Litliteigur við Háteig, 1930-1949. Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 27815. Sótt 30. maí af http://ljosmyndasafn.akranes.is/.
Litliteigur við Háteig, 1930-1949. Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 27815. Sótt 30. maí af http://ljosmyndasafn.akranes.is/.

Presthúsabraut 28, Akranesi

Heiti: Litliteigur – Litli Teigur
Byggingarár: 1882
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Ólafur Bjarnason og Katrín Oddsdóttir
Aðrir eigendur:
1887: Katrín Oddsdóttir
Upphafleg staðsetning: Háteigur 5, Akranesi
Flutt: Um 1955 að Presthúsabraut 28, Akranesi
Presthúsabraut 28 3

Katrín Oddsdóttir, Litlateig. Heimild: Ólafur B. Björnsson (1949, 1. janúar). Hversu Akranes byggðist. 3. kafli. – 1840-1870. Byggðin eykst og færist ofar. Akranes, 8. árg., 1.-2. tbl., bls. 15.

Presthúsastígur 28 2

Presthúsabraut 28, 2012-2014. Ljósm.: Vitinn (félag áhugaljósmyndara á Akranesi). Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 46837. Sótt 30. maí af http://ljosmyndasafn.akranes.is/.

Saga:

Árið 1877 gengu Ólafur Bjarnason (1851-1887) og Katrín Oddsdóttir (1859-1937) í hjónaband og tóku þá við búi á Litlateig á Akranesi af föður Ólafs, Bjarna Brynjólfssyni (1816-1873) sem byggði Litlateig úr Lambhúsalandi árið 1868. Árið 1882 byggðu þau nýtt hús á Litlateig, en ekki naut Ólafur þess lengi, því hann lést af skyndilegum veikindum í mars 1887, frá 7 börnum. Katrín bjó áfram á Litlateig, fyrst ein en árið 1895 giftist hún Birni Hannessyni (1872-1958). Fljótlega var byggt ofan á húsið og einnig byggður tveggja hæða inngangsskúr við suðurgafl þess.1Ólafur B. Björnsson (1949, 1. janúar). Hversu Akranes byggðist. 3. kafli. – 1840-1870. Byggðin eykst og færist ofar. Akranes, 8. árg., 1.-2. tbl., bls. 17.

Um ýmis þægindi og þrifnað var Björn á undan öðrum hér [þ.e. á Akranesi]. Þannig mun hann fyrstu manna hafa steypt brunn, og leitt úr honum vatnsleiðslu í hús sitt og dælt því inn. … Einni steypti hann stóra safnþró, setti vask í kjallarann og lagði þaðan skolpleiðslu í þróna. Þótti þetta allt þá mikið hagræði.
Þá mun Björn og einna fyrstu hafa steypt tröppur við húsið og stétt í kringum það. Litliteigur og Hoffmannshús voru og þau fyrstu, er rafmagn var leitt í hér á Akranesi. Var það sérstök stöð fyrir þessi tvö hús.2Ólafur B. Björnsson (1949, 1. janúar), bls. 17

Oft var mannmargt á Litlateig, því við fjölskyldufólk bættist bæði vinnuhjú og leigjendur. Sem dæmi má nefna að þegar manntal var tekið árið 1910 voru 10 manns þar í heimili.3Manntal 1910. Sótt 30. maí 2023 af https://manntal.is/. Þess má geta að einn af þremur sonum þeirra Katrínar og Björns var Ólafur B. Björnsson (1895-1960), ritstjóri og fræðimaður, sem m.a. ritaði Sögu Akraness í tveimur bindum og margar blaðagreinar sem varpa ítarlegu ljósi á mannlíf og þróun á Akranesi og vitnað er til hér.

Árið 1955 var Litliteigur, sem skráður var númer 5 við Háteig,  fluttur að Presthúsabraut 28 og stendur þar enn (2023).4Teiknistofa arkitekta. Gylfi Guðjónsson og félagar ehf. (2022, mars). Aðalskipulag Akraness 2021-2033. Forsendur, bls. 30. Akranesi: Akraneskaupstaður. Sótt 30. maí 2023 af https://www.akranes.is/static/files/2022/Adalskipulag/asakra-21-forsendur-220307-a4.pdf.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 17. janúar, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 17. janúar, 2024