofar á grundinni. Það hafði þá í nærri áratug verið notað sem samkomustaður, einkum fyrir fólkið í Fjarðarbýlunum. Þar var ekki aðeins dansað á síðkvöldum heldur einnig haldin leiðarþing og samkomur með fleiri dagskrárliðum. Fyrir kom að prestar höfðu þar helgistund með fólkinu. Suma vetur var líka kennt börnum í Friðheimi.20Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 391.
Hann heldur áfram og segir að ef til vill hafi hinn fallegi forstjórabústaður ekki verið hentugt húsnæði til að búa í allt árið því það þótti „þurrksælt“ og hafi það líklega verið ástæðan fyrir því að „bændur rifu hið glæsilega hús til grunna og byggðu annað“.21Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 391. Af þessu má ráða að Hjörleifur Guttormsson hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að sá Friðheimur sem enn stendur í Hamarsvík, litlu ofar en hann var upphaflega reistur, sé byggður upp úr viðum íbúðarhúss kapteins Bergs.22Hjörleifur Guttormsson (2005). Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar, bls. 169. Árbók Ferðafélag Íslands 2005. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
Þeir Tómas og Þorsteinn, sem byggðu upp Friðheim, voru svilar. Tómas og Guðríður Magnúsdóttir keyptu Friðheim árið 1914, þegar Tómas vitjaði átthaga sinna á ný eftir að hafa verið í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og búið í Reykjavík í 14 ár. Hann þótti ötull sjósóknari og farsæll formaður. Þorsteinn fluttist til Mjóafjarðar ásamt Björgu, eiginkonu sinni og systur Guðríðar, árið 1921. Hann hafði engan búskap og stundaði ekki sjó, en var völundur í höndunum og lærður skipasmiður og reyndi að sjá fyrir sér og sínum með smíðum, sem Mjófirðingar kunnu vel að meta, þó verkefnin væru ekki næg.23Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 392-398. Strax árið eftir að hann kom til Mjóafjarðar
rifu þeir svilar forstjórabústaðinn í Friðheimi sem orðinn var gisinn og kaldur og ekki hentugur fyrir tvær fjölskyldur. Steyptu þeir grunn ofan við gamla húsið og byggðu þar annað nýtt, innréttað fyrir tvær fjölskyldur. Var húsgrindin reist 18. júlí 1922. Þótt byggt væri úr gömlu timbri að hluta var nýja húsið vandað að gerð og íbúðirnar dásnotrar, en fremur litlar að flatarmáli.24Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 398.
Þess skal getið að það er annað hús sem gerir tilkall til að vera forstjórahús hvalveiðistöðvarinnar á Framnesi. Það er hús sem flutt var til Viðeyjar og kallað þar Ólafshús. Ekki er hægt að skera úr um hvaða hús var flutt hvert, en lausnin er líklega sú að samkomuhúsið á Framnesi, Friðheimur, hafi verið flutt í Mjóafjörð en íbúðarhús stöðvarstjóra til Viðeyjar, þ.e. Framnes.
Leitarorð: Dýrafjörður – Mjóifjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 15. mars, 2024
Heimildaskrá
- 1Trausti Einarsson (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirannsóknir Sagnfræðistofununar Háskóla Íslands 8. bindi, bls. 54. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
- 2Kjartan Ólafsson (1999). Firðir og fólk 900-1900. Vestur Ísafjarðarsýsla. Gengið bæ frá bæ í Arnarfirði, Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði, litið á landslag og hugað að mannlífi og minjum eitt þúsund ára, bls. 202. Árbók Ferðafélags Íslands 1999. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
- 3Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir (2003). Ísafjörður og Vestfirðir – miðstöð hvalveiða, bl.s 236. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen og Magnús Skúlason ritnefnd, Af norskum rótum – gömul timburhús á Íslandi, bls. 227-249. Reykjavík: Mál og menning.; Kjartan Ólafsson (1999), bls. 202.
- 4Magnús Gíslason (1949). Á Hvalveiðastöðvum, bls. 19-20. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
- 5Spreckelsen, M. von (1970). Barndomsår på Island, bls. 35. Osló: E-Trykk A/S.
- 6Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir (2003), bls. 236.
- 7Magnús Gíslason (1949), bls. 20-21.
- 8Vilhjálmur Hjálmarsson (1988). Mjófirðingasögur. Annar hluti, bls. 243-246. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
- 9Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 246.
- 10Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir (2003), bls. 236.
- 11Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 246.
- 12Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 246.
- 13Spreckelsen, M. von (1970), bls. 32-35; Berg, M. (1985). Erindringer, bls. 103. Osló: E-Trykk A/S.
- 14Spreckelsen, M. von (1970), bls. 35.
- 15Spreckelsen, M. von (1970), bls. 35-36.
- 16Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 246.
- 17Jón Þ. Þór (2003). Hval- og síldveiðar Norðmanna við Ísland, bls. 101. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen og Magnús Skúlason ritnefnd, Af norskum rótum – gömul timburhús á Íslandi, bls. 91-103. Reykjavík: Mál og menning.
- 18Trausti Einarsson (1987), bls. 54.
- 19Sveitir og jarðir í Múlaþingi. II. bindi. Fljótsdalur, Skriðdalur, Skógar og Vellir, Egilsstaðahreppur, Eiðaþinghá, Hjaltastaðaþinghá, Borgarfjörður, Loðmundarfjörður, Seyðisfjörður, Mjóifjörður, bls. 535 (1975). [Egilsstöðum:] Búnaðarsamband Austurlands.bls. 535.
- 20Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 391.
- 21Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 391.
- 22Hjörleifur Guttormsson (2005). Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar, bls. 169. Árbók Ferðafélag Íslands 2005. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
- 23Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 392-398.
- 24Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 398.
Deila færslu
Síðast uppfært 15. mars, 2024