Gamla Sundlaugahúsið á árunum 1898 til 1905 þegar Ásgeir Ásgeirsson var sundkennari. Sigurður Bjarnason (1987). Sundkennsla í Reykjanesi í 150 ár. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 30, bls. 12.
Gamla Sundlaugahúsið á árunum 1898 til 1905 þegar Ásgeir Ásgeirsson var sundkennari. Sigurður Bjarnason (1987). Sundkennsla í Reykjanesi í 150 ár. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 30, bls. 12.

Sundlaugarhúsið, Reykjanesi við Ísafjarðardjúp

Byggingarár: 1895
Upphafleg notkun: Sundlaugarhús
Fyrsti eigandi: ?
Upphafleg staðsetning: Við gömlu sundlaugina í Reykjanesi
Flutt: >1925 niður að bryggju í Reykjanesi
Sundlaug Reykjanesi 3

Sundlaugin og sundlaugarhúsið í Reykjanesi árið 1899. Ljósm.: Björn Pálsson. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. Lpr/1992-666.

Sundlaug Reykjanesi 2

Sundlaugarhúsið orðið að geymslu við bryggjuna í Reykjanesi, árið 2009. Ljósm.: Höfundur.

Saga:

„Nákvæmar heimildir eru ekki fyrir hendi um það, hvenær sundkennsla hefst í Reykjanesi. En miklar líkur benda til að hún hafi hafist fyrir 1840. Vitað er árið 1837 er grafin lítil torflaug inni á nesinu.“1Sigurður Bjarnason (1987). Sundkennsla í Reykjanesi í 150 ár, bls. 12. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 30, bls. 11-26.

Í fyrstu fór sundkennslan fram í svolitlum polli með torfveggjum. Árið 1890 var gerð „torflaug“ og í framhaldi af því var farið að tala um nauðsyn þess að koma upp skýli handa námspiltum við laugina. Af því varð þó ekki fyrr en árið 1895 þegar Bjarna Ásgeirssyni voru veittar 300 kr. í styrk úr sýslusjóði Ísfirðinga til að byggja hús í Reykjanesi.2Sigurður Bjarnason (1987), bls. 12-18. Styrkurinn var veittur með þeim skilyrðum

Að húsið sé vel hæfilegt til íbúðar fyrir námssveina.
Að Bjarni Ásgeirsson sjái um svo um að húsinu sé vel við haldið og að það sé til reiðu til afnota við sundkennslu í Reykjanesi að minnsta kosti í 10 ár.
Að byggingu hússins sé lokið fyrir þann tíma, er sundkennsla byrjar vorið 1896.3Sigurður Bjarnason (1987), bls. 18.

Bjarni lauk byggingu hússins fyrir árslok 1895, en nú brá svo við að árin 1896 og 1897 féll sund­kennslan niður, en síðan var þráðurinn tekinn upp að nýju. Námssveinar bjuggu ýmist í tjöldum eða sváfu í kojum í sundlaugarhúsinu, jafnvel fjórir saman, í þær 4-5 vikur sem kennt var á vorin eða sumrin.4Í byrjun fengu einungis drengir að læra sund. Ekki var byrjað að kenna stúlkum fyrr en eftir aldamótin 1900 (Sigurður Bjarnason, 1987:16). Var húsið hitað með kamínu sem piltarnir notuðu jafnframt til að hita sér kaffi eða sjóða krækling sem tíndur var í fjörunni, en þeir höfðu með sér skrínukost að heiman, brauð, smjör og harðfisk.

Séð niður að bryggjunni og gamla sundlaugarhúsinu, árið 2009. Ljósm.: Höfundur.

Árið 1925 var ný steinsteypt laug byggð við Hveravík yst á nesinu. Sund­lauga­húsið var síðan rifið og flutt út að bryggjunni yst á nesinu þar sem það stendur enn og nýtt sem geymsla. Gerð hefur stór hurð á annan gafl hússins og það klætt með bárujárni. Lagt hefur verið til við Húsafriðunarnefnd að friða húsið og að það verði flutt að nýju að gömlu sundlauginni. Erfitt er að átta sig á hverjir hafa verið eigendur hússins, en líklega er það nú í eigu Ríkissjóðs eða Ísafjarðarbæjar, sem á landið.5Sigurður Bjarnason (1987); Margrét Karlsdóttir (2010, 27. júlí). Munnleg heimild; Margrét Karlsdóttir (2007, 23. febrúar). Bréf til Húsafriðunarnefndar. Verknr. 2403 í gagnasafni Minjastofnunar Íslands; Ísafjarðarbær (2011). Deiliskipulag – Reykjanes við Djúp. Sótt 22. maí 2011 af http://isafjordur.is/ skipulagsskrar/skra/352/.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023

Heimildaskrá

  • 1
    Sigurður Bjarnason (1987). Sundkennsla í Reykjanesi í 150 ár, bls. 12. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 30, bls. 11-26.
  • 2
    Sigurður Bjarnason (1987), bls. 12-18.
  • 3
    Sigurður Bjarnason (1987), bls. 18.
  • 4
    Í byrjun fengu einungis drengir að læra sund. Ekki var byrjað að kenna stúlkum fyrr en eftir aldamótin 1900 (Sigurður Bjarnason, 1987:16).
  • 5
    Sigurður Bjarnason (1987); Margrét Karlsdóttir (2010, 27. júlí). Munnleg heimild; Margrét Karlsdóttir (2007, 23. febrúar). Bréf til Húsafriðunarnefndar. Verknr. 2403 í gagnasafni Minjastofnunar Íslands; Ísafjarðarbær (2011). Deiliskipulag – Reykjanes við Djúp. Sótt 22. maí 2011 af http://isafjordur.is/ skipulagsskrar/skra/352/.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023