Skeljanes 4, Reykjavík
Verslunar- og íbúðarhús Ólafs Árnasonar, síðar Helgahús á Stokkseyri. Ljósm.: Chr. Bjarni Eyjólfsson. Sarpur.is. Ljósmynd DBE-137. Sótt 4. mars 2023 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=639055.
Seðill gefinn út af Ólafi Árnasyni kaupmanni. Guðni Jónsson (1961). Stokkseyringa saga. Síðara bindi, bls. 33. Reykjavík: Stokkseyringafélagið í Reykjavík.
Saga:
Uppruni hússins að Skeljanesi 4 í Reykjavík liggur ekki ljós fyrir. Í Húsaskrá Minjasafns Reykjavíkur er það sagt byggt árið 1928 en í Fasteignaskrá Íslands árið 1940.1Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skeljanes 4;. Í Húsaskránni segir ennfremur:
Húsið er norskt einingahús, smíðað í Noregi á 19. öld, flutt á Fáskrúðsfjörð þar sem það var sett saman. Seinna var húsið flutt á Stokkseyri og þaðan á núverandi lóð. Heitið “Skrúður” gæti verið tilvísun í Fáskrúðsfjörð. Saga þessi fylgdi umsókn um styrk úr Húsverndunarsjóði árið 2008.2Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skeljanes 4.
Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands er einnig á það minnst að húsið Skeljanes 4 sé flutt frá Fáskrúðsfirði árið 1940 (reyndar koma þessa upplýsingar fram í umfjöllun um annað hús).3Guðbjörg Guðmundsdóttir (1993, febrúar). Jörfi frá Akranesi. Byggt árið 1906. Verknr. 0741 í gagnasafni Minjastofnunar Íslands. Þetta kemur heim og saman við byggingarár Fasteignaskrár Íslands og það að húsið hefur verið kallað Skrúður. Ekki hafa fundist neinar upplýsingar um húsið á Fáskrúðsfirði, en hins vegar berast böndin að Ólafshúsi á Stokkseyri.
Ólafur Árnason (1863-1915) hóf snemma að stunda verslunarstörf, fyrst á Sauðárkróki, og aflaði sér menntunar á því sviði í Kaupmannahöfn. Að námi loknu réð hann sig til verslunar Guðmundar Ísleifssonar á Eyrarbakka, en árið 1894 fékk hann borgarabréf á Stokkseyri og réðst sem afgreiðslumaður hjá Stokkseyrarfélaginu. Árið 1896 reisti hann þrílyft íbúðar- og verslunarhús, sem nefnt var Ólafshús. Húsið stóð rétt vestan við þar sem síðar var byggt frystihúsið Hólmaröst við Eyrarbraut. Árið 1907 seldi hann kaupfélaginu Ingólfi húsið og verslunina, sem þá var nýstofnað og Ólafur var stærstur hluthafi í. Var hann síðan framkvæmdastjóri kaupfélagsins til dauðadags, 2. júní 1915. Eftir að Ingólfur tók við húsinu bjó Helgi Jónsson kaupfélagsstjóri í því og var það því kallað Helgahús. Helgi fluttist til Reykjavíkur árið 1926 og fáum árum síðar var húsið rifið og einnig flutt til Reykjavíkur, en kaupfélagið Ingólfur hafði hætt rekstri árið 1923.4Guðni Jónsson (1952). Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, bls. 388. Reykjavík: Stokkseyringafélagið í Reykjavík; Edda Linn Rise, Guðlaug Vilbogadóttir og Guðný Zoëga (2005, júli). Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Hafnargötu á Stokkseyri, bls. 20. Eyrarbakka: Byggðasafn Árnesinga; Guðni Jónsson (1961). Stokkseyringa saga. Síðara bindi, bls. 30 og 39. Reykjavík: Stokkseyringafélagið í Reykjavík.
Um Ólaf segir Guðni Jónsson:
Ólafur Árnason beitti sér fyrir ýmsum nytsömum framkvæmdum eða átti þátt í þeim, svo sem hafnarbótum á Stokkseyri, stofnun brauðgerðarhúss og íshúss, Baugsstaðarrjómabús o. fl. Hann flutti og inn fyrsta vélbátinn, sem kom til Stokkseyrar. Átti hann þannig beinan eða óbeinan þátt í mörgum framfaramálum í byggðarlaginu í þá tvo áratugi, sem hans naut við. Ólafur var glæsimenni, fríður sýnum og fyrirmannlegur. Hann var starfsmaður mikill, fær verslunarmaður og vel að sér í tungumálum, hjálpsamur við þá, er hann reyndi að skilsemi, enda vinsæll af almenningi. Hann var kvæntur Margréti dóttur Friðriks Möllers póstafgreiðslumanns á Eskifirði, gáfaðri og mikilhæfri konu, og áttu þau fjögur börn.5Guðni Jónsson (1961), bls. 31-32.
Ólafur tók upp þann sið líkt og fleiri verslanir hér á landi og erlendis að gefa út sérstakan gjaldmiðil sem gilti aðeins í viðskiptum við verslun hans. Peningar Ólafs voru 10, 5, 2 og 1 krónu seðlar og 25 og 10 aura mynt. Á þessum seðlum var mynd af verslunarhúsi Ólafs.6Guðni Jónsson (1961), bls. 31.
Í Húsaskrá Minjasafns Reykjavíkur kemur fram að Metúsalem Stefánsson búnaðarmálastjóri hafi verið fyrsti eigandi hússins að Skeljanesi 4 sem var byggt árið 1928, þ.e. áður en Skerjafjörður (Skildinganes) sameinaðist Reykjavíkurbæ 1932 og verið eitt fárra tvílyftra húsa þar um slóðir um það leyti. Húsið hafi áður heitið Skrúður og staðið við Shellveg 4, en árið 1968 var nafni götunnar breytt í Skeljanes.7Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skeljanes 4; Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi M. Sigurðsson og Hrefna Róbertsdóttir (1990). Borgarhluti 2, bls. 43-46. Fyrsta greinargerð frá Árbæjarsafni. Reykjavík: Árbæjarsafn.
Hafsteinn Hafliðason, fyrrverandi íbúi að Skeljanesi 4, segir um húsið:
Það styrkir sögnina um að timbrið hafi áður verið notað í einhverskonar viðskiptahúsnæði að þegar við vorum að gera upp íbúðina okkar (efri hæðina, íbúð Metúsalems) þá komum við að fjölum þar sem á voru krotuð einskonar minnispunktar um viðskipti og inneign – mig rámar í mannsnöfnin Jón og Guðni sem báðir hafi skilað af sér tilteknum fjölda af “bölum”. Hvort sem það hefur nú átt við fisk eða ull læt ég ósagt. Allt timbur virtist hafa verið notað áður og mikið af panelnum málaður í mismunandi litum.8Hafsteinn Hafliðason (2010, 26. júní). Tölvupóstur.
Hafsteinn bætir við um húsið sem hann bjó í á árunum 1982-1995:
Í húsinu voru upphaflega tvær íbúðir, efri og neðri hæð. Metúsalem og fjölskylda hans bjuggu uppi en Stefán og hans fólk á þeirri neðri.
Í risinu var þurrkloft og vinnukonuherbergi. Í kjallaranum kolageymsla og “miðstöðvarherbergi” sem jafnframt var þvottahús. Þar voru líka geymslur undir geymsludót, mjölmat, slátur- og saltkjötstunnur. Aðalinngangur í húsið var frá Bauganesi í einskonar viðbyggingu eða kálfi við vesturgafl hússins og þar lá stiginn upp á efri hæðina. Upp á háaloftið var farið um stigahús á húsinu norðanverðu. Síðar varð sá inngangur aðalinngangur í flestar íbúðir. Salerni eða baðherbergi voru ekki í húsinu í tíð þeirra bræðra.
Varla hefur það þó verið þess vegna, en sambúð bræðranna – þ.e. þó líklegra svilkvennanna að því er sagt var – gekk víst ekki sem skyldi. Stefánsfólk flutti fljótlega úr húsinu og þá var líklega neðri hæðin seld. Metúsalem dvaldi þar öllu lengur en var fluttur burt áður en hann lauk störfum sínum sem búnaðarmálastjóri.
Svo veit ég ekki eigendasöguna – en einhvern tíma eftir brottför Metúsalems – eða kannski tók hann við íbúð Stefáns – bjó Árni Jónsson frá Múla (faðir Jóns Múla og Jónasar m.a.) og fjölskylda hans í Skrúð.
Á stríðsárunum var húsið komið í eigu bæjarsjóðs Reykjavíkur – og því breytt í eina íbúð í risi, aðra í stigahúsinu og tveim herbergjum (líklega eldhúsi og borðstofu) neðri hæðarinnar, sem þar með varð að tveim íbúðum. Ein íbúð var svo gerð í kjallaranum.
Mér skilst að á þessum árum hafi húsið verið nýtt sem úrlausn fyrir “félagsmálakeis” sem fátæktar- og heilbrigðisnefndir Reykjavíkur þurfti að leysa. Hinir og þessir í ýmiskonar ástandi og stöðu þáðu þarna húsaskjól (þ.e. var komið fyrir!). Litla íbúðin á neðri hæðinni var húsvarðaríbúð.
Einhver af þessum íbúum – lág og grannvaxin kona – virðist hafa kunnað svo sérlega vel við húsið – og þá sérstaklega íbúðina sem við bjuggum í – að hún ákvað að dvelja þar áfram þrátt fyrir að boð hafi verið fyrir hana gerð til annarra heima. Iðulega gekk hún um hjá okkur og hafði yndi af því að draga út eldhússkúffurnar (sem voru satt að segja fremur stífar á meiðunum!) og lét stundum eftir sér að skurka svolítið til hnífapörunum. Hún þoldi heldur ekki að dyr væru lokaðar þannig að skráin héldi við og opnaði þá þannig að hurðir féllu ekki nema að stöfum. … Í engu varð okkur samt vofa þessi að meini.9Hafsteinn Hafliðason (2010, 26. júní). Tölvupóstur.
Þar til annað kemur í ljós er gert ráð fyrir því hér að húsið að Skeljanesi 4 og Ólafshús á Stokkseyri megi telja sama húsið og þó tengslin við Fáskrúðsfjörð sé erfitt að staðfesta er rétt að halda þeim til haga.
Leitarorð: Skerjafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 13. febrúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skeljanes 4;.
- 2Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skeljanes 4.
- 3Guðbjörg Guðmundsdóttir (1993, febrúar). Jörfi frá Akranesi. Byggt árið 1906. Verknr. 0741 í gagnasafni Minjastofnunar Íslands.
- 4Guðni Jónsson (1952). Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, bls. 388. Reykjavík: Stokkseyringafélagið í Reykjavík; Edda Linn Rise, Guðlaug Vilbogadóttir og Guðný Zoëga (2005, júli). Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Hafnargötu á Stokkseyri, bls. 20. Eyrarbakka: Byggðasafn Árnesinga; Guðni Jónsson (1961). Stokkseyringa saga. Síðara bindi, bls. 30 og 39. Reykjavík: Stokkseyringafélagið í Reykjavík.
- 5Guðni Jónsson (1961), bls. 31-32.
- 6Guðni Jónsson (1961), bls. 31.
- 7Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Húsaskrá. Skeljanes 4; Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi M. Sigurðsson og Hrefna Róbertsdóttir (1990). Borgarhluti 2, bls. 43-46. Fyrsta greinargerð frá Árbæjarsafni. Reykjavík: Árbæjarsafn.
- 8Hafsteinn Hafliðason (2010, 26. júní). Tölvupóstur.
- 9Hafsteinn Hafliðason (2010, 26. júní). Tölvupóstur.
Deila færslu
Síðast uppfært 13. febrúar, 2024