Laugavegur 13, skömmu eftir byggingu hússins. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. 365 Reykjavík götur Laugavegur 2.jpg. Ljósmyndari óþekktur.
Laugavegur 13, skömmu eftir byggingu hússins. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. 365 Reykjavík götur Laugavegur 2.jpg. Ljósmyndari óþekktur.

Efstasund 100, Reykjavík

Byggingarár: 1902
Upphafleg notkun: Verslunar- og íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Siggeir Torfason
Upphafleg staðsetning: Laugavegur 13, Reykjavík
Flutt: 1953 í Efstasund 100, Reykjavík
Hvernig flutt: Í heilu lagi
Efstasund 100 2

Laugavegur 13 árið 1953, meðan á flutningi stendur. Ljósm.: Ólafur K. Magnússon. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. ÓKM 310 526 1-1.jpg.

Efstasund 100 3.jpg

Húsið flutt eftir Laugaveginum.  Stórhýsi á miðjum Laugavegi (1953, 30. júlí). Tíminn, 169. tbl., 37. árg., bls. 1.

Saga:

Árið 1902 byggði Siggeir Torfason (1862-1938) verslunar- og íbúðarhús við Laugaveg 13 í Reykjavík, á horni Laugavegar og Smiðjustígs. Húsið var tvílyft, 15 x 12 álnir að flatarmáli með risi og kjallara. Í brunavirðingu frá árinu 1902 segir að húsið

… sé byggt úr bindingi, klætt utan með góflborðum, pappa og listum og járni yfir. Þak er á langböndum, klætt járni með pappa í milli. Fyllt er í binding með marhálmi. Í neðri hæðinni er sölubúð, tvö herbergi og gangur. Allt þiljað innan, strigalagt, veggfóðrað og málað.
Í sölubúðinni eru hillur og skápar á veggjum og búðarborð með skúffum. Á hæðinni eru tveir ofnar.
Á efri hæðinni eru sex íbúðarherbergi, eldhús, búr og tveir gangar. Allt þiljað og málað. Þar eru þrír ofnar og ein eldavél. … Undir húsinu er kjallari með steinsteypugólfi. Þar eru þrjár geymslur, þvottahús og gangur.
Inn- og uppgönguskúr er við norðurhlið hússins byggður eins og það. Við austurhlið hússins er skúr, byggður af bindingi, klæddur með járni á langböndum með járnþaki á langböndum. Í skúrnum er trégólf.1Laugavegur fluttur í Kleppsholtið (2001, 17. febrúar). Dagur, Íslendingaþættir, 84. og 85. árg., 7. tbl., blað 3, bls. 1.

Síðar var risið innréttað og þar gerð fjögur íbúðarherbergi, eldhús og gangur. Enn síðar var kvistum bætt á húsið.

Samkvæmt íbúaskrá frá árinu 1906 áttu þau Siggeir og Helga Vigfúsdóttir (1859-1934), kona hans, ásamt sex börnum þeirra, heima í húsinu ásamt tveimur vetrarstúlkum og vikapilti.

Þegar húsið var risið flutti Siggeir verslun sína, sem hann hafði rekið á Laugavegi 10 frá árinu 1898, á fyrstu hæð hússins.2Laugavegur fluttur í Kleppsholtið (2001, 17. febrúar), bls. 1. „Á lóðinni baka til við verslunina var sláturhús, þangað ráku bændur féð á haustin til slátrunar. Í versluninni var á boðsólum öll sú matvara sem venjulegt heimili þurfti á að halda. Einnig þær vörur sem bændur þurftu til bústarfa og má þar nefna orf, hrífur og ljái.“3Laugavegur fluttur í Kleppsholtið (2001, 17. febrúar), bls. 2.

Kristján (1894-1975), sonur þeirra Siggeirs og Helgu, nam húsgagnasmíði eftir að lauk námi í Verslunarskóla Íslands. Síðan stundaði hann framhaldsnám í iðngrein sinni í Þýskalandi. Árið 1919 setti hann á stofn húsgagnaverslun í húsinu á Laugavegi 13. Árið 1928 var reist steinsteypt viðbygging austan við húsið þar sem verslunarrými með fjórum vörusýningargluggum var á framhlið hússins. Síðan var reist fimm hæða stórhýsi vestan við húsið frá 1928. Til að það kæmist fyrir þurfti húsið frá 1902 að víkja. Árið 1953 var það flutt í heilu lagi og sett á steyptan kjallara á lóð númer 100 við Efstasund.4Laugavegur fluttur í Kleppsholtið (2001, 17. febrúar), bls. 2.

Efstasund 100 í júlí 2022. Ljósm.: Ja.is.

Flutningurinn var mikil framkvæmd og nákvæmisverk og líklega hefur þetta verið stærsta hús sem flutt hafði verið í heilu lagi í Reykjavík fram að þessu. Húsið var um 90 fermetrar og þurfti þrjá mikla vagna til að flytja húsið. Frá Laugavegi var haldið niður Bankastræti á Lækjartorg, síðan norður Kalkofnsveg á Skúlagötu og austur Suðurlandsbraut að Hálogalandi. Sveinbjörn H. Pálsson vélvirki hafði umsjón með flutningnum.5Stærsta „flutningshúsið“ flutt á næstunni milli bæjarhverfa (1953, 24. júlí). Vísir, 43. árg., 165, tbl, bls. 5; Laugavegur 13 flutt í nótt (1953, 29. júlí). Vísir, 43.árg., 169 tbl., bls. 1.

Í húsinu við Efstasund 100 eru nú sex íbúðir. Húsinu hefur verið talsvert breytt, það forskalað, nýir kvistir settir á þakið og eldri teknir. Uppi eru áform um að færa húsið nær sínu upprunalega útliti, sem vonandi verða að veruleika.

 

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 8. janúar, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 8. janúar, 2024