Oddagata 2 A, Seyðisfirði
Saga:
Húsið var byggt á Vestdalseyri af Norðmanninum P. Rekdahl um miðja 19. öld.1Þóra B. Guðmundsdóttir (1995). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 305. [Seyðisfirði:] Safnastofnun Austurlands og Seyðisfjarðarkaupstaður.
Vestdalseyri er við norðanverðan Seyðisfjörð, skammt utan við kaupstaðinn. Þarna hófst verslun rétt fyrir 1850 en á árunum 1874 til 1913 myndaðist töluverð byggð í kringum Gránufélagsverslunina. Þar var kirkja, barnaskóli, verslun og útgerð. Auk þess var þar rekin prentsmiðja um tíma og veitingahús og þar bjuggu handverksmenn af ýmsu tagi, trésmiðir, gullsmiðir, járnsmiðir, skósmiðir, úrsmiðir ásamt myndasmið. Vestdalseyri varð hluti af Seyðisfjarðarkaupstað árið 1895.2Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 16-17; Kristján Róbertsson (1995). Byggðarsaga Seyðisfjarðar. Fyrra bindi, bls. 112. Seyðisfirði: Seyðisfjarðarbær.
Mannfjölgunin á Vestdalseyri virðist hafa verið mest á árunum 1880-1900. Þá er íbúatalan á milli 2-3 hundruð manns, þó að sveiflur verði oft milli ára. Á fyrstu áratugum [20. aldar] fer íbúunum eitthvað fækkandi. Um 1920 eru þó þar enn um 20-30 hús sem búið er í.
Á hernámsárunum 1940-1945 hreiðraði setuliðið um sig á Vestdalseyri, og fór þá að verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum. Mun það hafa flýtt fyrir hnignun byggðarinnar sem var þó þegar orðin talsverð. Örlög þessa blómlega þorps virtust vera ráðin. Einstaka fjölskyldur þrauka þó áfram um sinn, en á 7. áratugnum hurfu þeir síðustu á braut. Síðan hefur Vestdalseyri verið eyðibyggð.3Kristján Róbertsson (1995), bls. 116.
Til er virðing hússins frá 1882, en þá var húsinu lýst þannig:
Hús þetta er byggt úr plönkum, fjögra þumlunga þykkum, yst þakið með torfi en undir því er næfur en innst súð, trjególf eru í öllu húsinu og lopt í helmingnum, niðri eru tvö herbergi til íbúðar og skilrúm á milli úr plönkum.4Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 305.
Þórarinn Guðmundsson kaupmaður flutti húsið inn í Seyðisfjörð, á svonefnda Fjarðaröldu, árið 1889 og stóð það á lóð nr. 2 A við Oddagötu. Húsið virðist hafa verið stækkað töluvert þegar það var flutt, því í húsavirðingu frá 1905 kemur fram að á neðri hæðinni eru 4 herbergi, eldhús og forstofa. Þá er einnig kominn stór kvistur á aðra hlið en tveir smákvistir á hina. Á loftinu eru 4 herbergi, skákompa og gangur. Í virðingunni er húsið nefnt Rekdahlshús.5Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 305.
Þess má geta að árið 1897 átti Þórarinn kaupmaður í vandræðum með leigjanda sinn í húsinu, Skafta Jósefsson ritstjóra, sem ekki stóð í skilum með leiguna og var Skafti því borinn út. Skafti undi ekki slíkri fógetaaðgerð, áfrýjaði til yfirdómara sem dæmi eigandann til að greiða Skafta skaðabætur og málskostnað.6Frá fjallatindum til fiskimiða (1897, 10. júlí). Ísland, bls. 111. Sótt 5. febrúar 2011 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=954885.
Húsið brann í stórbruna á Fjarðaröldu 28. mars 1919 ásamt tveimur öðrum húsum. Þá var húsið nefnt Læknishús, enda átti Kristján læknir Kristjánsson húsið. Engu var hægt að bjarga úr Læknishúsinu.7Stórbruni á Seyðisfirði (1919, 30. mars). Morgunblaðið, bls. 1. Sótt 15. febrúar 2011 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=98635&lang=is.
Um tíma leit út fyrir, að þarna brynni heilt bæjarhverfi. Aðstæður allar voru mjög erfiðar. Næstu húsin var reynt að verja með seglum og snjó, sem kastað var á þau. Einhver slökkvitæki voru til, en allt var það í ólagi. Sagt var, að frosið væri i slöngunum.8Þórarinn frá Steintúni (1965, 5. desember). Ferð í skóla. Sunnudagsblað Tímans, bls. 1111-1112. Sótt 5. febrúar 2011 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3554561&issId=255748&lang=is.
Leitarorð: Seyðisfjörður – Fjarðaralda
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 13. desember, 2023
Heimildaskrá
- 1Þóra B. Guðmundsdóttir (1995). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 305. [Seyðisfirði:] Safnastofnun Austurlands og Seyðisfjarðarkaupstaður.
- 2Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 16-17; Kristján Róbertsson (1995). Byggðarsaga Seyðisfjarðar. Fyrra bindi, bls. 112. Seyðisfirði: Seyðisfjarðarbær.
- 3Kristján Róbertsson (1995), bls. 116.
- 4Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 305.
- 5Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 305.
- 6Frá fjallatindum til fiskimiða (1897, 10. júlí). Ísland, bls. 111. Sótt 5. febrúar 2011 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=954885.
- 7Stórbruni á Seyðisfirði (1919, 30. mars). Morgunblaðið, bls. 1. Sótt 15. febrúar 2011 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=98635&lang=is.
- 8Þórarinn frá Steintúni (1965, 5. desember). Ferð í skóla. Sunnudagsblað Tímans, bls. 1111-1112. Sótt 5. febrúar 2011 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3554561&issId=255748&lang=is.
Deila færslu
Síðast uppfært 13. desember, 2023