Þverásbyggð 3, Stóra-Fjalli, Borgarbyggð
Saga:
Árið 1901 byggðu hjónin Jón Guðmundsson (1859-1942) og Gróa Jónsdóttir (1851-1938) sér hús sem þau nefndu fyrst Brunnastaði, en árið eftir og alla tíð síðan nefndist húsið Laufás. Það stóð líklega þar sem nú er lóð númer 3 við Háteig. Jón lærði skósmíði í Reykjavík árið 1876 og stundaði hann þá iðn meðan hann bjó á Akranesi. Þau hjón bjuggu í Laufási þar til þau fluttu til Reykjavíkur árið 1935.1Ó.B.B. [líklega Ólafur B. Björnsson] (1942, 1. júli). Minningarorð um Jón Guðmundsson skósmið frá Laufási. Akranes, 1. árg., 5. tbl., bls. 3; Ólafur B. Björnsson (1958, 1. apríl). Hversu Akranes byggðist. 5. kafli. – 1901-1925. – Vorhugur og vélaöld gengur í garð. Akranes, 17. árg., 2. tbl., bls. 117-125.
Ólafur B. Björnsson gerir Laufási og íbúum þess góð skil í grein sem hann ritaði í blað sitt Akranes árið 1958. Greinin er 5. kafli í greinabálkinum Hversu Akranes byggðist. Um Laufás segir hann meðal annars:
Í virðingargerð 30. sept. 1901 er sagt að húsið sé 9×7 álnir að utanmáli, og að undir því sé kjallari, „með steingólfi, allur sementeraður“. Að inngangsskúr sé við vesturgafl, og svo er enn. Eldhús, kamers og stofa niðri. Þar er og sagt, að loftinu sé skipt í tvennt, og að þar sé búið. Í suðurendanum var sofið, en í vesturendanum var skósmíðaverkstæðið. „Öll grindin og borðklæðningur er af fornum vel þurrum við og svo allt húsið klætt utan með tjörupappa, en einungis þakið með bárujárni. Allt er húsið innan málað, aðallega ljósbláum lit. Húsið er snoturt, haganlega fyrirkomið og góður frágangur á allri smíðinni. Lóðin er 400 ferfaðmar, keypt á seinastliðnu vori fyrir 200 kr. Er öll girt með óvönduðum trégirðingum. Í sumar gaf hún af sér (þ.e. lóðin) 8 tunnur af kartöflum og 3 hesta af töðu“. …
Fljótlega setti Jón járn á allt húsið. Við norður hlið þess byggði hann og stóran skúr, sem notaður var til geymslu fyrir hey og skepnur.
Það finnst mér næsta einkennilegt í virðingargerðinni, þar sem sagt er, að lóðin sé girt með „óvönduðum trégirðingum.“ Hefur það varla verið lengi hjá slíkum snyrtimanni sem Jón var, og ég man ekki eftir því. Náttúrlega var girðingin aldrei úr fínum, hefluðum viði og ekki máluð, en hún var alltaf snotur, og svo vel við haldið, að ef strengur eða spýta bilaði, var á sömu stund búið að lagfæra það.
Eins og hér mátti sjá, er sagt að húsið sé byggt úr fornum þurrum viði. Það var sem sé byggt upp úr öðrum enda verzlunarhúss Þórðar Guðmundssonar á Háteig … . Þegar síra Þorvaldur Böðvarsson flutti frá Bakka að Halldórshúsi fékk hann þennan hluta af húsi Þórðar í skiptum fyrir skúr, er hann átti á Bakka. Af honum keypti Jón svo þetta hálfa hús fyrir 200 kr., en Jón Sigurðsson og Ólafur Þorsteinsson rifu það og byggðu húsið Laufás upp úr því, en það var gert fokhelt úr efni þessa gamla húss.2Ólafur B. Björnsson (1958, 1. apríl), bls. 118-119.
Eins og fram kemur í grein Ólafs á Laufás uppruna sinn að rekja til verslunarshúss á Háteig. Líklega er þó ekki unnt að tala um flutning hússins á Háteigi, því viðir verslunarhússins voru notaðir í Laufás, en húsið ekki endurreist í fyrri mynd.
Í grein sinni rekur Ólafur eigendasögu Laufáss til ársins 1957. Sú saga er rakin hér að ofan.3Ólafur B. Björnsson (1958, 1. apríl), bls. 117-125. Í lok greinarinnar segir Ólafur:
Nú hafa þau Bjarni og Jóna gert húsinu mikið til góða, sérstaklega að innan. Þar er öllu haganlega fyrir komið, allt málað eða veggfóðrað og nýtízkutækjum komið fyrir. Það er allt hreinasta snilld, og ber eigendunum, og þá sjálfsagt sérstaklega húsmóðurinni, fagurt vitni um sérstakan þrifnað og myndarskap.
Það er sýnilegt, að Laufás getur lengi staðið með slíku viðhaldi og umhirðu sem þar er nú.4Ólafur B. Björnsson (1958, 1. apríl), bls. 118-125.
Ekki stóð nú Laufás samt lengi á Akranesi eftir þetta, því árið 1982 var húsið flutt og það nýtt sem sumarhús í landi Stóra-Fjalls í Norðurárdal. Það voru hjónin Sæunn Árnadóttir (1940-1996) og Sigmundur Ingimundarson (1929-1994) sem fluttu húsið. Samkvæmt upplýsingum frá Borgarbyggð telst húsið nú við Þverásbyggð 3 og er enn nefnt Laufás.5Ásmundur Ólafsson (2016). Á Akranesi. Þættir um sögu og mannlíf, bls. 201. Akranesi: mth; Kristján Gíslason, Borgarbyggð (2023, 24. júní). Tölvupóstur; Þórey Guðný Marinósdóttir (2024, 20. janúar). Skilaboð á Facebook.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 17. ágúst, 2024
Heimildaskrá
- 1Ó.B.B. [líklega Ólafur B. Björnsson] (1942, 1. júli). Minningarorð um Jón Guðmundsson skósmið frá Laufási. Akranes, 1. árg., 5. tbl., bls. 3; Ólafur B. Björnsson (1958, 1. apríl). Hversu Akranes byggðist. 5. kafli. – 1901-1925. – Vorhugur og vélaöld gengur í garð. Akranes, 17. árg., 2. tbl., bls. 117-125.
- 2Ólafur B. Björnsson (1958, 1. apríl), bls. 118-119.
- 3Ólafur B. Björnsson (1958, 1. apríl), bls. 117-125.
- 4Ólafur B. Björnsson (1958, 1. apríl), bls. 118-125.
- 5Ásmundur Ólafsson (2016). Á Akranesi. Þættir um sögu og mannlíf, bls. 201. Akranesi: mth; Kristján Gíslason, Borgarbyggð (2023, 24. júní). Tölvupóstur; Þórey Guðný Marinósdóttir (2024, 20. janúar). Skilaboð á Facebook.
Deila færslu
Síðast uppfært 17. ágúst, 2024