Presthúsabraut 30, Akranesi
Saga:
Í grein um húsanöfn á Akranesi um 1900 segir um Hábæ II: „Hábær II, byggður 1884 af Eyjólfi Sigurðssyni [1850-1922], síðar nefndur Bræðratunga og stóð við Akurgerði 11, fór í eyði 1945, 1947 er húsið flutt upp fyrir Garða, síðar að Presthúsabraut 30.“1Þorsteinn Jónsson (1978, 10. maí). Þættir úr sögu Akraness. 2. þáttur. Umbrot, 8. tbl., bls. 9.
Það hús sem sagt var byggt 1884 hér að ofan var væntanlega torfbær, sem Eyjólfur reif árið 1906 og byggði í staðinn snoturt timburhús með kjallara undir. Eftir það mun húsið hafa gengið undir nafninu Bræðratunga.
Eyjólfur stundaði sjómennsku framan af ævi, en hafði líka skepnur og nokkra kálgarðarækt. Árið 1907 eða 1908 fékk hann sér hestvagn og tók að sér verkstjórn í vegavinnu.
Kona Eyjólfs, María Auðunsdóttir (1852-1882), dó úr mislingum í júní 1882 ásamt tveimur börnum þeirra, öll í sömu vikunni. Árið 1889 gerðist Hallbera Magnúsdóttir ráðskona hjá Eyjólfi og eignuðust þau 11 börn.
Árið 1930 keypti Þorgeir Jónsson (1910-1973) frá Búrfelli Bræðratungu og bjó þar með móður sinni og systkinum. Árið 1945 byggði Þorgeir nýtt steinsteypt hús á lóðinni og fór þá gamla húsið í eyði. Tveimur árum síðar keypti Kjartan Kristjánsson (1895-1956) húsið og færði það „upp fyrir Garða“.2Ólafur B. Björnsson (1951, 1. október). Hversu Akranes byggðist. 4. kafli. – 1870-1900. Byggingar batna. Akranes, 10. árg., 10.-12. tbl., bls. 136.
Húsið var flutt þaðan að Presthúsabraut 30, þar sem það stendur enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær það var gert, en sennilegt er að það hafi verið um 1955 líkt og mörg önnur hús við Presthúsabraut.3Þorsteinn Jónsson (1978, 10. maí), bls. 9.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 17. janúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Þorsteinn Jónsson (1978, 10. maí). Þættir úr sögu Akraness. 2. þáttur. Umbrot, 8. tbl., bls. 9.
- 2Ólafur B. Björnsson (1951, 1. október). Hversu Akranes byggðist. 4. kafli. – 1870-1900. Byggingar batna. Akranes, 10. árg., 10.-12. tbl., bls. 136.
- 3Þorsteinn Jónsson (1978, 10. maí), bls. 9.
Deila færslu
Síðast uppfært 17. janúar, 2024