Ránargata 8, Flateyri um 1945 áður en byggt var við húsið. Ljósm. í eigu Hlöðvers Kjartanssonar.
Ránargata 8, Flateyri um 1945 áður en byggt var við húsið. Ljósm. í eigu Hlöðvers Kjartanssonar.

Ránargata 8, Flateyri

Heiti: Stakkadalur
Byggingarár: 1934-1942
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Sölvi Andrésson og Verónika Kristín Brynjólfsdóttir
Aðrir eigendur:
1944: Kjartan Ólafsson Sigurðsson og Guðrún Pálmfríður Guðnadóttir
Upphafleg staðsetning: Stakkadalur, Aðalvík
Flutt: Um 1944 að Ránargötu 8, Flateyri
Hvernig flutt: Tekið niður spýtu fyrir spýtu, sett í fleka sem dreginn var af mótorbáti

Saga:

Sléttuhreppur var eitt af afskekktustu byggðarlögum landsins. Engu að síður var þar búið allt frá landnámi, allt að 500 manns þegar mest var. Þjóðfélagslegar breytingar sem kölluðu á mikla breytingu á lífsmáta, atvinnu og tómstundum fólks urðu til þess að íbúarnir hófu að flytjast burt á fimmta áratug síðustu aldar og árið 1952 tóku þeir síðustu sig upp. Flestir íbúanna bjuggu á Látrum norðan megin í Aðalvík og Sæbóli sunnan víkurinnar. Einnig var búið í Skáladal, Staðardal, Þverdal, Miðvík og Stakkadal, þar sem voru nokkrir bæir.1Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason (1971). Sléttuhreppur. Fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur, bls. ix. Átthagafélag Sléttuhrepps; Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson (1980). Landið þitt Íslands, 1. bindi, bls. 10. Reykjavík. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. Á árunum 1934 til 1943 bjuggu hjónin Sölvi Andrésson (1889-1956) og Verónika Kristín Brynjólfsdóttir (1886-1981) á einum bænum í Stakkadal, en þá voru a.m.k. þrír bæir í dalnum. Árið 1943 fluttust þau til Önundarfjarðar og sama ár hættu aðrir bændur í dalnum búskap og Stakkadalur fór í eyði.2Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason (1971), bls. 205 og 350

Ránargata 8, Flateyri, í júlí 2023. Ljósm.: Ja.is

Þegar þau Sölvi og Verónika fluttu seldu þau húsið sem þau höfðu byggt í Stakkadal.3Sigríður Sigurjónsdóttir (2020, 9. júlí). https://www.facebook.com/groups/slettuhreppur/. Kaupendur voru hjónin Kjartan Ólafsson Sigurðsson (1905-1956) og Guðrún Pálmfríður Guðnadóttir (1916-1997) sem bjuggu á Flateyri. Kjartan fór norður í Aðalvík við þriðja mann, sem tóku húsið niður spýtu fyrir spýtu og komu því fyrir á fleka sem dreginn var til Flateyrar. Þar var húsið reist að nýju við Ránargötu 8 á steyptum kjallara líkt og í Stakkadal. Fáum árum síðar var bíslagi bætt við suðurhlið hússins og um 1953 var húsið lengt til vesturs. Kjartan og Guðrún bjuggu bæði í húsinu til dauðadags. Hann lést árið 1956 frá sex ungum börnum, en Guðrún andaðist árið 1997.4Hlöðver Kjartansson (2020, 30. júní). Tölvupóstur; Guðrún Pálmfríður Guðnadóttir. Minning (1997, 5. september). Morgunblaðið, 84. árg., 200. tbl., bls. 41.

 

Leitarorð: Aðalvík – Hornstrandir – Önundarfjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 23. febrúar, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason (1971). Sléttuhreppur. Fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur, bls. ix. Átthagafélag Sléttuhrepps; Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson (1980). Landið þitt Íslands, 1. bindi, bls. 10. Reykjavík. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.
  • 2
    Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason (1971), bls. 205 og 350
  • 3
    Sigríður Sigurjónsdóttir (2020, 9. júlí). https://www.facebook.com/groups/slettuhreppur/.
  • 4
    Hlöðver Kjartansson (2020, 30. júní). Tölvupóstur; Guðrún Pálmfríður Guðnadóttir. Minning (1997, 5. september). Morgunblaðið, 84. árg., 200. tbl., bls. 41.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 23. febrúar, 2024