Strandgata 5, Stokkseyri
Saga:
Árið 1933 var brunavirt nýbyggt hús, sem Helgi Jónsson (1897-1985) húsgagnasmiður, hafði byggt að Sogamýrarbletti 31 í Reykjavík, sem þá var talsvert utan við þéttbýlið í Reykjavík, eiginlega úti í sveit. Árið eftir bjó Helgi þar ásamt Elísabetu Magnúsdóttur (1903-1996) konu sinni og þremur börnum. Ekki var húsið stórt, einungis 35 fermetrar.1Freyja Jónsdóttir (1997, 31. maí). Sogavegur 112 (Hjalli). Dagur-Tíminn, 80. og 81. árg., 100. tbl., bls. IV. Hús sitt nefndu þau Hjalla, en síðar varð það Sogavegur 112, þegar hverfið var skipulagt. Húsið var
… einlyft með risi og kjallara, byggt úr bindingi. Klætt utan með borðum, pappa, listum og járni á útveggjum og þaki.
Pappalag er á milli þilja í útveggjabinding.
Aðallhæðin er öll þiljuð að innan, strigalögð og ýmist veggfóðruð eða máluð. Þar er íbúðarherbergi, eldhús, geymsluskápur og gangur. Kjallari er undir öllu húsinu, sem er ófullgerður. Steinsteyputröppur eru við húsið og undir þeim gangur inn í kjallarann. Miðstöðvarvél er í húsinu, vatns- og skólplagnir, rafmagnsleiðslur og dúkur á gólfum. …
Fljótlega eftir að byggingu hússins á Hjalla var lokið byggði Helgi laglegt fuglahús á lóðinni. Þar var hann með alifugla, hænsni, endur og gæsir. Einnig gerðu þau hjónin matjurtagarð í lóðinni, en mikil vinna lá í að koma jarðveginum í það horf að hægt væri að rækta þar, þarna var bæði grunnur og grýttur jarðvegur. En vel spratt í garðinum og íbúarnir á Hjalla óþreytandi við að hlúa að gróðrinum.2Freyja Jónsdóttir (1997, 31. maí).
Árið 1938 seldu þau Helgi og Elísabet ungri ekkju húsið, Helgu Larsen (1901-1989), sem þá var þjóðkunn kona, oftast kennd við Engi. Helga var dugnaðarforkur og kom sér upp gripahúsi á lóðinni, þar sem var rúm fyrir eina kú, kálf og nokkur hænsni og síðar byggði hún einnig hlöðu.
Helga seldi Reykjavíkurbæ húsið árið 1955 og þá lagðist allur búskapur á Hjalla af. Bærinn átti þó húsið einungis í tvö ár, því árið 1957 keyptu þau Helgi og Elísabet húsið á nýjan leik. Þá var búið að skipuleggja Smáíbúðarhverfið og allar samgöngur mun betri, en skorið hafði verið af lóðinni umhverfis húsið, því m.a. var búið að byggja stórhýsi það sem stendur á horni Sogavegar og Réttarholtsvegar og hýsir meðal annars Garðsapótek.
Helgi og Elísabet bjuggu í húsinu til ársins 1985, en það ár lést Helgi. Þá keypti Skúli sonur þeirra húsið en seldi húsið skömmu eftir að Elísabet lést árið 1996.3Freyja Jónsdóttir (1997, 31. maí).
Árið 2002 var samþykkt bygging fjölbýlishúss á lóð Hjalla. Framkvæmdir hófust tveimur árum síðar og var þá búið að flytja Hjalla austur að Grund í Meðallandi. Eigendur fjölbýlishússins halda minningu hússins á lofti því á steinstólpa við inngang hússins er skjöldur með nafninu Hjalli.
Dvöl hússins varð þó ekki löng á Grund, því árið 2009 fluttu hjónin Unnur Þórðardóttir og Valdimar Erlingsson húsið að Strandgötu 5 á Stokkseyri. Þar var húsið sett á steyptan grunn og byggt við það í suður, vestur og norður. 4Páll V. Bjarnason og Helga Maureen Gylfadóttir (2004). Húsakönnun. Hamarsgerði – Langagerði – Sogavegur – Tunguvegur. Skýrsla nr. 111, bls. 37. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur; Unnur Þórðardóttir (2020, 4. júní). Facebook: Íbúar á Stokkseyri. Sótt 8. júní 2020 af https://www.facebook.com/groups/1904934693084201.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 22. febrúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Freyja Jónsdóttir (1997, 31. maí). Sogavegur 112 (Hjalli). Dagur-Tíminn, 80. og 81. árg., 100. tbl., bls. IV.
- 2Freyja Jónsdóttir (1997, 31. maí).
- 3Freyja Jónsdóttir (1997, 31. maí).
- 4Páll V. Bjarnason og Helga Maureen Gylfadóttir (2004). Húsakönnun. Hamarsgerði – Langagerði – Sogavegur – Tunguvegur. Skýrsla nr. 111, bls. 37. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur; Unnur Þórðardóttir (2020, 4. júní). Facebook: Íbúar á Stokkseyri. Sótt 8. júní 2020 af https://www.facebook.com/groups/1904934693084201.
Deila færslu
Síðast uppfært 22. febrúar, 2024