Laugavegur 18., fyrir miðri mynd, séð frá Laugavegi. Ljósmynd í eigu Sigrúnar Þórarinsdóttur.
Laugavegur 18., fyrir miðri mynd, séð frá Laugavegi. Ljósmynd í eigu Sigrúnar Þórarinsdóttur.

Birkihvammur 20, Kópavogi

Byggingarár: 1906
Upphafleg notkun: Verslunar- og íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Bjarni Jónsson
Aðrir eigendur:
1954: Sveinbjörn Pálsson o.fl.
Upphafleg staðsetning: Laugavegur 18a, (eða 18b), Reykjavík
Fyrst flutt: 1954 að Birkihvammi 20, Kópavogi
Hvernig flutt: Efri hæð og ris flutt í heilu lagi
Birkihvammur 20 3

Laugavegur 18a fluttur 1954. Ljósm.: Gunnar Rúnar Ólafsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. GRÓ 010 026 3-2.jpg.

Birkihvammur 20 4.jpg

Birkihvammur 20, Kópavogi, 2022. Ljósm.: Ja.is.

Saga:

Í upphafi árs 1906 var brunavirt hús sem Bjarni Jónsson trésmiður hafði byggt við Laugaveg 18 í Reykjavík. Húsið var tvílyft með risi, byggt af bindingi, klætt utan á þrjá vegu með plægðum borðum, pappa, listum og járni þar yfir. Austurgaflinn var hlaðinn úr steyptum steini. Járn var á þaki. Á fyrsta gólfi var eitt íbúðarherbergi, sölubúð með borðum, hillum og skápum, geymslu og gangi. Allt var þetta þiljað og neðan á búðarloftinu var strigi og pappír, allt málað. Á öðru gólfi voru fimm íbúðarherbergi, eldhús og gangur, sem allt var þiljað, með striga og pappír á veggjum og loftum, allt málað. Á þriðja gólfi voru 4 íbúðarherbergi, 2 geymslur og 2 gangar, sem allt var þiljað og herbergin og gangarnir með striga og pappír á veggjum, súð og loftum, allt málað. Tveir reykháfar voru á húsinu. Öll gólf voru úr plægðum borðum. Á vesturgafli voru svalir og kjallari var undir öllu húsinu, 2 álnir á hæð. Við suðurhlið hússins var inn- og uppgönguskúr. Í honum var einn fastur skápur og gangar.1Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Aðf. 736. Brunabótavirðingar 1905-1911. Númer 1008.

Þegar til stóð að byggt yrði fjögurra hæða verslunarhús fyrir verslunina Liverpool á Laugavegi 18a var efri hæðin og risið á gamla húsinu sett upp á flutningatrukk og flutt í Kópavog. Í Morgunblaðinu 27. maí 1954 er sagt frá flutningi hússins:

Í fyrrakvöld um kl. 10 … var búið að koma húsinu út á götuna [Laugaveg]. Er það var dregið inn Laugaveginn í fyrrinótt, þurfti á nokkrum stöðum að halla ljósastaurum lítið eitt til, svo húsið kæmist framhjá. Mesti farartálma á Laugaveginum var grindverkið við Stjörnubíó. Milli 20 – 30 loftnet varða að slíta niður á leiðinni inn Laugaveginn. Á Miklatorgi „strandaði húsið“ í gærdag fram á kvöld, vegna raftauga þar við torgið. – Í gærkvöldi var húsið komið suður í Fossvog. Þar var „því lagt“ utan við veginn, skammt fyrir neðan Fossvogskirkjugarð. Þar verður það geymt unz grunnur þess í Kópavogs­hreppi verður tilbúinn.2Hús á ferðalagi um Laugaveginn (1954, 27. maí). Morgunblaðið, 41. árg., 119. tbl., bls. 16.

Í öðru blaði kemur fram að húsið hafi verið 9,5 x 11 m að stærð og það hafi verið Sveinbjörn Pálsson og „lagsmenn“ hans sem hafi keyptu húsið til flutnings.3Húsið Laugaveg 18 A flutt í Kópavog (1954, 26. maí). Þjóðviljinn, 19. árg., 117. tbl., bls. 12. Þess má geta að Sveinbjörn flutti einnig húsið sem er nú númer 100 við Efstasund.

Í júní 1955 birtist þessi auglýsing í Morgunblaðinu4Fasteignaauglýsing (1955, 7. júní). Morgunblaðið, 42. árg., 125. tbl., bls. 3.:

Til er sameignarsamningur um húsið frá árinu 1958, þar sem húsinu er lýst. Þar segir m.a.: „Fyrsta hæð er fimm herbergi, eldhús, baðherbergi og forstofa. … Risíbúðin er fjögur herbergi, eldhús, baðherbergi og forstofa, ásamt geymslurisi …“5Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Vefuppfletti fasteignaskrár.

Húsið stendur enn við Birkihvamm 20 í Kópavog. Í fasteigna­skrá er það sagt byggt 1957, sem er líklega það ár sem gengið hefur verið frá því á grunni sínum í Kópavogi.

 

 

 

 

 

 

Leitarorð: Kópavogur

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 6. mars, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 6. mars, 2024