Neistastaðir í Flóa
Saga:
Árið 1896 byggði Eyjólfur Þorsteinsson „hómópati“ hús á lóð þeirri sem húsið númer 5 við Fálkagötu stendur nú, en húsið var skráð sem Fálkagata 7, en gekk undir nafninu Kvöldroðinn.
Þetta var einlyft hús, byggt úr bindingi klæddum borðum og með járnþaki. Samkvæmt fyrstu virðingu voru í því tvö herbergi, að mestu leyti fullgjörð, og ein eldavél. Húsið var virt að nýju í júlí 1898 og hafði þá verið endurbætt. Suðurgafl hússins hafði þá verið járnklæddur og í það var nú komið eldhús, auk herbergjanna tveggja. Þá er einnig tekið fram að kjallari sé undir öllu húsinu. Árið 1924 er í fyrsta skipti virtur inngönguskúr úr bindingi við suðurhlið hússins. Þá er einnig virtur þurrkhjallur á lóðinni, byggður úr bindingi og klæddur utan borðum og rimlum. Húsið, ásamt þurrkhjallinum, var síðast virt árið 1943 og var þá óbreytt. Í húsinu bjó um skeið Þorsteinn Gamalíelsson [1852-1918] sjómaður, sem gerði út árabát frá Grímsstaðavör, en hann drukknaði við fjórða mann í Skerjafirði árið 1918. Sonur hans Jón, sem einnig var sjómaður, var jafnan nefndur Jón í Kvöldroðanum.1Drífa Kristín Þrastardóttir, Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2008). Húsakönnun. Grímsstaðaholtið og nágrenni. Skýrsla nr. 140, bls. 128. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur.
Landsbankinn keypti húsið af Eyjólfi á uppboði 9. apríl 1900. Þorsteinn Gamalíelsson keypti síðan húsið af Landsbankanum 17. nóvember sama ár.2Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Einstaklingar. Þorsteinn Gamalíelsson. Sótt 2. ágúst 2024 af https://www.borgarskjalasafn.is/is/skjalaskrar/skjalaskrar/index/einstaklingar/thorsteinn-gamalielsson.
Árið 1966 var samþykkt að nýtt íbúðarhús risi á lóðinni og þurfti þá Kvöldroðinn að víkja.3Drífa Kristín Þrastardóttir, Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2008), bls. 128. Gísli Halldórsson leikari (1927-1998) og kona hans Theódóra Sverrisdóttir Thoroddsen (1929-2015) keyptu húsið, eða „hirtu það“ eins og Theódóra sagði og fluttu það austur að Neistastöðum í Flóa, þar sem þau höfðu fengið leyfi til að setja það niður. Stefanía Sigurðardóttir ólst upp á Neistastöðum. Hún minnist þess að þegar hún var 6 eða 7 ára gömul hafi húsið staðið á tunnum á hlaðinu á Neistastöðum. Það hafði verið komið með það á stórum „trailer“ um nóttina og híft af með krananum á bílnum. Þarna stóð það á meðan steyptur var grunnur undir húsið, um 300 m frá bænum á Neistastöðum. Húsið var mjög lítið, einungis eldhús, stofa og eitt svefnherbergi. Þau Halldór og Theódóra notuðu húsið sem sumarbústað allt fram undir 1980, en upp úr því fór húsið að grotna niður og var síðan rifið.4Stefanía Sigurðardóttir (2020, 25. maí). Tölvupóstur; Kann ekki að láta mér leiðast (2007, 6. maí). Morgunblaðið, 95. árg., 122. tbl., bls. 26-28.
Leitarorð: Flói
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 18. ágúst, 2024
Heimildaskrá
- 1Drífa Kristín Þrastardóttir, Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2008). Húsakönnun. Grímsstaðaholtið og nágrenni. Skýrsla nr. 140, bls. 128. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur.
- 2Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Einstaklingar. Þorsteinn Gamalíelsson. Sótt 2. ágúst 2024 af https://www.borgarskjalasafn.is/is/skjalaskrar/skjalaskrar/index/einstaklingar/thorsteinn-gamalielsson.
- 3Drífa Kristín Þrastardóttir, Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2008), bls. 128.
- 4Stefanía Sigurðardóttir (2020, 25. maí). Tölvupóstur; Kann ekki að láta mér leiðast (2007, 6. maí). Morgunblaðið, 95. árg., 122. tbl., bls. 26-28.
Deila færslu
Síðast uppfært 18. ágúst, 2024