Hofsós um 1945. Vilhelmsbúðin er fremsta húsið fyrir mðju á þessari mynd. Húsið með valmaþaki vinstra megin er Svalbarð og hægra megin er Baldurshagi. Sótt 9. september 2024 af https://hofsosingur.is/photologue/photo/mynd-7-1-2-3-4-5/.
Hofsós um 1945. Vilhelmsbúðin er fremsta húsið fyrir mðju á þessari mynd. Húsið með valmaþaki vinstra megin er Svalbarð og hægra megin er Baldurshagi. Sótt 9. september 2024 af https://hofsosingur.is/photologue/photo/mynd-7-1-2-3-4-5/.

Vilhelmsbúðin, Skólagötu, Hofsósi

Heiti: Poppverslun - Símstöðin - Vilhelmsbúð
Byggingarár: 1907
Upphafleg notkun: Verslunarhús
Fyrsti eigandi: Christian Waldimar Carl Popp
Aðrir eigendur:
1912: Eggert Jónsson
1915: Hinar sameinuðu íslensku verslanir
1927: Vilhelm Erlendsson
1947: Kaupfélag Austur-Skagfirðinga
? : Stefán Gunnarsson
2007: Inger Karlströmer
Upphafleg staðsetning: Við norðurenda Suðurbrautar, fyrir vestan Svalbarð og Baldurshaga, Hofsósi
Flutt: ≈1960 að Skólagötu, Hofsósi, ofan við Björgunarsveitarhús
Hvernig flutt: Flutt á raflínustaurum sem jarðýta dró

Saga:

Þar sem Hofsósbraut tekur við af Skólagötu á Hofsósi stendur lítið timburhús skammt frá norðausturhorni hússins sem björgunarsveitin hefur aðsetur í. Húsið hefur ýmist verið kallað Vilhelmsbúðin eða Gamla símstöðin og enn þekkja margir Hofsósingar húsið undir þeim nöfnum. Margar kenningar og sögusagnir eru til um uppruna þessa húss og koma þar bæði Kolkuós og Grafarós við sögu.1Bryndís Zoëga (2013). Strandminjar við austanverðan Skagafjörð. 1. áfangi, bls. 15. Rannsóknaskýrslur Byggðasafn Skagfirðinga nr. 2013/133; Guðný Zoëga og Sólborg Una Pálsdóttir (2018). Verndarsvæði í byggð – Hofsós. Fornleifaskráning, bls. 22. Byggðasafn Skagfirðinga. Rannsóknaskýrslur 2018/195; Katrín Gunnarsdóttir (2001). Grafarós og Hofsós. Fornleifaskráning, ekkert bls.tal. Byggðasafn Skagfirðinga, Rannsóknaskýrslur 5. Hér verður þó eingöngu stuðst við nýjustu heimildina um sögu hússins, þ.e. 10. bindi af Byggðasögu Skagafjarðar.

Húsið var upphaflega byggt árið 1907 og stóð í Plássinu í Hofsósi þar sem nú er autt svæði skammt vestan við suðvesturhorn hússins Svalbarðs og norðvestan við húsið Baldurshaga. Í upphafi verslaði Christian Waldimar Carl Popp (1866-1920) í húsinu en árið 1912 seldi hann Eggerti Jónssyni allar eigur sínar í Hofsósi.2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 66-81. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga. Þá var gerð úttekt á húsinu. Húsinu var þá lýst þannig:

Það var 7,6×6,4 m að flatarmáli með sjö gluggum og einum útidyrum að vestan. Verslunarbúðin var sögð haganlega innréttuð, tæpir 6 metrar að lengd, „skápar, skúffur, diskur og púlt, öll búðin mjög snoturlega máluð. Í norðaustur horni er kontór með skrifborði og skáp og einum ofni. Það herbergi allt málað. Þar suður af er geymsluklefi og þar uppganga í loft og niðurgangur í kjallara. Loftið er þiljað í miðju með skilrúmsþili, vestri hlutinn afþiljaður með borði og hillum. Aflviðir eru úr 5×6 tommu trjám. Klæðning úr einnar tommu borðum, panelklæðning að innan. Innan á grindinni er tjörupappi. Járnþak er á húsinu. Undir öllu húsinu er kjallari hlaðinn úr íslensku grjóti og sementeraður bæði utan og innan. Í honum voru einar útidyr og tveir gluggar. Í kjallara er dregari með stoðum undir. Húsið er nýlega byggt.“3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021),bls. 81-82.

Ekki átti Eggert húsið lengi, því þremur árum síðar seldi hann Hinum sameinuðu Íslandsverslunum allar eignir sínar í Hofsósi. Þegar verslunarfélagið varð gjaldþrota árið 1926 keypti Vilhelm Erlendsson (1891- 1872) allar eignir þess með samningi sem gerður var 22. mars. 1927. Þá tók Vilhelm einnig við póstþjónustunni, sem Sameinuðu verslanirnar höfðu sinnt frá árinu 1916. Seinna tók hann einnig við símaþjónustunni, en til að hýsa póst- og símaþjónustuna var byggt í tvígang við húsið.4Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 60-82; Þorsteinn Þorsteinsson (2024, 8. september). Tölvupóstur. Meðan Vilhelm verslaði í húsinu var það kallað Vilhelmsbúðin, en einnig Símstöðin.

Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 82. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.

Þegar Kaupfélagið keypti eignirnar af Vilhelm 1947 var ákveðið að nýta búðina og eftir endurbætur var opnuð þar vefnaðarvörudeild sumarið 1948. Var verslað þar allt til ársins 1957 þegar Kaupfélagið fluttist í nýtt húsnæði suður og uppi á Bakkanum.
Um eða eftir 1960 var húsið tekið af kjallaragrunninum og flutt á raflínustaurum sem jarðýta dró eftir Sneiðingnum upp á Bakkann og sett niður um 10 metrum norðaustur af húsi Björgunarsveitarinnar við Skólagötu 1. Þar var húsið notað af Kaupfélaginu sem geymsluhúsnæði fyrir margvíslegt dót og varning, m.a. sement. Stefán Gunnarsson í Hofsósi eignaðist húsið af Kaupfélaginu en átti stutt. Árið 2007 keypti sænsk kona, Inger Karlstömer, húsið af þrotabúi Stefáns, lét gera það upp á næstu árum og notaði sem sumarhús.5Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 82.

Fyrrnefndar viðbyggingar við húsið voru fjarlægðar áður en það flutt um set.

 

Leitarorð: Skagafjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 10. september, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 10. september, 2024