Norðurkot við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd
Norðurkot skömmu fyrir flutninginn. Heimild: Ferlir.is. Norðurkot - gamla skólahúsið. Sótt 10. nóvember 2024 af https://ferlir.is/nordurkot-gamla-skolahusid/.
Norðurkot eftir viðgerð á Kálfatjörn í mars 2016. Heimild: Sjónvarp Víkurfrétta. Norðurkotsskóli. Sótt 10. nóvember 2024 af https://www.vf.is/sjonvarp/sjonvarp-vf-nordurkot-er-merkilegt-hus-vid-kalfatjorn.
Saga:
Árið 1872 var byggður skóli í Suðurkotslandi í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd. Fljótlega bar á óánægju með þá staðsetningu því langt þótti fyrir „Innstrendinga“ að sækja þangað skóla. Var þá fengin stofu á Þórustöðum til kennslu, þar sem kennt var frá 1893 til aldamóta. Veturinn 1901 til 1902 var kennt í Landakoti. Árið 1903 lét Vatnsleysustrandarhreppur og skólanefnd hreppsins byggja skólahús fyrir „Innstrendinga“ í Norðurkoti á Vatnsleysuströnd, sem var grasbýli frá Þórustöðum. Skólahúsið var úr timbri, ein hæð með portbyggðu risi. Kennslunni var ætluð neðri hæðin, en risið var hugsað til leigu. Smiður að húsinu var Ólafur Erlendsson, fæddur í Norðurkoti, og þar byrjuðu kennslu Sigurgeir Sigurðsson, séra Árni Þorsteinsson (1851-1919) og Guðmundur Guðmundsson í Landakoti.
Í íbúðina fluttu hjónin Björn Jónsson (1861-1932) og kona hans, Halla Matthíasdóttir (1864-1952). Norðurkot var grasbýli, eins og áður segir, en auk þess gerði Björn út bát.1Guðmundur Björgvin Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 313 og 373-376. Útg.: Höfundur.
Þegar skólahald hófst í Vatnsleysu haustið 1910 lagðist kennsla í Norðurkoti niður. Í janúar árið eftir keypti Guðmundur í Landakoti (1841-1920) Norðurkot og leigði þá Birni og Höllu allt húsið. Um 1927 fluttu þau til Hafnarfjarðar. Þá komu þau Kristján Eiríksson (1873-1965) og Guðný Eyjólfsdóttir (1876-1939) kona hans í Norðurkot og bjuggu þar til ársins 1938, þegar þau fluttu til Reykjavíkur.
Árið 1934 keypti Erlendur Magnússon (1890-1975), bóndi á Kálfatjörn húsið. Hann dvaldi þar með fjölskyldu sinni á meðan hann lét byggja nýtt íbúðarhús á Kálfatjörn.
Á stríðsárunum bjuggu tvær konur með börn sín í Norðurkoti meðan mennirnir voru í vinnu annars staðar og voru þær síðustu íbúar hússins. Eftir það var Norðurkot notað sem heyhlaða og geymsla.2Guðmundur Björgvin Jónsson (1987), bls. 313 og 329; Sögusafn í gömlu húsi (2016, 13. maí). Fréttablaðið, 16. árg., 112. tbl., bls. 34; Birgir Thorlacius (1965, 13. mars). Minning: Kristján Eiríksson. Tíminn, 49. árg., 60. tbl., bls. 14.
Árið 2004 gáfu afkomendur Erlendar á Kálfatjörn Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps Norðurkotshúsið og stóð félagið fyrir flutningi þess að Kálfatjörn árið eftir. Þar var húsið sett á nýjan grunn.3Gamla skólahúsið í Norðurkoti flutt á minjasavæði (2005, 24. mars). Morgunblaðið, 93. árg., 81. tbl., bls., 20. Þar hefur húsið verið gert upp í því sem næst upprunalegri mynd og hýsir nú sýningu sem gerir skólahaldi á Vatnsleysuströnd skil.
Hér má finna myndasyrpu af Norðurkoti áður en það var flutt: https://icelandphotogallery.com/project/gamla-skolahusid-i-nordurkoti-fyrir-flutning/
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 10. nóvember, 2024
Heimildaskrá
- 1Guðmundur Björgvin Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 313 og 373-376. Útg.: Höfundur.
- 2Guðmundur Björgvin Jónsson (1987), bls. 313 og 329; Sögusafn í gömlu húsi (2016, 13. maí). Fréttablaðið, 16. árg., 112. tbl., bls. 34; Birgir Thorlacius (1965, 13. mars). Minning: Kristján Eiríksson. Tíminn, 49. árg., 60. tbl., bls. 14.
- 3Gamla skólahúsið í Norðurkoti flutt á minjasavæði (2005, 24. mars). Morgunblaðið, 93. árg., 81. tbl., bls., 20.
Deila færslu
Síðast uppfært 10. nóvember, 2024