Skúlagata 18

Skúlagata 18, Stykkishólmi

Heiti: Halldórshús – Gíslahús – Jóns Eyjólfssonarhús – Gunnarshús – Jónasarhús - Lambanes
Byggingarár: 1899
Rifið: 2014
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Halldór Illugason skipstjóri
Aðrir eigendur:
1916: Gísli Gíslason skipstjóri
1924: Jón Eyjólfsson kaupmaður
1936: Gunnar Jónatansson verkstjóri
1945: Jónas Pálsson bóndi og sjómaður
1947: Magnús Ó. Jónsson
Upphafleg staðsetning: Víkurgata 1, Stykkishólmi
Flutt: 1947 að Skúlagötu 18, Stykkishólmi
Aftur flutt:

Saga:

Halldór Illugason skipstjóri byggði íbúðarhús árið 1899 þar sem nú er lóð nr. 1 við Víkurgötu í Stykkishólmi. Í upphafi var húsið nefnt Halldórshús eftir eiganda sínum en skipti um nafn í samræmi við eigandann, Gíslahús meðan Gísli Gíslason skipstjóri átti húsið, síðan Jóns Eyjólfs­sonar­hús, Gunnarsstaðir í tíð Gunnars Jónatanssonar verkstjóra og Jónasarhús þegar Jónas Pálsson átti húsið.1Bragi S. Jósepsson (2004a). Eitt stykki hólmur eða Stykkishólmsbók hin skemmri, bls. 572-573. [Stykkishólmi:] Mostrarskegg.

Húsið var 6.40 x 5.70 metrar að grunnmáli, alls 142 rúmmetrar. Við húsið var áfastur skúr, 23 rúmmetrar að stærð. Á hæðinni voru tvær stofur, eldhús, búr og geymsla, en geymslan var að hluta í skúrnum. Þar var einnig gangur að framdyrum og bakdyrum. Í risinu var eitt íbúðarherbergi, gangur og geymsla. Í húsinu voru þrír kolaofnar og eldavél.2Bragi S. Jósepsson (2004a), bls. 573.

Í húsinu var oft æði mannmargt, t.d. þegar Gísli átti húsið. Hann bjó þar ásamt konu sinni Sigríði Guðmundsdóttur, tveimur dætrum þeirra, móður sinni, mágkonu og tengdamóður.

Gunnar Jónatansson sem keypti húsið árið 1936 virðist hafa líkað staðsetning þess vel, því hann byggði sér steinhús rétt austan við gamla húsið árið 1945 og flutti nafn hússins með sér og nefndi nýja húsið einnig Gunnarshús. Því hefur gamla húsinu væntanlega verið ofaukið á lóðinni og talið nauðsynlegt að rífa það eða færa.

Árið 1947 keypti Magnús Ólafur Jónsson húsið, flutti það niður að Skúlagötu 18 og endurbyggði það þar á steyptum kjallara, án þess að stækka húsið. Magnús nefndi hús sitt Lambanes.3Bragi S. Jósepsson (2004a), bls. 573-598. Í kjallaranum var þvottahús, miðstöðvarklefi og geymsla.4Bragi S. Jósepsson (2004b). Hús og vatnsbrunnar í Stykkishólmi á fyrri hluta 20. aldar, bls. 81. [Stykkishólmi:] Mostrarskegg.

Árið 2013 veitti Minjastofnun Íslands heimild til þess að húsið yrði rifið að beiðni eiganda og skipulagsfulltrúa Stykkishólmsbæjar. Nýtt hús var byggt á grunni gamla hússins.5Gagnasafn Minjastofnunar Íslands. Skúlagata 18, Stykkishólmi.

 

Leitarorð: Stykkishólmur

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023

Heimildaskrá

  • 1
    Bragi S. Jósepsson (2004a). Eitt stykki hólmur eða Stykkishólmsbók hin skemmri, bls. 572-573. [Stykkishólmi:] Mostrarskegg.
  • 2
    Bragi S. Jósepsson (2004a), bls. 573.
  • 3
    Bragi S. Jósepsson (2004a), bls. 573-598.
  • 4
    Bragi S. Jósepsson (2004b). Hús og vatnsbrunnar í Stykkishólmi á fyrri hluta 20. aldar, bls. 81. [Stykkishólmi:] Mostrarskegg.
  • 5
    Gagnasafn Minjastofnunar Íslands. Skúlagata 18, Stykkishólmi.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023