Skipasund 32 í Reykjavík í apríl 2024. Ljósm.: Höfundur.
Skipasund 32 í Reykjavík í apríl 2024. Ljósm.: Höfundur.

Skipasund 32, Reykjavík

Byggingarár: 1896
Upphafleg notkun: Verslunar- og íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Sigurður Bjarnason söðlasmiður
Aðrir eigendur:
1897: Sigurjón Sigurðsson snikkari
?: Árni Thorsteinsson landfógeti
1925: Þórunn Thorsteinsson og Franz Siemsen f.v. sýslumaður
Upphafleg staðsetning: Ingólfsstræti 5, Reykjavík
Flutt: 1945 að Skipasundi 32, Reykjavík

Saga:

Árið 1896 var virt hús sem Sigurður Bjarnason söðlasmiður hafði nýverið byggt á lóð númer 5 við Ingólfsstræti í Reykjavík. Árið eftir var húsið virt að nýju því eigendaskipti höfðu orðið á húsinu og það eignast Sigurjón Sigurðsson snikkari. Húsið hafði þó lítið breyst á þessu eina ári og því lýst þannig:1Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Ingólfsstræti 5.

Hús þetta er byggt af bindingi klætt utan með borðum og járni á austurhlið og suðurgafli með pappa á milli og járnþaki á súð með pappa á milli. Niðri í húsinu eru 4 herbergi auk eldhúss þiljuð, betrekt og máluð og með tvöföldum loftum. Þar eru 3 ofnar og 1 eldavél. Uppi eru 4 herbergi, öll þiljuð og máluð. Þar eru 3 eldavélar og 1 lítill ofn. Kjallari er undir öllu húsinu með trégólfi.
Lengd hússins 14 al, breidd 10 al, hæð 5 al.2Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Ingólfsstræti 5

Árið 1943 var lítið búið að breyta húsinu og það var enn um 55,5 fermetrar að grunnfleti. Um 1930 hafði verið byggt við húsið. Stærð viðbyggingar var 3,5 x 9,4 m og hæðin 3,6 m með skáþaki. Þar fór fram ýmiss konar starfsemi, höfð þar sölubúð eða saumastofa auk þess sem þar var íbúðarherbergi.3Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Ingólfsstræti 5; Þingholt. Miðbýli – Bergstaðir – Ofanleiti . Könnun á sögu húsanna (1983), bls. 39. Unnið undir stjórn Nönnu Hermansson, borgarminjavarðar. Reykjavík: Árbæjarsafn. Í gagnasafni Árbæjarsafns. Árni Thorsteinsson landfógeti átti þetta hús um skeið, en þegar hann lést árið 1925 eignaðist Þórunn dóttir hans húsið.4Páll Líndal (1986-1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund, 2. bindi, bls. 75. 3 bindi. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Páll Líndal segir að hús þetta hafi verið rifið árið 1945 þegar það hús sem nú stendur við Ingólfsstræti 5 var reist.5Páll Líndal (1986-1991), 2. bindi, bls. 75. Þetta er ekki allskostar rétt, því ekki verður betur séð en að húsið sé virt árið 1949 og nú er það númer 32 við Skipasund og því verið „gjörbreytt við endurbygginguna“6Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skipasund 32. eins og sagt er í brunabótamatinu, en grunnflötur þess er þó sá sami. Í desember 1949 er húsinu lýst þannig:

Það er 1 hæð, ris og kjallari, byggt úr timbri, klætt utan járni og múrhúðað yfir, fóðrað innan marhálmsstoppi, asbesti og masonit og með þaki úr timbri, pappa og bárualuminium. Á hæðinni eru 3 íbúðarherbergi, eldhús, anddyri og innri forstofa, allt málað og dúklagt. Á þakhæð eru 4 íbúðarherbergi v.s. m/handlaug, forstofa og 4 fastir skápar, allt málað og dúklagt; þiljað er neðan á skammbita. Í kjallara eru 2 íbúðarherbergi, eldhús, v.s., anddyri, innri forstofa og fastur skápur, allt málað og dúklagt; ennfremur þvottahús m/steypibaði og v.s. og kolamiðstöð og geymsla undir útitröppum.7Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skipasund 32.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. apríl, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Ingólfsstræti 5.
  • 2
    Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Ingólfsstræti 5
  • 3
    Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Ingólfsstræti 5; Þingholt. Miðbýli – Bergstaðir – Ofanleiti . Könnun á sögu húsanna (1983), bls. 39. Unnið undir stjórn Nönnu Hermansson, borgarminjavarðar. Reykjavík: Árbæjarsafn. Í gagnasafni Árbæjarsafns.
  • 4
    Páll Líndal (1986-1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund, 2. bindi, bls. 75. 3 bindi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
  • 5
    Páll Líndal (1986-1991), 2. bindi, bls. 75.
  • 6
    Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skipasund 32.
  • 7
    Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skipasund 32.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. apríl, 2024