Merkisteinn, Heimagata 9, Vestmannaeyjum
Saga:
Árið 1904 fluttu hjónin Guðrún Jónsdóttir (1868-1954) og Sigurður Ísleifsson (1863-1958) frá Káragerði í Landeyjum, sem var æskuheimili Guðrúnar, til Vestmannaeyja ásamt tveimur börnum. Þau hófu fljótlega að byggja sér íbúðarhús á lóð sem svili Sigurðar, hreppstjórinn Sigurður Sigurfinnsson (sjá umfjöllun um Litlu-Heiði), úthlutaði þeim í suðurjaðri Stakkagerðistúnsins við Hvítinga.1Þorsteinn Þ. Víglundsson (1969). Hjónin í Merkisteini. Blik. Ársrit Vestmannaeyja 1969, 27. árg., 1. tbl., bls. 159-169; Þorsteinn Þ. Víglundsson (1962). Dvergasteinn. Blik. Ársrit Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum, 23. árg., bls. 113-116; Guðjón Á. Eyjólfsson (1973). Vestmannaeyjar. Byggð og eldgos, bls. 171. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.2Hvítingar voru tveir stórir, sérkennilegir steinar sunnan við túngarða Stakkagerðis. Þeir voru gráleitir með áberandi hvítum blettum, sem þeir fengu nafn sitt af (Heimaslóð (2005, 15. nóvember). Hvítingar. Sótt 5. júlí 2024 af https://heimaslod.is/index.php/Hv%C3%ADtingar).
Naumast höfðu þau hjón lokið við að byggja sér íbúðarhúsið, sem þau nefndu Káragerði, er hreppurinn lét hefja framkvæmdir við hið nýja skólahús. Það var vorið eða sumarið 1904. Þar vann Sigurður Ísleifsson síðan að smíðum næsta ár með Ágústi Árnasyni og fleiri kunnum hagleiksmönnum í byggðarlaginu.
Jafnframt hófst rimman.
Eyjabændur, sem samkvæmt byggingarbréfi sínu höfðu óskorað vald eða rétt á öllu landi á Heimaey og höfðu haft það um aldir, nema á athafna- og verzlunarsvæðinu niður við voginn eða höfnina, gátu ekki unað því, að hreppstjórinn og oddvitinn í einni og sömu persónunni hrifsaði þennan rétt af þeim, úthlutaði byggingarlóðum á landi þeirra án þeirra samþykkis og hagsmuna. Deila þessi leiddi til þess eftir hörð átök, að Sigurður Ísleifsson varð að rífa hið nýbyggða íbúðarhús sitt, Káragerði.3Þorsteinn Þ. Víglundsson (1969), bls. 167.
Húsið reistu þau hjón að nýju nær höfninni og nefndu nú Merkistein. Húsið fékk númerið 9 við Heimagötu. Í Eyjum stundaði Sigurður sjósókn og smíði. Hann smíðaði bæði báta og húsa af mikilli snilld auk ýmissa smærri gripa, m.a. spunarokka. Hafði hann smíðaverkstæði sitt í kjallara hússins. Þau hjón bjuggu alla sína tíð í Merkisteini.4Þorsteinn Þ. Víglundsson (1969).
Merkisteinn hlaut þau örlög að lenda undir hrauni í eldgosinu í Vestmannaeyjum árið 1973.
Þá bjuggu hjónin Ingi Sigurðsson (1900-1998) sem var sonur þeirra Guðrúnar og Sigurðar, og Agnes Sigurðsson (fædd Berger, 1901-1993) í Merkisteini.5Heimaslóð (2012, 7. ágúst). Merkisteinn. Sótt 5. júlí 2024 af https://heimaslod.is/index.php/Merkisteinn.
Ingi reri á trillubátum í nokkur ár, m.a. með Binna í Gröf. Lærði trésmíði og húsasmíði og varð húsasmíðameistari. Vann í mörg ár í Hraðfrystistöðinni við viðgerðir. Samtímis byggði hann nokkur hús. Fór m.a. til Færeyja ásamt öðrum Vestmannaeyingi til að byggja kirkju og safnaðarheimili. Þegar O.J. Olsen stofnaði Aðventistasöfnuðinn í Vestmannaeyjum árið 1922 var hann einn af stofnendum safnaðarins ásamt systrum sínum, Kristínu og Áslaugu Mörthu, og 29 öðrum íbúum kaupstaðarins. Var hann í stjórn safnaðarins í mörg ár og sinnti formannsstörfum í nokkur ár, en Agnes kona hans sinnti gjaldkerastörfum um 20 ára skeið eftir að hún fluttist til Eyja. Ingi var sá síðasti af stofnendum safnaðarins sem kvaddi jarðlífið.6Heimaslóð (2018, 8. mars). Ingi Sigurðsson (Merkisteini). Sótt 5. júlí 2024 af https://heimaslod.is/index.php/Ingi_Sigur%C3%B0sson_(Merkisteini).
Agnes lærði hjúkrun í Noregi og síðar nudd og sjúkraþjálfun við Skodsborg Badesanatorium í Danmörku þar sem hún starfaði einnig um skeið. Hún kom til Íslands til að vinna á nuddstofu í Reykjavík. Eftir að hún giftist Inga árið 1932 vann hún við ýmis hjúkrunarstörf í Eyjum, var hjúkrunarkona í Barnaskólanum, á heilsuverndarstöðinni og stundaði heimahjúkrun. Einnig sat hún í stjórn Rauða kross Vestmannaeyja og Krabbameinsfélags Vestmannaeyja.7Víglundur Þ. Þorsteinsson (2024, 5. mars). Agnes Sigurðsson (Merkisteini). Sótt 5. júlí 2024 af https://heimaslod.is/index.php/Agnes_Sigur%C3%B0sson_(Merkisteini).
Leitarorð: Vestmannaeyjar
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 6. júlí, 2024
Heimildaskrá
- 1Þorsteinn Þ. Víglundsson (1969). Hjónin í Merkisteini. Blik. Ársrit Vestmannaeyja 1969, 27. árg., 1. tbl., bls. 159-169; Þorsteinn Þ. Víglundsson (1962). Dvergasteinn. Blik. Ársrit Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum, 23. árg., bls. 113-116; Guðjón Á. Eyjólfsson (1973). Vestmannaeyjar. Byggð og eldgos, bls. 171. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
- 2Hvítingar voru tveir stórir, sérkennilegir steinar sunnan við túngarða Stakkagerðis. Þeir voru gráleitir með áberandi hvítum blettum, sem þeir fengu nafn sitt af (Heimaslóð (2005, 15. nóvember). Hvítingar. Sótt 5. júlí 2024 af https://heimaslod.is/index.php/Hv%C3%ADtingar).
- 3Þorsteinn Þ. Víglundsson (1969), bls. 167.
- 4Þorsteinn Þ. Víglundsson (1969).
- 5Heimaslóð (2012, 7. ágúst). Merkisteinn. Sótt 5. júlí 2024 af https://heimaslod.is/index.php/Merkisteinn.
- 6Heimaslóð (2018, 8. mars). Ingi Sigurðsson (Merkisteini). Sótt 5. júlí 2024 af https://heimaslod.is/index.php/Ingi_Sigur%C3%B0sson_(Merkisteini).
- 7Víglundur Þ. Þorsteinsson (2024, 5. mars). Agnes Sigurðsson (Merkisteini). Sótt 5. júlí 2024 af https://heimaslod.is/index.php/Agnes_Sigur%C3%B0sson_(Merkisteini).
Deila færslu
Síðast uppfært 6. júlí, 2024