Neðri-Sýrupartur, Byggðasafninu í Görðum, Akranesi
Neðri-Sýrupartur fluttur af Breiðinn inn að Görðum í október 1990. Ljósm.: Árni S. Árnason. Ljósmyndasafn Akraness. Mynd nr. 34844. Sótt 6. júní 2023 af http://ljosmyndasafn.akranes.is/myndir/.
Neðri-Sýrupartur í Byggðasafninu í Görðum. Ljósm.: Gerður J. Jóhannsdóttir. Ásmundur Ólafsson (2018, 31. október). Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar á Sýruparti. Skessuhorn, 21. árg., 44. tbl., bls. 27.
Saga:
Hjónin Helgi Guðmundsson (1839-1921) og Sigríður Jónsdóttir (1841-1908) settust að á Sýruparti á Akranesi árið 1869, en þá var fjórbýlt á jörðinni. Hann byrjaði á að byggja baðstofu en árið 1875 byggði hann timburhús það sem hér er til umræðu.1Ólafur B. Björnsson (1957). Saga Akraness. I. bindi, bls. 101-102. Akranesi: Prentverk Akraness hf. „Var það þriðja timburhús á Skaga. Þóttu gluggarnir þá svo myndarlegir, að sumir kölluðu það glerhöllina, svo mjög þóttu gluggarnir stinga í stúf við rúðurnar í hinum litlu torfbæjum.“2Ólafur B. Björnsson (1957), bls. 102. Þau fluttu burtu árið 1886 og leigði þá athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) húsið í um eins árs skeið. Hann bjó reyndar sjálfur í Borgarnesi á þessu tímabili en kona hans og tengdamóðir bjuggu á Sýruparti.
Árið 1887 keypti Bjarni Jónsson (1859-1936) jörðina og bjó í húsinu fyrst með móður sinni, en kvæntist síðan Sigríði Hjálmarsdóttur (1861-1918) Bjarni var greindur maður, hinn besti drengur og vel hagmæltur og það var kona hans einnig.
Árið 1893 keyptu bræðurnir Sigurður (1858-1926) og Bjarni (1856-1947) Jóhannessynir jörðina. Eftir það gekk austurhluti hússins, sem var í eigu Sigurðar, kaupum og sölum og ýmist bjuggu eigendurnir þar eða hlutinn var leigður út. Bjarni bjó í sínum hluta til dauðadags, en leigði hluta hússins út. Því var oft mannmargt í húsinu og oft bjuggu fjórar fjölskyldur í húsinu, jafnvel tuttugu manns þegar mest var. Hafa ber í huga að húsið var einungis um 50 m² að grunnfleti.
Þegar Bjarni lést árið 1947 eignaðist Guðmundur (1909-2006) sonur hans hálft húsið og árið 1954 eignaðist hann allt húsið. Árið 1989 gaf hann Byggðasafninu í Görðum húsið, sem er elsta varðveitta íbúðarhúsið á Akranesi. Guðmundur bjó lengst af á Sýruparti og starfaði sem netagerðar- og fiskmatsmaður, auk þess sem hann gerði út bát í félagi við bróður sinn. Hann var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Kára árið 1922 og Taflfélags Akraness 1933. Árið 2000 var Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi stofnaður með veglegu gjafafé frá Guðmundi. Þannig vildi hann styrkja efnilega útskriftarnemendur í eðlis- og efnafræði við Háskóla Íslands, því hann hafði séð umfjöllun um hve fáir útskrifuðust úr þessum greinum.
Haustið 1990 var húsið flutt frá Breiðinni, þar sem það stóð við suðurenda húss sem nú er númer 8a við Breiðargötu, á safnasvæðið þar sem það hefur verið fært í upprunalegt horf.3Ólafur B. Björnsson (1957), bls. 101-115; Ásmundur Ólafsson (2022). Á slóðum Akurnesinga. Þættir um sögu og mannlíf, bls. 55-56. Akranesi. mth.; Gagnasafn Minjastofnunar Íslands; Ásmundur Ólafsson (2018, 31. október). Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar á Sýruparti. Skessuhorn, 21. árg., 44. tbl., bls. 27.
Talið er að nafnið Sýrupartur „[sé] annaðhvort tilkomið af því að þegar brimaði og sjávarþang gekk á land, sem var oft, þá sýrði það jarðveginn, eða að þetta býli hafi hýst sýrukeröld þar sem sjómenn af svæðingu fengu á kúta sína sýru, áður en þeir fóru á sjóinn, en um langt árabil var sýra eini drykkur sjómanna í fiskiróðrum, ekki vatn og því síður kaffi.“4Ásmundur Ólafsson (2022), bls. 56.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 16. janúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Ólafur B. Björnsson (1957). Saga Akraness. I. bindi, bls. 101-102. Akranesi: Prentverk Akraness hf.
- 2Ólafur B. Björnsson (1957), bls. 102.
- 3Ólafur B. Björnsson (1957), bls. 101-115; Ásmundur Ólafsson (2022). Á slóðum Akurnesinga. Þættir um sögu og mannlíf, bls. 55-56. Akranesi. mth.; Gagnasafn Minjastofnunar Íslands; Ásmundur Ólafsson (2018, 31. október). Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar á Sýruparti. Skessuhorn, 21. árg., 44. tbl., bls. 27.
- 4Ásmundur Ólafsson (2022), bls. 56.
Deila færslu
Síðast uppfært 16. janúar, 2024