Aðalstræti 6 í júlí 1910  (hluti úr mynd). Ljósm.: Franskur ferðamaður. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. FFF 0062.jpg. Sótt 24. september 2023 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.
Aðalstræti 6 í júlí 1910 (hluti úr mynd). Ljósm.: Franskur ferðamaður. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. FFF 0062.jpg. Sótt 24. september 2023 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.

Efstasund 99, Reykjavík

Heiti: Hákonsenshús - Jónassenshús
Byggingarár: 1825
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Johanne Sophie Vigfússon
Aðrir eigendur:
1838: Þórður Jónasson og Sofia Dórothea Rasmusdóttir
1892: Sigurður Jónsson
1916: Guðmundur Bjarnason
1939: KFUM
1951: Árvakur hf.
1951: Hólakotsbræður – Ingólfur Guðmundsson
Upphafleg staðsetning: Aðalstræti 6, Reykjavík
Flutt: 1951 að Efstasundi 99, Reykjavík
Hvernig flutt: Í heilu lagi
Efstasund 99 2.png

Aðalstræti 6 um 1947-1950. Ljósm.: Ólafur K. Magnússon. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. ÓKM 310 946 1-1.jpg. Sótt 24. september 2023 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.

Efstasund 99 3

Efstasund 99 um 1980-1990. Ljósm.: Borgarskipulag. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. BSK 2 0024.jpg. Sótt 24. september 2023 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.

Saga:

Húsið sem nú er númer 99 við Efstasund í Reykjavík á sér mjög langa sögu og er með elstu íbúðarhúsum í Reykjavík. Að stofni til er húsið frá árinu 1825 en þá lét Johanne Sophie Vigfússon (f. 1774, hefur líklega látist erlendis), ekkja Guðbrands Vigfússonar (1769-1822) lyfsala í Nesi á Seltjarnarnesi, byggja hús sem síðar fékk númerið 6 við Aðalstræti.1Klemens Jónsson (1929). Saga Reykjavíkur. Fyrra bindi, bls. 180. Reykjavík: Fjelagsprentsmiðjan. Þau Guðbrandur höfðu kynnst í Kaupmannahöfn þegar Guðbrandur var þar ungur maður við nám í lyfsalafræði og kom hún með honum til Íslands. Guðbrandur gerðist lyfsali í Nesi árið 1801. Hann lést árið 1822 en Johanne hélt lyfsölunni áfram um tveggja ára skeið en fluttist síðan í hús sitt í Reykjavík.[2]2Árni Óla (1967, 16. apríl). Úr sögu Reykjavíkur. Svipast um í Aðalstræti. Lesbók Morgunblaðsins, 42. árg., 14. tbl., bls. 7 og 14.

Hún seldi húsið 1838 Þórði Jónassyni [1800-1880], þá nýorðnum yfirdómara í landsyfirrjettinum, og bjó hann þar alla æfi († 1880) og ekkja hans eptir hann. Fylgdi stór lóð húsinu alt upp undir Mjóstræti, og var á því svæði stór og vel ræktaður garður. Eptir dauða frú Jónasens hafa ýmsir búið þar; Sigurður Jónsson járnsmiður átti það lengi og bjó þar. Nú [um 1925] eru þar búðir niðri, enda hefur húsið verið stækkað og bygt ofan á það.3Klemens Jónsson (1929), bls. 276.

Föðurnafn Þórðar yfirdómara var oft skrifað Jónassen og húsið því kallað Jónassenshús meðan hann bjó í því. Eiginkona hans var Dorothea Sophie Rasmusdóttir Lynge (1808-1890). Hún lést árið 1890.4Þorsteinn Jónsson (2011). Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg, bls. 40. Reykjavík: Sögusteinn; Æviágrip þingmanna frá 1845 (2016, 1. apríl). Þórður Jónasson. Sótt 24. septemer 2023 af https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=622. Þórður var aðalritstjóri fyrsta blaðsins sem gefið var út í Reykjavík, Reykjavíkur­póstsins, og var skrifstofa blaðsins í húsinu.5Árni Óla (1967, 16. apríl).

Árið 1844 er húsinu lýst þannig: „Einlyft íbúðarhús með risi, 15 x 9 álnir að grunnfleti, byggt af bindingsverki, múrað í grind, klætt utan með timbri. Þak var timbri á sperrur og tjargað. Einnig voru útveggir hússins tjargaðir. … 1848 lét Þórður lengja húsið um sex álnir til suðurs.“6Freyja Jónsdóttir (1998, 9. maí). Efstasund 99. Dagur – Íslendingaþættir, 58. tbl., bls. III.

„Sigurður Jónsson (1844-1935) járnsmiður verður eigandi Aðalstrætis 6 árið 1892. Sama ár byggir hann hæð ofan á húsið og klæddi bæði þak og hliðar með bárujárni.“7Freyja Jónsdóttir (1998, 9. maí). Árið 1916 var Guðmundur Bjarnason (1878-1939) klæðskeri orðinn eigandi hússins, þar sem hann rak um margra ára skeið klæðskeraverkstæði og verslun. Verkstæðið var í útbyggingu baka til við húsið, en verslunin fyrstu hæð framhússins. Guðmundur bjó í íbúð á efri hæðinni. Hann kvæntist ekki og átti ekki afkomendur. Hann arfleiddi KFUM á húseign sinni við Aðalstræti, en Guðmundur var mikill trúmaður.8Freyja Jónsdóttir (1998, 9. maí).

Ýmiskonar starfsemi var rekin í húsinu á meðan það var í Aðalstræti 6. Má þar nefna blaðið Eimreiðina sem hafði þar talsverða umsetningu, bæði dreifingu blaðsins og sölubúð. Í húsinu var einnig tekin veitingastaður í nokkur ár.
Árið 1943 er húsinu lýst þannig í virðingu: Tvílyft hús með risi, byggt úr bindingi klætt utan með kantsettum borðum á veggjum og þaki, allt lagt pappa, listum og járni yfir.
Í útveggjum neðri hæðar er múrað í binding með múrsteini. Í neðri hæðinni eru tvær sölubúðir með venjulegri búðarinnréttingu, saumastofa, skrifstofa, gangur og fastur skápur. Allt þiljað að innan og lagt striga og vélapappír, ýmist veggfóðrað eða málað. Á efri hæðinni eru sex íbúðarherbergi, eldhús klósett og gangur. Allt með sama frágangi og í neðri hæðinni. Geymslukjallari með steinsteypugólfi er undir hluta hússins. Grunnflötur hússins talinn vera, 13,8 x 5,7 metrar.9Freyja Jónsdóttir (1998, 9. maí).

Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðisins, keypti húsið af KFUM árið 1951, þegar til stóð að byggja stórhýsi blaðsins við Aðalstræti. Félagið seldi svokölluðum Hólakotsbræðrum (Aðalsteinn, Guðmundur og Ingólfur Guðmundssynir) húsið og þeir fluttu það að Efstasundi 99.10Freyja Jónsdóttir (1998, 9. maí). „Á leiðinni varð það óhapp að húsið valt af vagninum hjá Hörpu við Skúlagötu, en því var komið á vagninn daginn eftir og haldið áfram. „Þetta voru óhemju traustir viðir og húsið lét ekkert á sjá við veltuna. Það virtist þola hvað sem var,“ segir Aðalsteinn [sonur Ingólfs Guðmundssonar].“11Freysteinn Jóhannsson (2007, 3. júní). Sagan er svo lokkandi, bls. 42. Morgunblaðið, 95. árg., 149. tbl., bls. 42-43.„Á meðan grunnur hússins var gerður stóð húsið á tunnum út við götuna …“12Freyja Jónsdóttir (1998, 9. maí).

Efstasund 99 í júlí 2022. Ljósm.: Ja.is.

Fyrst bjuggu hjónin Ingólfur Guðmundsson (1910-1989) húsasmíðameistari og Valgerður Guðrún Hjartardóttir (1909-1976) með börnum sínum á efri hæð hússins og ráku verslun á neðri hæðinni. Þegar hann endurbyggði húsið var gluggum efri hæðar breytt. Í stað glugga með sex rúðum voru settir gluggar með einni stórri rúðu og litlu opnanlegu fagi efst.

Fram undir aldamótin 2000 var íbúð á efri hæð hússins og ýmis konar verslunarstarfsemi á neðri hæðinni. Lengst var þar líklega Matvælabúðin til húsa, sem hjónin Örn Brynþór Ingólfsson og Hjördís Óskarsdóttir ráku í um tvo áratugi. Eftir það var bæði videóleiga og sjoppa í húsinu.13Freyja Jónsdóttir (1998, 9. maí); Freysteinn Jóhannsson (2007, 3. júní).

Húsið var orðið ansi framlágt á tímabili, en um 2007 hófu eigendur þess handa við að gera húsinu til góða og koma því nær sinni upprunalegu mynd. Þeir geta svo sannarlega verið stoltir af húsinu eftir þær framkvæmdir og það vekur sannarlega eftirtekt fyrir fallegt útlit og snyrtilegt umhverfi.

 

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 5. janúar, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 5. janúar, 2024