Vesturgata 121b, Akranesi
Byrjað að rífa Aðalból við Vesturgötu, 1970-1979. Ljósm.: Haraldur Bjarnason. Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 15788. Sótt 19. júní 2023 af http://ljosmyndasafn.akranes.is/myndir.
Saga:
Árið 1900 byggði Jón Benediktsson (1864-1945) húsið Aðalból á Akranesi, sem síðar var talið nr. 9 við Melteig. Húsið var virt sama ár og er talið vera 8 x 10 álnir, með risi. Undir húsinu var 3 álna djúpur kjallari með tveimur góðum gluggum. Húsið var einangrað með þurrum mosa, en að utan var húsið klætt ferniseruðum borðum sem voru ljósmáluð. Húsinu fylgdi túnblettur og sáðgarður.
Með Jóni fluttu í húsið Valgerður Kristín Sigríður Eyjólfsdóttir (1857-1936) eiginkona hans, sonur hennar frá fyrra hjónabandi, en hún hafði misst mann sinn árið 1884 þegar hún gekk með son þeirra, þrjú börn þeirra hjóna og 25 ára lausakona.
Jón var talinn snyrtimenni, þrifinn og reglusamur, sem gekk vel um alla hluti. Það mátti m.a. sjá á því að hann málaði hús sitt, sem sjaldan var gert á þeim tíma. Hann hirti líka vel um lóð sína þar sem hann var með nokkrar kindur, en fyrst og fremst var hann sjómaður.
Valgerður þótti allvel greind, hæglát, traust, vinaföst og velviljuð. Þó hún hefði ekki úr miklum fjármunum að spila studdi hún þá sem enn minna höfðu að fremsta megni.
Þau Valgerður og Jón bjuggu í Aðalbóli ævina á enda, utan þrjú ár sem þú bjuggu hjá syni sínum og tengdadóttur í Halldórshúsi á Akranesi.
Ýmsir bjuggu í Aðalbóli þar til árið 1948 að hjónin Felix Eðvarðsson (1898-1975) og Guðrún Lárusdóttir (1912-1999) festu kaup á húsinu og flytja það á lóð númer 121b við Vesturgötu. Þau áttu húsið til ársins 1955 þegar Gunnlaugur Magnússon (1920-2008) og María Árnadóttir (1922-1975) keyptu húsið. Þau bjuggu þar með börnum sínum til ársins 1962.
Húsinu var talsvert breytt eftir að það var flutt, settir í það stærri gluggar og múrhúðað yfir bárujárnið á útveggjum.1Ólafur B. Björnsson (1957, 1. október). Hversu Akranes byggðist. 4. kafli. – 1870-1900. – Byggingar batna. Akranes, 4. tbl., bls. 254-260; Gísli S. Sigurðsson (2005). Valsað um Vesturgötu. Þriðji hluti. Árbók Akurnesinga, 5, bls. 182-183.
Húsið var rifið á 8. áratug síðustu aldar.2Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 15788. Sótt 19. júní 2023 af http://ljosmyndasafn.akranes.is/myndir.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 18. janúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Ólafur B. Björnsson (1957, 1. október). Hversu Akranes byggðist. 4. kafli. – 1870-1900. – Byggingar batna. Akranes, 4. tbl., bls. 254-260; Gísli S. Sigurðsson (2005). Valsað um Vesturgötu. Þriðji hluti. Árbók Akurnesinga, 5, bls. 182-183.
- 2Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 15788. Sótt 19. júní 2023 af http://ljosmyndasafn.akranes.is/myndir.
Deila færslu
Síðast uppfært 18. janúar, 2024