Bakaríið á upprunalegum stað við Aðalgötu á Sauðárkróki. Heimild: Guðný Zoëga og Sólveig Olga Sigurðardóttir (2018). Verndarsvæði í byggð – Sauðárkrókur. Fornleifaskráning, bls. 20. Byggðasafn Skagfirðinga. Rannsóknaskýrslur 2018/200.
Bakaríið á upprunalegum stað við Aðalgötu á Sauðárkróki. Heimild: Guðný Zoëga og Sólveig Olga Sigurðardóttir (2018). Verndarsvæði í byggð – Sauðárkrókur. Fornleifaskráning, bls. 20. Byggðasafn Skagfirðinga. Rannsóknaskýrslur 2018/200.

Sæmundargata 13, Sauðárkróki

Heiti: Bakarí – Prófastshús – Hvoll - Sjálfsbjargarhús
Byggingarár: 1890
Upphafleg notkun: Íbúðarhús og bakarí
Fyrsti eigandi: Jón Hallsson
Aðrir eigendur:
?: Einar Stefánsson (Stephansson) og María Jónsdóttir
1912 ?: Guðrún Þorsteinsdóttir
?: Snæbjörn Sigurgeirsson
1960 ? - 1990: Sjálfsbjörg Sauðárkróki
Upphafleg staðsetning: Á milli núverandi Aðalgötu 25 og 27 á Sauðárkróki
Flutt: ≈ 1962 að Sæmundargötu 13, Sauðárkróki
Hvernig flutt: Í heilu lagi á flutningabíl
Sæmundargata 13 2

Aðalgata 25, Sauðárkróki. Ljósm.: Kristján C. Magnússon. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Mynd nr. KCM263. Sótt 20. apríl 2024 af https://atom.skagafjordur.is/index.php/kcm263.

Sæmundargata 13 1

Gamla bakríið flutt frá Aðalgötu að Sæmundargötu. Ljósm.: Kristján C. Magnússon. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Mynd nr. KCM410. Sótt 20. apríl 2024 af https://atom.skagafjordur.is/index.php/kcm410.

Saga:

Árið 1890 lét séra Jón Hallsson (1807-1894) prófastur reisa hús á Sauðárkróki. Húsið stóð við Aðalgötu á milli og aðeins austan við núverandi (2024) Aðalgötu 25 og 27.

Í skýrslunni Verndarsvæði í byggð – Sauðárkrókur. Fornleifaskráning segir þetta um húsið:

Í Virðingabók 1916-1917 (bls. 48) segir: „Húsið er ein hæð með porti og risi. Niðri 2 íbúðarherbergi, veggfóðruð og máluð með […], 1 eldhús með eldavél, 1 búr, 1 forstofa. Herbergi þessi öll máluð, ennfremur 1 herbergi sem brauðgjörðarofn stendur í. Á loftinu eru 5 herbergi og […] notuð til íbúðar og geymslu, tvö af þessum herbergjum eru veggfóðruð og máluð og ofn og í þeim báðum. Hlaðinn og steinlímdur kjallari undir ca. 1/3 hússins. Tveir hlaðnir reykháfar eru á húsinu og ganga rör frá öllum eldstæðum í þá. Útveggir úr timbri, þak úr timbri og pappa. Mál húss: 8,9 x 7,65.“ Við suðurenda hússins má á korti sjá skúrbyggingu, ein hæð með litlu risi, notuð fyrir brauðsölu og brauðgjörð. Sama byggingarefni og í húsi. Mál: 3,85 x 6,4. Afmarkaður garður er sýndur við húsið á korti af Sauðárkróki frá 1920.
Aðrar upplýsingar
Séra Jón Hallsson lét reisa húsið og dætur hans [Þorbjörg og Stefanía] höfðu þar brauðgerð um langt árabil og Einar Stefánsson [1863-1923, verslunarmaður og kennari]  frá Reynistað um sinn, en hann var kvæntur Maríu systur þeirra. Síðar keypti húsið Guðrún Þorsteinsdóttir [1876-1957] og var hún einnig með brauðgerð þar um nokkurt skeið en seldi svo Snæbirni Sigurgeirssyni bakarameistara húsið og kom hann þar einnig upp matsölu- og gistihúsi sem jafnan var nefnt Gistihús SS. Snæbjörn starfaði við brauðgerð í húsinu til dauðadags. Laust eftir 1960 var húsið flutt niður á Sæmundargötu 13, þar sem það stendur enn.1Guðný Zoëga og Sólveig Olga Sigurðardóttir (2018). Verndarsvæði í byggð – Sauðárkrókur. Fornleifaskráning, bls. 20. Byggðasafn Skagfirðinga. Rannsóknaskýrslur 2018/200.

Sæmundargata 13, Sauðárkróki, í júlí 2023. Ljósm.: Ja.is.

Árið 1962 óskaði Sjálfsbjörg, félag lamaðra og fatlaðra eftir leyfi til að flytja húsið við Aðalgötu 25 á lóð við Sæmundargötu, en á þeim byggingarreit hafði verið úthlutað til stjórnar verkamannabústaða. „Í sambandi við beiðni þessa tekur nefndin fram, að staðsetning gamalla bygginga á skipulögðum svæðum í bænum, hefur verið andstætt stefnu byggingarnefndar, en vegna sérstöðu þessa félagsskapar, sem hér á hlut að máli, getur nefndin fallist á að heimila staðsetningu hússins á umbeðnum stað, að því tilskyldu að stjórn byggingarfélags verkamanna afsali sér tilkalli til téðrar lóðar skriflega.“2Unnar Ingvarsson, Héraðsskjalasafni Skagfirðinga (2009, 1. október). Tölvupóstur.

Húsið er nú skráð sem Sæmundargata 13 á Sauðárkróki.

 

Leitarorð: Sauðárkrókur – Skagafjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 20. apríl, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 20. apríl, 2024