Víkurbraut 32a, Vík í Mýrdal
Víkurbraut 32a, Vík í Mýrdal, í janúar 2018. Ljósm.: Vigfús Þór Hróbjartsson. Heimild: Kristín Una Sigurðardóttir (2019). Vesturhluti Víkur í Mýrdal. Húsakönnun. Sótt 27. júlí 2024 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_202.pdf.
Heimild: Eiríkur E. Sverrisson (1988). Víkurkauptún 1890-1930, bls. 15. Í Dynskógar. Rit Vesturskaftellinga, bls. 7-130.
Saga:
Hús sem nefnt er Lundur er númer 32a við Víkurbraut í Vík í Mýrdal. Um þetta hús segir Eiríkur E. Sverrisson í grein sinni Víkurkauptún 1890-1930:
Tómas Gíslason [1864-1904] byggði nýtt hús vestur á sandi árið 1901 og andaðist þar úr afleiðingum af sjóvolki 26. maí 1904, greftraður 5. júní. Hann var þá 39 ára að aldri. Ekkja hans andaðist nokkrum árum síðar, sjúklingur á Laugarnesspítala. …
Þegar Tómas andaðist keypti Guðjón [Jónsson (1874-1942] hús hans vestur á sandi og kunni Sveinn smiður Ólafsson … ráð til að aka húsinu í heilu lagi á járnbraut þeirri sem verslanirnar þá notuðu til vöruflutninga frá sjó.1Járnbraut þessa má sjá á ljósmyndum frá Vík frá því um aldamótin 1900. T.d. myndinni hér fyrir neðan. Var húsinu ekið þangað sem Guðjón valdi sér hússtæði. Stækkaði hann húsið og endurbætti sama ár 1904.
Guðjón hefur um mörg ár verið verslunarþjónn við verslun Halldórs Jónssonar móðurbróður síns. Hefur hann einum verið umsjónarmaður við ullarpökkun og sláturvinnu og getið sér góðan orðstír fyrir lipurð og sanngirni.2Eiríkur E. Sverrisson (1988). Víkurkauptún 1890-1930, bls. 38 og 40. Í Dynskógar. Rit Vesturskaftellinga, bls. 7-130.
Á gömlum ljósmyndum sést að Tómasarhús, en svo var húsið nefnt meðan Tómas Gíslason átti það, hefur verið svolítið vestar en vesturendi götunnar Sunnubraut. Guðjón nefndi hús sitt hins vegar Lund.
Tómas var trésmiður í Vík. Kona hans var Elín Oddsdóttir (f. 1874). Þau settust að í Vík árið 1899.3Jón Thor Haraldsson (1982). Vík í Mýrdal. Myndun þorps og þróun, bls. 44. Dynskógar. Rit Vestur-Skaftfellinga, bls. 13-72
Eiginkona Guðjóns var Guðbjörg Þorsteinsdóttir (1867-1950). Þau settust að í Vík sama ár og þau Tómas og Elín og áttu þar heima til æviloka.4Jón Thor Haraldsson (1982), bls. 42. Guðjón var
… áhugamaður um barnauppeldi og stofnaði með börnum félagsskap, sem hann nefndi „Blótbindindi“, þessi tilraun til barnagleðskapar var vel þegin í fásinninu eystra, og allt fram á stríðsárin síðari hélt Guðjón þessu áfram, að vísu í nokkurri samkeppni við barnastúkuna.5Jón Thor Haraldsson (1982), bls. 35.
Árið 1921 byggði Sigurjón Kjartansson sér íbúðarhús áfast vestan megin við Lund.6Kristín Una Sigurðardóttir (2019). Vesturhluti Víkur í Mýrdal. Húsakönnun. Sótt 27. júlí 2024 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_202.pdf.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. júlí, 2024
Heimildaskrá
- 1Járnbraut þessa má sjá á ljósmyndum frá Vík frá því um aldamótin 1900. T.d. myndinni hér fyrir neðan.
- 2Eiríkur E. Sverrisson (1988). Víkurkauptún 1890-1930, bls. 38 og 40. Í Dynskógar. Rit Vesturskaftellinga, bls. 7-130.
- 3Jón Thor Haraldsson (1982). Vík í Mýrdal. Myndun þorps og þróun, bls. 44. Dynskógar. Rit Vestur-Skaftfellinga, bls. 13-72
- 4Jón Thor Haraldsson (1982), bls. 42.
- 5Jón Thor Haraldsson (1982), bls. 35.
- 6Kristín Una Sigurðardóttir (2019). Vesturhluti Víkur í Mýrdal. Húsakönnun. Sótt 27. júlí 2024 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_202.pdf.
Deila færslu
Síðast uppfært 28. júlí, 2024