Vesturgata 58 um 1970. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Myndavefur. Ljósm.: Sveinn Þórðarson. Mynd nr.: SÞÓ ÁBS 1314.jpg. Sótt 1. desember 2023 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.
Vesturgata 58 um 1970. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Myndavefur. Ljósm.: Sveinn Þórðarson. Mynd nr.: SÞÓ ÁBS 1314.jpg. Sótt 1. desember 2023 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.

Skerplugata 2, Reykjavík

Byggingarár: 1905
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Jón Jakobsson og Þorbjörg Nikulásdóttir
Upphafleg staðsetning: Vesturgata 56, Reykjavík
Fyrst flutt: 1933 að Vesturgötu 58, Reykjavík
Aftur flutt:
1989 að Skerplugötu 2 í Skerjafirði, Reykjavík

Saga:

Árið 1905 var virt nýbyggt hús Jóns Jakobssonar (1872-1949) verslunarmanns við Vesturgötu 56 í Reykjavík. Húsið var um 36 fermetrar að grunnfleti, einlyft með risi, byggt af bindingi, klætt utan með plægðum borðum, pappa, listum og járn þar yfir. Á þakinu var einnig járn á plægðum borðum með pappa á milli. Húsið var einangrað með sagi. Niðri í húsinu voru þrjú íbúðarherbergi, eldhús og einn fastur skápur. Herbergin voru öll þiljuð með pappa á veggjum, en strigi og pappír var á loftum. Allt var þetta málað. Einn ofn og ein eldavél var í húsinu. Undir húsinu var kjallari með malargólfi.1Borgarskjalasafn. Aðf. 735. Brunatrygging húsa 1900-1905. Brunavirðinganr. 957.

Jón var kvæntur Þorbjörgu Nikulásardóttur (1873-1925) og árið 1920 kemur fram að þau hafi átt 3 börn og auk þessu voru þau með tvo leigjendur í húsinu.2Manntalsvefur Þjóðskjalasafns. Manntalið 1920. Vesturgata 56. Sótt 15. júní 2020 af http://manntal.is/leit/Vesturgata%2056/1920/1/1920/28687/3053

Árið 1933 réðust tveir synir þeirra hjóna, þeir Gunnar Kristinn (1903-1984) og Nikulás (1905-1974) í það stórvirki að reisa tveggja hæða steinsteypuhús á lóðinni, sem látið var standa þétt við götuna, samkvæmt skipulagi um randbyggð sem samþykkt hafði verið árið 1927. Gamla húsið var þá flutt á næstu lóð, þ.e. er lóð númer 58 á horni Vesturgötu og Seljavegar.

Skerplugata 2 um 2020. Ljósm.: Gagnasafn Minjastofnunar Íslands.

Og enn var húsið fyrir, því árið 1990 stóð til að byggja lítið fjölbýlishús á hornlóðinni. Þá var húsið flutt að Skerplugötu 2, þar sem það unir sér vel innan um önnur sambærileg flutningshús.3Borgarskjalasafn. Aðf. 746. Brunatrygging húsa 1933-1937. Brunavirðinganr. 3277; Páll V. Bjarnason, Helga Maureen Gylfadóttir, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Jóna Kristín Ásmundsdóttir (2003). Mýragötusvæði. Húsakönnun og fornleifaskráning, bls. 151 og 152. Skýrsla nr. 98. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur.

 

Leitarorð: Skerjafjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023