Vegamót við Suðurlandsveg í landi Hólms, Reykjavík
Saga:
Árið 1904 var brunavirt hús sem Kristján Jónsson (1832-1914) hafði látið byggja á lóð sinni við Vegamótastíg 5 í Reykjavík. Húsið var byggt úr bindingi, klætt utan með plægðum timburborðum, pappa, listum og járni þar yfir og með járnþaki á plægðri borðasúð með pappa á milli. Húsið var einangrað með marhálmi. Niðri í húsinu voru 2 íbúðarherbergi, eldhús og einn fastur skápur, allt þiljað. Herbergin voru með máluðum pappa á veggjum. Tveir ofnar og ein eldvél var á hæðinni. Uppi voru einnig tvö íbúðarherbergi og gangur, sem allt var þiljað og málað. Kjallari var undir öllu húsinu með steinsteyptu gólfi. Við suðurhlið var inngönguskúr. Stærð hússins var 6,9 x 3,8 x 3,3 m.1Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Aðf. 735. Brunabótavirðingar 1900-1905; Helga Maureen Gylfadóttir, deildarstjóri Borgarsögusafni (2013, 19. febrúar). Tölvupóstur.
Þegar til stóð að reisa stórhýsi Máls og menningar við Laugaveg 18 þurfti hús þetta að víkja. Þáverandi eigendur, Ívar Jónsson (1904-1978) og Guðbjörg Steindórsdóttir (1924-2010), fluttu húsið árið 1957 þangað sem það stendur nú og þar fékk húsið nafnið Vegamót. Lóðin tilheyrir landi Hólms við Suðurlandsveg og stendur húsið norðan Hólmsár, um 150 m sunnan Suðurlandsvegar, örskammt austan við veginn að Hólmi.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 16. september, 2024
Heimildaskrá
- 1Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Aðf. 735. Brunabótavirðingar 1900-1905; Helga Maureen Gylfadóttir, deildarstjóri Borgarsögusafni (2013, 19. febrúar). Tölvupóstur.
Deila færslu
Síðast uppfært 16. september, 2024