Árið 1905 reisti Egill Diðriksson 9 x 10 álna (rúmlega 35 m²) hús á lóð sem var milli Laugavegar og Grettisgötu og hafði númerið Laugavegur 40 B. Við húsið var skúr, 4 x 5 álnir (7,8 m²). Árið eftir afsalar Egill sér húsinu til sona sinna, Jóns og Sveins, ásamt tilheyrandi lóð.
Árið 1931 var húsið flutt á lóð númer 7 við Skipasund og settur á það kvistur. Á rishæðinni voru 2 íbúðarherbergi og eldhús, en á aðalhæð hússins voru 3 herbergi auk eldhúss. Viðbyggingin við húsið var jafnframt stækkuð í 13,4 m² og þar var nú herbergi, gangur og salerni á neðri hæð og herbergi og gangur á efri hæð. Í kjallaranum, sem var með steinsteyptu gólfi, var miðstöðvarherbergi, smíðaklefi, þvottaherbergi og geymsla.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023