Skólahúsið á Hólum um aldamótin 1900. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Númer H1-98. Sótt 1. október 2020 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1585661.
Skólahúsið á Hólum um aldamótin 1900. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Númer H1-98. Sótt 1. október 2020 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1585661.

Skólahús, Hólum í Hjaltadal

Heiti: Hólaskóli
Byggingarár: 1884-1889
Brann: 1926
Upphafleg notkun: ?
Fyrsti eigandi: Eggert Laxdal
Aðrir eigendur:
1890: Hólaskóli
Upphafleg staðsetning: Hrísey, Eyjafirði
Flutt: 1890-1892 að Hólum í Hjaltadal
Hvernig flutt: Tekið niður, sett á skip og flutt í Kolkuós. Flutt þaðan á klökkum og sleðum

Saga:

Hólar í Hjaltadal eru einn mesti sögustaður Íslands, biskupssetur frá 1106 til 1798 og var þá annar höfuðstaða landsins ásamt Skálholti.

Búnaðarskólinn á Hólum, Hólaskóli, hóf starfsemi sína haustið 1882 í gamla bænum á Hólum, sem stóð suðvestur af kirkjunni. Fljótlega var farið að huga að því að skólinn eignaðist stærra og betra húsnæði og á fundi sínum 6. nóvember 1889, samþykkti stjórnarnefnd skólans panta húsavið frá Noregi í hinn nýja skóla. Þessari ákvörðun var þó breytt nokkrum dögum síðar þegar eftirfarandi auglýsing birtist í Akureyrarblaðinu Norðurljósinu:1Páll Sigurðsson (1989). Bruninn á Hólum í Hjaltadal haustið 1926. Í Skagfirðingabók. Rit Sögufélags Skagfirðinga, XVIII, árg., bls 101-141, bls. 119-120.

Hús, sem stendur í Hrísey, 24 al. langt og 16 al. breitt, tvíloptað með 2 stórum alþiljuðum herbergjum mjög sterkt og vel smíðað, grindin úr 7×9 þl. til 5×6 þl. með 2 dregurum, bæði uppi og niðri, nýlega byggt og kostaði þá 4.500 krónur, meiri partur efnisins keypt í Noregi og reiknað eptir innkaupsverði þar, fæst nú keypt mjög ódýrt og með góðum skilmálum. Húsinu er mjög hentugt að skipta í 2 hús, sem yrðu 16×12 al. Allir viðir eru sagaðir ferstrendir og í undirgrindunum og dregurum svo gildir, að vel má fletta þeim og yrðu þeir þó efnismeiri en í frestum íveruhúsum gjörist. Lysthafendur snúi sér til undirskrifaðs.

Akureyri 14. nóv. 1889
Eggert Laxdal.2Til kaups (1889, 19. nóvember). Norðurljósið, bls. 76.

Eggert Laxdal var fæddur á Akureyri árið 1846. Sextán ára gamall réði hann sig til starfa hjá Gudmannsverslun á Akureyri og starfaði þar samfleytt í 40 ár, en rak eftir það verslun fyrir eigin reikning í nokkur ár eða til ársins 1908. Auk verslunarstarfa gengdi Eggert fjölda opinberra starfa á Akureyri, var m.a. í bæjarstjórn og var varaformaður Sparisjóðs Akureyrar. Eggert lést árið 1923.3Minning: Eggert Laxdal kaupmaður. R. af DBR. og Hinni íslenzku fálkaorðu (1923, 3. ágúst). Íslendingur, bls. 1.

Ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um umsvif Eggerts í Hrísey, en vitað er að árið 1884 átti hann stórt salthús í landi Syðstabæjar. Ekki eru heldur til nákvæmar heimildir um húsið sem Eggert auglýsti til sölu árið 1889, en Páll Sigurðsson hefur fært fyrir því rök að húsið hafi verið reist eftir 1884.4Páll Sigurðsson (1989), bls. 130.

Strax eftir að auglýsingin um sölu hússins birtist var gengið til samninga við Eggert Laxdal og í mars 1890 voru samningar í höfn. Einnig var samið við Snorra Jónsson smið á Akureyri um að rífa húsið, koma viðum þess í skip og reisa húsið að nýju á Hólum. Viðirnir voru fluttir með skipinu Gránu á Kolkuós sama ár, en það var ekki fyrr en veturinn 1891 til 1892 sem sleðafæri gafst til að aka viðunum heim að Hólum, en einnig hafði mikið af við verið flutt á klökkum um sumarið. Þennan vetur var einnig flutt ógrynni af grjóti í kjallarahleðsluna á sleðum.

Byrjað var að reisa húsið sumarið 1892 og er talið að aðalgrind Hríseyjarhússins hafi haldið sér nær óbreytt, en talsvert var bætt við af timbri, einkum til að þilja af þau fjölmörgu herbergi sem voru í húsi og efni í hurðir og glugga. Smíðinni lauk ekki fyrr en sumarið 1893 því flutt var inn í það 4. júlí 1893.5Páll Sigurðsson (1989), bls. 120-122; Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2011). Byggðasaga Skagafjarðar. VI. bindi. Hólahreppur, bls. 148-149. Ritstjóri og aðlhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.

Til er lýsing á nýbyggðu húsinu, gerð 10. júní 1893:

Húsið er 26 álnir á lengd, 16 álnir á breidd [um 162 m²], 9 álnir á hæð undir þakskegg og 15 álnir á hæð upp í mæni. Kjallari er undir öllu húsinu, 4 álnir á hæð.
Grind hússins er úr sterkum furðuvið, og er steypt í hana alla með vel sterkri sementssteypu. Þar utan yfir er klætt með nýjum borðum. Þak hússins er úr borðum og klætt yfir þau með þakpappa. Á húsinu eru tvennar útidyr og 30 gluggar, 11 á hvorri hlið og 4 á hvorum gafli. Á vesturhliðinni miðri eru aðaldyrnar og trépallur fyrir framan með grindum úr renndum stólum til hliðar, og liggja tröppur niður til beggja enda. Á austurhliðinni miðri eru eldhúsdyr, og er þar áfastur skúr …
Kjallarinn er hlaðinn úr góðu íslenzku grjóti og límdur með sementi utan og innan. Í honum eru tveir gildir ásar undir góflbitum með sterkum og nánum stoðum. Á kjallaranum eru einar útidyr og 10 gluggar, 4 á hvorri hlitð og 1 á hvorum gafli. Hann er hólfaður sundur með hefluðum og plægðum borðum, þannig að á hvorum enda eru 3 herbergi öll jafnstór, 6 álnir á lengd og 5 álnir á breidd. Í miðjunni eru 2 stór herbergi. Í öðru þeirra er stigi með uppgöngu í eldhús.
Á gólfi hússins eru 10 herbergi … Forstofa er við miðja vesturhlið hússins, … Þar er stigi með uppgöngu á neðra loftið. Sín hvoru megin við forstofuna eru 2 herbergi … Í miðju hússins langsetis er 2 herbergi sitt á hvorum enda …Við austurhlið hússins er herbergi í norðurenda … Sömu megin er eldhúsið … Í suðurendanum er búrið …6Páll Sigurðsson (1989), bls. 123-124.

Í kjallara voru ýmis konar geymslurými, t.d. fyrir mjólk, skyr og slátur, kjöt, garðávexti, og kol og mó. Auk þess var þar þvottahús.

Í herbergjunum 10 á gólfi voru m.a. stofa og svefnherbergi skólastjóra, gestastofa og gestaherbergi, smíðastofa og borðstofa auk eldhúss og búrs eins og áður segir.

Á neðra lofti voru 7 herbergi, 4 við vesturhlið og 3 austan megin. Gangur var í miðju með stiga með uppgöngu á efra loftið. Í þessum herbergjum voru kennslustofur, skrifstofa, bókhlað, stofa og svefnherbergi kennara og svefnherbergi námssveina.

Á efra lofti var kvistur þvert yfir húsið. Auk kvistherbergjanna voru þar 3 herbergi í hvorum enda, öll jafnstór. Hér voru vistarverur ráðskonu og vinnumanna og -kvenna, sjúkrahús og geymslur.7Páll Sigurðsson (1989), bls. 124-128.

Að lokum segir í lýsingu hússins:

Allt gólf hússins er tvöfalt og sömuleiðis bæði loftin. Öll skilrúm eru einnig tvöföld og með sterku bindingsverki.
Í húsinu eru 2 reykháfar, og eru pípurnar úr tígulsteini, ná þær alla leið frá kjallaragólfi upp í mæni. Í því eru um 10 ofnar, stór eldavél og eldstæði í kjallaranum. Allt húsið er málað að utan og innan.8Páll Sigurðsson (1989), bls. 124-125.

Hér verður sögu Hólaskóla ekki gerð skil, en benda má á bækurnar Hólastaður eftir Gunnlaug Björnsson og Bændaskólinn á Hólum 1882-1982. Afmælisrit til frekari fróðleiks.9Sjá Gunnlaugur Björnsson (1957). Hólastaður. Bændaskólinn 75 ára. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri; og Sölvi Sveinsson (1982). Bændaskólinn á Hólum 1882-1982. Afmælisrit. Hólar í Hjaltadal: Bændaskólinn á Hólum. Eigi að síður er forvitnilegt að glugga í fyrstu reglugerð skólans til að átta sig á eðli skólans og þeim andblæ sem þar ríkti:

2. grein.
Það er tilgangur skólans að veita piltum þeim, sem í hann ganga, kunnáttu til munns og handa, að því er snertir búnað og búfræði, venja þá við verklegan dugnað í þeim störfum, er þar að lúta, og yfir höfuð að auka áhuga þeirra fyrir framförum í landbúnaði.

7. grein.
Skilyrði fyrir inntöku í skólann eru:
1. Að piltar séu ekki yngri en 18 vetra og ekki eldri en 28 ára.
2. Að hann sé bólusettur og hafi engan næman sjúkdóm.
3. Að hann sé vel læs og skrifandi og kunni reikningsreglur í heilum tölum.
4. Að hann sendi vottorð um gott siðferði frá hlutaðeigandi sóknarpresti.
5. Að hann sé heilsugóður og hafi þroska og kunnáttu til venjulegrar sveitavinnu.

9. grein.
Í sumarskólanum skal kennt:
1. Að nota plóga, herfi og önnur garðyrkjuverkfæri.
2. Að rækta matjurtagarða og fóðurjurtir.
3. Að fara vel með alls konar áburð.
4. Að veita vatni, þurrka votlendi og skera vörzluskurði.
5. Að stinga hnausa, hlaða garða og veggi jafnt úr grjóti sem torfi.
6. Að verka hey og hafa á hendi verkstjórn við heyvinnu og aðra útivinnu.
7. Að slátra skepnum og fara vel með afrakstur þeirra.
8. Að nota einföld mælingaráhöld til landmælinga.

10. grein.
Í vetrarskóla skulu þessar námsgreinar kenndar:
1. Ágrip af náttúrufræði. 2. Jarðyrkjufræði og um áburð og vatnsveitingar. 3 Kvikfjárrækt, bæði bókleg og verkleg. 4. Hagfræði í búnaði og um samning búnaðarreikninga. 5. Mælingarfræði. 6. Uppdráttarlist. 7. Reikningur. 8. Íslenzka. 9. Danska. 10. Stutt áhgrip af landafræði. 11. Ágrip af Íslandssögu. 12. Sprengja grjót, smíða einföld verkfæri og gera að verkfærum. Ef því verður við komið, skal piltum kenndur söngur.

11.   grein.
Kennslunni skal þannig haga, að henni verði lokið á tveimur árum.
Að vorinu og haustinu skal daglega einni stundu varið til bóklegra námsgreina, og skal þá einkum kennd grasafræði. Að sumrinu skal ekki ákveðinni tími til boknáms, en hamli veður, að útiverk verði unninm og eigi séu önnur verk fyrir hendi, þá skal nota þvílíkar stundir til bóknáms.
Hin bóklega kennska skla að vetrinum vera 5 klukkustundir hvern rúmhelgan dag og 3 klukkustundir útivinna. …

12. grein.
Skólinn veitri námspiltun kennslu, húsnæði, fæði, þjónustu, hita og ljós endurgjaldslaust, nema að því leyti sem þeir borga með vinnu sinni, en bækur, ritföng og fatnað allan, skóletður, handklæði, greiðu og handsápu skulu piltar leggja sér sjálfir til.

15. grein.
Skólastjóri skal hafa nákvæmt eftirlit með framferði pilta, að það sé í alla staði siðsamlegt. Geri nokkur piltur sig beran að ósiðsemi, óreglu og þvermóðsku og skipist eigi við ítrekaðar áminningar skólastjóra, getur skólastjóri vísað honum frá skólanum, og er honum þá skylt að borga sem svarar 100,00 króna meðlagi um árið fyrir þann tíma, sem hann er búinn að vera í skólanum.10Jósef J. Björnsson samdi reglugerð þessa á fyrsta ári skólans 1882, en hún hlaut ekki staðfestingu landshöfðingja fyrr en 1885 og gilti nær óbreytt í 20 ár. Gunnlaugur Björnsson (1957).

Þó húsið væri stórt og í því margar vistarverur var það svo sannarlega oft þröngt setinn bekkurinn, því talið er að um manns hafi átt vetrardvöl í skólahúsinu þegar mest var. Einnig er ljóst að herbergjaskipan breyttist eitthvað í tímans rás, t.d. var aðstaða til eldunar og borðhalds nemenda flutt niður í kjallara. Eftir að ný skólabygging var tekin í notkun árið 1910 var gamla skólahúsið notað sem heimavistir nemenda, kennaraíbúðir og þar voru einnig geymslur.11Páll Sigurðsson (1989), bls. 129; Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2011), 150-151.

Þannig var húsið nýtt þegar eldur kom upp í húsinu aðfararnótt 14. október 1926 og húsið brann til grunna. Alls voru þá í húsinu um 30 manns, tveir kennarar og fjölskyldur þeirra, 15 skólapiltar sem voru nýkomnir í skólann og þjónustufólk. Ekki hlaust manntjón af og unnt var að bjarga töluverðum verðmætum úr húsinu. Það má m.a. þakka hve veður var stillt, hve fljótt eldsins var vart og að hann kom upp á rishæð hússins, líklega í fatakompu skólapilta. Talið er að húsið hafi verið gjörfallið um einni og hálfri klukkustund eftir að hans vart.12Páll Sigurðsson (1989), bls. 101-106; Nákvæma lýsingu á eldsvoðanum og réttarhöldum í kjölfar hans má lesa í grein Páls Sigurðarssonar, Bruninn á Hólum í Hjaltadal haustið 1926, í Skagfirðingabók 1989.

Í fimm ár stóð kjallari hússins opinn fyrir veðri og vindum, en árið 1931 var reist verkfærahús á grunni hans, sem enn stendur.13Páll Sigurðsson (1989), bls. 108; Katrín Gunnarsdóttir (2000, apríl). Hólar í Hjaltadal. Fornleifaskráning, bls. 45. Byggðasafn Skagfirðinga.

 

Leitarorð: Eyjafjörður – Hjaltadalur

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023