Tangagata 14, Ísafirði
Jón Pálsson og Símonía Kristjánsdóttir ásamt börnum sínum og fóstursyni. Ljósmynd sótt á Facebook-hópinn Dýrfirðingar, 22. apríl 2024.
Saga:
Þegar gengið er eftir Tangagötunni á Ísafirði (júlí 2023) vekur húsið númer 14 eftirtekt fyrir gott viðhald og snyrtimennsku. Svalir með útskornum spyrnustoðum setja svip sinn á húsið. Húsið hefur ekki alltaf staðið hér, því árið 1993 var það flutt frá Brunngötu 21.1Tæknideild Ísafjarðarbæjar (2020, 20. ágúst). Tölvupóstur.
Í húsakönnun sem gerð var í gamla bænum á Eyrinni á Ísafirði árið 2022 kemur fram að fyrsti eigandi hússins hafi verið Jón Pálsson skipstjóri. Einnig segir um húsið:
Húsið stóð áður við Brunngötu 21. Samkvæmt virðingu frá 1905 var húsið 14×10 álnir, tvílyft og trébinding. Steyptur kjallari undir öllu húsinu. Í gjörðabók byggingarnefndar í september 1904 er Jóni Pálssyni skipstjóra heimilað að byggja á Tangstúni 14×10 álna hús og skúr.
Árið 1973 var það í eigu Ísafjarðarbæjar og ekki vel við haldið.
Húsið var flutt á núverandi stað árið 1993.
Byggt var við það bíslag og sólstofa árið 1994.
Ekki er fleira að finna í skjölum byggingarfulltrúa um húsið.2Bragi Bergsson, Herborg Árnadóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir (2022). Ísafjörður – Neðstikaupstaður og gamli bærinn á Eyrinni. Húsakönnun.
Það voru hjónin Símonía Kristjánsdóttir (1860-1943) og Jón Pálsson (1859-1923) sem byggðu húsið, Þau gengu í hjónaband árið 1887. Þau byrjuðu búskap á Álftamýri í Arnarfirði, fluttu síðan til Hnífsdals, þaðan sem Jón stundaði sjómennsku og loks til Ísafjarðar þegar hús þeirra var tilbúið. Jón og Símonía eiguðust fimm börn. Tvær dætur dóu í æsku og eina dóttur misstu þau þegar hún var 24 ára gömul.3Frú Símonía Kristjánsdóttir áttræð (1940, 30. mars). Vesturland, 17. árg., 13. tbl., bls. 38. Jón nam siglingafræði og gerðist skipstjóri um þrítugt og var það til dauðadags.4Brynleifur Tobiasson (1944). Hver er maðurinn, Íslendingaævir I, bls. 394. Reykjavík: Fagurskinna.
Húsið var lengi bústaður skólastjóra Barnaskólans á Ísafirði,5Gísli Sigurðsson (2000, 23. desember). Fjársjóður gamalla húsa á Ísafirði. Lesbók Morgunblaðsins, 75. árg., bls. 10-11. enda stóð húsið í nágrenni við Barnaskólann.
Árið 1993 auglýsti Ísafjarðarbær húseignina að Brunngötu 21 til sölu til flutnings á lóð að horni Brunngötu og Þvergötu. Húsið var sagt tvílyft, bárujárnsklætt timbur með kjallara, samtals 377 fermetrar að stærð.6Hús til sölu (1993, 23. júní). Bæjarins besta, 10. árg., 25. tbl., bls. 5. Líklega hefur húsið verið fyrir þegar nýi barnaskólinn var reistur.
Í júlí 1995 gaf byggingafulltrúi Ísafjarðar eftirfarandi umsögn um húsið:
Eftirtaldar endurbætur hafa verið gerðar á húsinu á núverandi stað: Lokið er við uppsteypu á kjallara og stigahúsi. Allir útveggir hússins hafa verið einangraðir að innan og klæddir með spónaplötum. Öll milligólf hafa verið rétt af, einangruð og klædd með spónaplötum. Allar rafmagnslagnir hafa verið endurnýjaðar sem og allar lagnir hússins.7Byggingafulltrúi Ísafjarðar, dags. 13. júlí 1995. Varðandi endurbætur á húseigninni að Tangagötu 14, Ísafirði.
Leitarorð: Ísafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 22. apríl, 2024
Heimildaskrá
- 1Tæknideild Ísafjarðarbæjar (2020, 20. ágúst). Tölvupóstur.
- 2Bragi Bergsson, Herborg Árnadóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir (2022). Ísafjörður – Neðstikaupstaður og gamli bærinn á Eyrinni. Húsakönnun.
- 3Frú Símonía Kristjánsdóttir áttræð (1940, 30. mars). Vesturland, 17. árg., 13. tbl., bls. 38.
- 4Brynleifur Tobiasson (1944). Hver er maðurinn, Íslendingaævir I, bls. 394. Reykjavík: Fagurskinna.
- 5Gísli Sigurðsson (2000, 23. desember). Fjársjóður gamalla húsa á Ísafirði. Lesbók Morgunblaðsins, 75. árg., bls. 10-11.
- 6Hús til sölu (1993, 23. júní). Bæjarins besta, 10. árg., 25. tbl., bls. 5.
- 7Byggingafulltrúi Ísafjarðar, dags. 13. júlí 1995. Varðandi endurbætur á húseigninni að Tangagötu 14, Ísafirði.
Deila færslu
Síðast uppfært 22. apríl, 2024