Fjós byggt úr flekum úr samkomuhúsi. Heimild: Torfi Guðbrandsson (2001). Strandamaður segir frá. Endurminningar II, bls. 208. Hrafnseyri: Vestfirska forlagið.
Fjós byggt úr flekum úr samkomuhúsi. Heimild: Torfi Guðbrandsson (2001). Strandamaður segir frá. Endurminningar II, bls. 208. Hrafnseyri: Vestfirska forlagið.

Fjós, Finnbogastöðum, Trékyllisvík

Heiti: Samkomuhús
Byggingarár: 1916
Rifið: ≈ 1970
Upphafleg notkun: ?
Fyrsti eigandi: Þrír Norðmenn
Aðrir eigendur:
≈1932: Árneshreppur
1957: Torfi Guðbrandsson
Upphafleg staðsetning: Eyri, Ingólfsfirði
Fyrst flutt: 1930-34 í Árnes, Trékyllisvík
Flutt: 1957 nær sjónum í Árnesi
Hvernig flutt: Skrúfað sundur í Ingólfsfirði og flutt sjóleiðina í Árnes. Flutt í flekum að Finnbogastöðum

Saga:

Þrír Norðmenn fengu mælda út lóð innan við Eyrará í Ingólfsfirði árið 1916 og hófu síldarsöltun. Þeir byggðu þar bryggjur og sterkviðað hús úr 90 sm breiðum flekum sem boltaðir voru saman bæði í þaki og veggjum. Eftir að Norðmenn hættu starfsemi á Eyri var húsið skrúfað sundur og flutt á árunum 1930 til 1934 að Árnesi þar sem það stóð lengi sem samkomuhús byggðarinnar. Reist var annað hús á sama stað í Ingólfsfirði sem nefnt var Ólafsbraggi.1Þorsteinn Matthíasson (1973). Hrundar borgir. Djúpavík, Ingólfsfjörður og Gjögur, bls. 162. [Reykjavík:] Bókamiðstöðin; Torfi Guðbrandsson (2001). Strandamaður segir frá. Endurminningar II, bls. 208. Hrafnseyri: Vestfirska forlagið; Haukur Jóhannesson (2000). Lesið í landið í Árneshreppi á Ströndum, bls. 95. Í Hjalti Kristgeirsson (ritstjóri), Í strandbyggðum norðan lands og vestan. Árbók Ferðafélags Íslands 2000, bls. 45-117. Reykjavík: Ferðafélag Íslands; Gunnsteinn Gíslason (2010, 14. júlí). Munnleg heimild.

Í Árnesi stóð húsið skammt frá þeim stað þar sem árið 1947 var reist samkomuhúsið sem enn stendur. Húsið var nýtt sem þinghús, þar sem manntalsþing voru meðal annars haldin, og félagsheimili þar sem haldnir voru ýmsir félagsfundir, dansleikir og leiksýningar. Þrjár vistarverur voru í öðrum enda hússins en 2/3 hlutar hússins var einn salur. Í herbergjunum þremur voru seldar veitingar, kaffi, kökur og smurt brauð, þegar dansleikir voru haldnir, en þar fékk einnig húsnæðislaus fjölskylda að búa í nokkur ár.2Gunnsteinn Gíslason (2010, 14. júlí).

Nokkrum sinnum fóru fram leiksýningar í gamla húsinu, einkum á þeim árum sem Þorsteinn Matthíasson var skólastjóri á Finnbogastöðum [1938-1943] því að hann var mikil driffjöður í félagslífi hreppsbúa. Lengi varð mönnum tíðrætt um vel heppnaða sýningu á Skugga-Sveini þar sem Andrés Guðmundsson bóndi í Norðurfirði lék aðalhlutverkið og var slíkur ógnvaldur á sviðinu að Trausti Magnússon, unglingur á Steinstúni sem lék Ketil skræk, skalf af hræðslu og fór því létt með hlutverk sitt sem hann skilaði af hreinni snilld.3Torfi Guðbrandsson (2001), bls. 208-209.

Árið 1957 hugðist Torfi Guðbrandsson skólastjóri í Finnbogastaðaskóla byggja fjós. Hann frétti að gamla þinghúsið væri til sölu. Honum segist svo um húsið:

Eftir að ég hafði skoðað þetta fræga hús og séð að það var byggt úr góðum viði gerði ég hreppsnefndinni tilboð í það og fékk húsið til ráðstöfunar fyrir tvö þúsund krónur. Beið ég þá ekki boðanna með að undirbúa flutninginn. Mældi ég húsið og sá að fjósið mátti vera fjórum flekum styttra, eða 8 flekar á lengd en 6 á breidd. Sló ég síðan upp mótum til að steypa sökkla undir fótstykkin sem veggirnir hvíldu á. … Dagbókar­brot sem ég hélt árið 1957 ber með sér að sökklarnir hafa verið steyptir 25. júlí og að vegg­flek­arnir voru reistir 31. sama mánaðar og var þá unnið til miðnættis.4Torfi Guðbrandsson (2001), bls. 209.

Fjósið var rifið um 1970.5Gunnsteinn Gíslason (2010, 14. júlí).

 

Leitarorð: Ingólfsfjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 18. október, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Þorsteinn Matthíasson (1973). Hrundar borgir. Djúpavík, Ingólfsfjörður og Gjögur, bls. 162. [Reykjavík:] Bókamiðstöðin; Torfi Guðbrandsson (2001). Strandamaður segir frá. Endurminningar II, bls. 208. Hrafnseyri: Vestfirska forlagið; Haukur Jóhannesson (2000). Lesið í landið í Árneshreppi á Ströndum, bls. 95. Í Hjalti Kristgeirsson (ritstjóri), Í strandbyggðum norðan lands og vestan. Árbók Ferðafélags Íslands 2000, bls. 45-117. Reykjavík: Ferðafélag Íslands; Gunnsteinn Gíslason (2010, 14. júlí). Munnleg heimild.
  • 2
    Gunnsteinn Gíslason (2010, 14. júlí).
  • 3
    Torfi Guðbrandsson (2001), bls. 208-209.
  • 4
    Torfi Guðbrandsson (2001), bls. 209.
  • 5
    Gunnsteinn Gíslason (2010, 14. júlí).

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 18. október, 2024