Skerðingsstaðir, Hvammssveit
Saga:
Árið 1892 fengu hjónin Soffía Gestsdóttir og Magnús Friðriksson ábúð á jörðinni Arnarbæli á Fellsströnd. Þá var Oddný Smith eigandi jarðarinnar en hún hafði búið þar með bónda sínum Boga Smith, sem drukknaði ásamt tveimur sonum þeirra árið 1886. Eftir það flutti Oddný til Reykjavíkur. Bogi, sem var smiður góður og sonur norsks timburkaupmanns, hafði byggt timburhús á jörðinni árið 1876 úr norskum rauðaviði, en auk þess var þar fornfáleg baðstofa, sem notuð var af hús- og vinnufólki.1Magnús Friðriksson (1957). Minningabók Magnúsar Friðrikssonar Staðarfelli, bls. 123-125. Reykjavík: Hlaðbúð; Geir Sigurðsson (1983). Minningar frá morgni aldar, bls. 18. Reykjavík: Víkurútgáfan. Ákveðið var að timburhúsið
sem stóð sunnan við baðstofustafninn, skyldi fylgja jörðinni. Það var orðið stórgallað af fúa og vanhirðu undanfarin 6 ár, fullt af raka og súgi. Húsið var allt ójárnvarið og því ekki fýsilegt að flytja í það og taka jafnframt að sér alla ábyrgð á því án álags.2Magnús Friðriksson (1957), bls. 125.
Þau hjón höfðu þó ekki allt húsið fyrir sig, því frá upphafi var sett það skilyrði að gömul kona, sem þénað hafði hjá frú Oddnýju hefði eitt rúmgott herbergi til afnota, hún, „fylgdi jörðinni eins og kúgildi“.3Magnús Friðriksson (1957), bls. 133.
Ástand hússins var nýju ábúendunum mikil vonbrigði og ákváðu þeir að biðja óvilhalla menn að skoða húsið og dæma ástand þess. Úrskurður þeirra var að húsið væri óíbúðarhæft. Þegar eigandanum barst skoðunargerðin fylgdi með sú ráðlegging að réttast væri að selja húsið til niðurrifs. Niðurstaðan varð sú að séra Kjartan Helgason prestur að Hvammi í Dölum fékk leyfi kirkjustjórnar til að kaupa húsið og var gengið frá kaupsamningi veturinn 1894. Í honum var kveðið á um að séra Kjartan keypti húsið þar sem það stóð og næsta vor skyldi hann láta rífa það, flytja og setja niður aftur á sinn kostnað.4Magnús Friðriksson (1957), bls. 133-134.
Magnús Friðriksson lýsir flutningi hússins svo í sjálfsævisögu sinni:
Sr. Kjartan samdi um niðurrif hússins við góðan og merkan smið, Jón Jósefsson Hjaltalín frá Straumi. Hann hafði lært trésmíðar af Boga Smith í Arnarbæli og hjálpað honum að smíða timburhúsið þar. Varð Jóni því auðveldara að rífa húsið en öðrum. Jafnframt átti Jón að reisa húsið aftur í Hvammi.
Sr. Kjartan ákvað að flytja viðinn úr húsinu sjóveg inn í Hvammsfjarðarbotn. Hann samdi við mig að flytja viðinn fram í Litla-Dagverðarnes. Sú ráðstöfun var nauðsynleg vegna þess, að á voginum, sem liggur upp að Arnarbælistúninu, flýtur ekki nema um stórar flæðar, en nauðsynlegt var að geta hafið hverja ferð um háfjöru, svo að straumur væri með sem lengst inn fjörðinn. Að Litla Dagverðarnesi flýtur jafnt um fjöru sem flóð. Þangað er um ¼ sjómílu frá túninu í Arnarbæli.5Magnús Friðriksson (1957), bls. 135.
Séra Kjartan Helgason gerðist prestur að Hvammi í Dölum árið 1891 og sat þar til 1905. Hann lét gera hlaðinn grunn undir húsið og þó húsið væri ekki stórt hafði það reisulegan svip og prýddi staðinn.6Geir Sigurðsson (1983), bls. 12-18.
Árið 1951 var húsið aftur flutt, nú að næsta bæ, Skerðingsstöðum,7Geir Sigurðsson (1983), við hlið bls. 33. þar sem það stendur enn á steyptum grunni en hefur verið múrhúðað. Eiður Sigurðsson dró húsið á ís „í heilu lagi á einskonar sleða með jarðýtu af gerðinni DT. 14, en slík tæki voru algeng á árunum eftir stríð og voru stærstu gerðir af ýtum frá International verksmiðjunum“.8Einar G. Pétursson (2010, 29. júní). Tölvupóstur. Það voru þau Geir Sigurðsson og María Ólafsdóttir sem fluttu í húsið með einkadóttur sinni úr gömlum og litlum torfbæ sem þau höfðu búið í.9Finnur Kr. Finnsson (2002). Aldarminning Geirs Sigurðsson frá Skerðingsstöðum, bls. 39. Breiðfirðingur, 60, bls. 38-43.
Hér vekur furðu að einungis 18 árum eftir að húsið í Arnarbæli var byggt er það vart talið íbúðarhæft lengur þrátt fyrir að smiður góður, sonur norsks timburkaupmanns, hafi byggt það úr norskum rauðaviði. Þá vekur líka eftirtekt hversu afar slæmur húsakosturinn hefur verið á prestssetrinu Hvammi ef hrörlega húsið sem þótti ekki nothæft til íbúðar var skárri kostur en þau hús sem þar voru í boði. En það er deginum ljósara að vel hefur tekist til við endurbætur og lagfæringu hússins, því enn stendur það og ber sig vel þrátt fyrir háan aldur og ferðalög.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. desember, 2023
Heimildaskrá
- 1Magnús Friðriksson (1957). Minningabók Magnúsar Friðrikssonar Staðarfelli, bls. 123-125. Reykjavík: Hlaðbúð; Geir Sigurðsson (1983). Minningar frá morgni aldar, bls. 18. Reykjavík: Víkurútgáfan.
- 2Magnús Friðriksson (1957), bls. 125.
- 3Magnús Friðriksson (1957), bls. 133.
- 4Magnús Friðriksson (1957), bls. 133-134.
- 5Magnús Friðriksson (1957), bls. 135.
- 6Geir Sigurðsson (1983), bls. 12-18.
- 7Geir Sigurðsson (1983), við hlið bls. 33.
- 8Einar G. Pétursson (2010, 29. júní). Tölvupóstur.
- 9Finnur Kr. Finnsson (2002). Aldarminning Geirs Sigurðsson frá Skerðingsstöðum, bls. 39. Breiðfirðingur, 60, bls. 38-43.
Deila færslu
Síðast uppfært 28. desember, 2023