Nýlenda við Nýlendugötu 29 í Reykjavík, árið 1971. Ljósm.: Sveinn Þormóðsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. SÞÓ ÁBS 0967.jpg. Sótt 22. júlí 2024 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.
Nýlenda við Nýlendugötu 29 í Reykjavík, árið 1971. Ljósm.: Sveinn Þormóðsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. SÞÓ ÁBS 0967.jpg. Sótt 22. júlí 2024 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.

Nýlenda, Árbæjarsafni, Reykjavík

Heiti: Nýlenda
Byggingarár: 1883
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: (Hans) Gísli Jónsson og Katrín Magnúsdóttir
Aðrir eigendur:
≈ 1938: Ásbjörn Jónsson og Kristrún V. Jónsdóttir
Upphafleg staðsetning: Nýlendugata 29 (31), Reykjavík
Flutt: 1973 á Árbæjarsafn, Reykjavík

Saga:

Í Árbæjarsafni eru tveir steinbæir, en þá er átt við sérreykvíska húsagerð, oftast með hlöðnum langveggjum og timburgöflum og voru algengastir á síðustu tveimur áratugum 19. aldar. Með þessari húsagerð má segja að lag torfbæjarins hafi verið lagað að nýjum og betri aðstæðum. Um 130 steinbæir voru byggðir í Reykjavík á tímabilinu 1860 til 1910. Oftast voru það tómthúsmenn, sem byggðu þessa steinbæi, en svo nefndist sú stétt manna sem einkum lifði af sjósókn og annarri verkamannavinnu á 19. öld.1Minjastofnun Íslands. Friðun steinbæja og steinhlaðinna húsa. Sótt 19. júlí 2024 af https://www.minjastofnun.is/is/frettir/fridun-steinbaeja-og-steinhladinna-husa-1. Þessir steinbæir eru Hábær og Nýlenda.

Nýlenda stóð alveg upp við vesturgafl steinsteypt hússins sem nú (2024) er númer 29 við Nýlendugötu í Reykjavík. Þar byggðu þau (Hans) Gísli Jónsson (1839-1910) tómthúsmaður og fátækrafulltrúi og Katrín Magnúsdóttir (1821-1919) kona hans sér torfbæ árið 1871 sem kallaður var Nýlenda og fékk gatan nafn sitt af bænum. Þar bjuggu þau með Gyðríði (eða Guðríði) Kristjönu (1872-1943) dóttur sinni og vinnukonu. Árið 1883 lítur út fyrir að Gísli hafi breytt torfbæ sínum í steinbæ, því það ár er virtur bær „með steinveggjum og timburgöflum“ þar sem er eitt herbergi.

Árið 1936 var fullbyggt þrílyft hús úr steinsteypu með íbúð á hverri hæð fast við austurgafl gamla bæjarins. „Þangað munu þær Guðríður dóttir þeirra hjóna og Oddbjörg vinnukona þeirra hafa flutt og eftir það var gamli bærinn leigður út. Þar eru skráðir aðrir íbúar í manntali 1930. Árið 1972 gáfu hjónin Ásbjörn Jónsson [1906-1986] og Kristrún V. Jónsdóttir [1911-1987] [Árbæjarsafni] húsið og var það flutt í Árbæjarsafn í febrúar 1973 og endurbyggt þar.“2Sarpur: Menningarsögulegt gagnasafn. Texti með ljósmynd nr. 181283-43. Sótt 22. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=566968. Þau Ásbjörn og Kristrún gengu í hjónaband árið 1938. Um svipað leyti festu þau kaup á húseigninni Nýlendugötu 29 og bjuggu þar æ síðan.3Steingrímur Baldursson (1986, 25. júlí). Minning: Ásbjörn Jónsson. Tíminn, 70. árg., 166. tbl., bls. 15.

Nýlenda á Árbæjarsafni. Heimild: Árbæjarsafn. Nýlenda. Sótt 22. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/4ab02701-dcae-4830-b1da-791c3d78784a.

„Þorsteinn Gunnarsson [arkitekt] veitti ráðgjöf um staðarval og endurgervingu hússins í samvinnu við Nönnu Hermansson borgarminjavörð. Verklegar framkvæmdir önnuðust þeir Ólafur B. Jónsson og Sigurður Guðmundsson smiðir.“4Hörður Ágústsson (2000). Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, bls. 187. [Reykjavík:] Húsafriðunarnefnd ríkisins.

Í Nýlendu á Árbæjarsafni er nú sýning sem ætlað er „… að sýna tilgátuheimili tómthúsmannafjölskyldu um það leyti sem Danakonungur, Friðrik VIII, heimsótti Ísland árið 1907.“5Árbæjarsafn. Nýlenda. Sótt 22. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/4ab02701-dcae-4830-b1da-791c3d78784a.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 22. júlí, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 22. júlí, 2024