Flagghúsið um 2014. Heimild: Grindavíkurbær. Prjónakaffi í Flagghúsinu. Sótt 17. apríl 2024 af https://www.grindavik.is/v/15040.
Flagghúsið um 2014. Heimild: Grindavíkurbær. Prjónakaffi í Flagghúsinu. Sótt 17. apríl 2024 af https://www.grindavik.is/v/15040.

Víkurbraut 2, Grindavík

Heiti: Flagghúsið - Flaggstangarhús
Byggingarár: < 1890
Upphafleg notkun: Íbúðarhús ?
Fyrsti eigandi: ?
Aðrir eigendur:
1897: Einar G. Einarsson
Upphafleg staðsetning: Garðhús, Grindavík
Flutt: 1917 að Víkurbraut 2, Grindavík

Saga:

Talið er að húsið sem nú stendur við Víkurbraut 2 í Grindavík eigi sér mög langa sögu, jafnvel lengri en unnt er að sanna með góðu móti. Vitað er að það stóð í Garðhúsum í Grindavík (Vesturbraut 10) árið 1890 þegar gerð var byggingaskrá Grindavíkur og þá sagt gamalt íbúðarhús. Jafnvel er talið að húsið eigi sér mun eldri rætur og séu viðir þess komnir úr einu húsa konungsverslunarinnar á Húsatóftum (Húsatóttum) sem byggð voru 1777 og rifin og seld á uppboði 1806. Málsetning og handverk hússins, sem kom í ljós við endurgerð, er talin renna stoðum undir þessa tilgátu.1Húsafriðunarnefnd. Gagnasafn. Gögn frá Erlingi Einarssyni; Ferlir. Flagghúsið – Endurnýjun II. Sótt 17. apríl 2024 af https://ferlir.is/flagghusid-endurnyjun-ii/.

Einar G. Einarsson (1872-1954) var fæddur og uppalinn í Garðhúsum.Árið 1897 fékk hann leyfi til að reka sveitaverslun í Grindavík, sem hann rak til dánardags. Samhliða henni stundaði hann útgerð og gerði mest út fjögur skip. Því var hann með talsvert af fólki í vinnu. Auk þess gegndi hann ýmsum félagsstörfum, var m.a. hreppstjóri og oddviti og sat í ýmsum nefndum. Eiginkona hans var Ólafía Ásbjarnardóttir (1876-1960). Heimili þeirra í Garðhúsum þótti afar glæsilegt eftir að þau byggðu þar nýtt íbúðarhús 1914 og var þar rekið stærsta og reisulegasta býlið í Grindavík.2Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir (1996). Saga Grindavíkur. Frá 1800-1974, bls. 187-191. Grindavík: Grindavíkurbær.

Árið 1917 var gamla húsið flutt frá Garðhúsum, þangað sem það stendur enn, upp af Norðurvörinni og er númer 2 við Víkurbraut. Þá var húsið gert að pakkhúsi fyrir Einarsbúð, en verslunarumsvif Einars fóru fram á svæðinu fyrir ofan lendinguna í Járngerðarstaðahverfi.

Á langri ævi hefur húsið gegnt mörgum hlutverkum, verið íbúðarhús, verslun, verbúð, samkomustaður, beitursúr, pakkhús, salthús, aðgerðarhús, saltfiskverkun, veiðarfærageymsla og netaloft. Húsið var leiksvið kvikmyndarinnar „Sölku Völku“ sem byggð var á samnefndu skáldverki Halldórs Laxness, sem frumsýnd var í desember 1954. Þá hefur Gunnlaugur Scheving fengið innblástur frá húsinu eins og sjá má í mörgum verka hans.3Grindavíkurbær (2006, 30. október). Flagghúsið í Grindavík endurbyggt. Sótt 17. apríl 2024 af https://grindavik.is/v/988.

Flagghúsið fékk viðurnefni sitt af því að það þjónaði sjófarendum á Járngerðarstaðasundi. Dagbjartur Einarsson frá Ásgarði (1876-1944 ) hætti formensku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum leiðbeiningar ú landi um veðurhofur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft hættuleg og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um. Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddi aðgát á sundi og brim í lendingu. Gifta fylgdi þessu starfi hans og færðu formenn í Járngerðastarhverfi [sic] honum silfurskjöld er hann lét af þessum starfa sem viðukenningu fyrir hjálp á hættustundum.4Ferlir. Flagghúsið – Endurnýjun II. Sótt 17. apríl 2024 af https://ferlir.is/flagghusid-endurnyjun-i/?id=7061.

Í dag er þetta hús upphaf skipu­lagðrar byggðar í Grindavík, enda öll húsnúmer frá þessu húsi talin.

Stefnt er að því að hýsa í Flagghúsi framtíðarinnar kram­búð með menningar- og sögutengda starfsemi sem sæmir merkri sögu hússins, byggðarlaginu,  komandi kyn­slóðum ómetanlegar minjar sem ekki má glata og þannig verða  þannig lifandi sýningarsalur.5Grindavíkurbær (2006, 30. október). Flagghúsið í Grindavík endurbyggt. Sótt 17. apríl 2024 af https://grindavik.is/v/988.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 17. apríl, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 17. apríl, 2024