Suðurgata 40, Hafnarfirði, um 1980. Ljósmynd í eigu Byggðasafn Hafnarfjarðar.

Lyngbarð 2, Hafnarfirði

Heiti: Marteinshús - Þorlákstún
Byggingarár: 1921
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Marteinn Þorbjörnsson og Hallbjörg Þorvarðardóttir
Aðrir eigendur:
> 1962: St. Jósepsspítali
2009: Syðra Langholt ehf.
2020: Hafnarfjarðarkaupstaður
Upphafleg staðsetning: Suðurgata 40 (áður 14a), Hafnarfirði
Flutt: 2011 að Lyngbarði 2, Þorlákstúni, Hafnarfirði
Hvernig flutt: Flutt í heilu lagi
Lyngbarð 5

Suðurgata 40 í Hafnarfirði skömmu áður en húsið var flutt. Ljósmynd í eigu Byggðasafn Hafnarfjarðar.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Suðurgata 40 flutt að Lyngbarði 2, Hafnarfirði. Ljósmynd í eigu Byggðasafn Hafnarfjarðar.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Marteinshús komið á nýjan grunn við Lyngbarð 2 í Hafnarfirði. Ljósmynd í eigu Byggðasafn Hafnarfjarðar.

Lyngbarð 2 6

Saga:

Árið 1921 byggði Ásgeir G. Stefánsson (1890-1965) byggingameistari hús við Suðurgötu í Hafnarfirði. Fyrst var húsið með númerið 14a, en fékk síðar númerið 40. Ekki er víst að Ásgeir hafi búið í húsinu eða átt það, en hann var þekktur og afkastamikill byggingameistari og athafnamaður í Hafnarfirði, því þegar húsið var brunavirt í nóvember 1921 átti Marteinn Þorbjörnsson (1886-1962) húsið ásamt konu sinni Hallbjörgu Þorvarðardóttur (1888-1962).

Í brunavirðingunni er húsið sagt var einlyft með risi, skipt í eldhús og 3 stofur. Allt var klætt innan með panel og stofurnar með pappa og málaðar. Undir öllu húsinu var kjallari, sem notaður var til geymslu. Inngönguskúr var við norðurgafl hússins, sem einnig var klæddur að innan með panel.1Rósa Karen Borgþórsdóttir (2024, 12. júní). Tölvupóstur; Minningarorð: Ásgeir G. Stefánsson, framkvæmdastjóri ( 1965, 29. júní). Alþýðublaðið, 45. árg., 142. tbl., bls. 8.

Þau Marteinn og Hallbjörg áttu heima í húsinu til dauðadags, en þau létust bæði árið 1962. Í húsinu ólu þau upp fimm börn. Oft var gestkvæmt hjá þeim hjónum og sérstaklega voru jólaboðin fjölmenn, þar sem oft komu 40 manns saman í þessu litla húsi.2Sólveig Eyjólfsdóttir (1980, 1. desember). Á Suðurgötu 40 – Minningabrot. Fjarðarfréttir, 5. árg., 5. tbl., bls. 23.

Árið 1992 var húsið við Suðurgötu 40 auglýst til sölu til brottflutnings, og hefur húsið þá líklega verið í eigu St. Jósepsspítala, sem hafði hug á að gera bílastæði á lóð hússins.3Hús til brottflutnings: Suðurgata 40, Hafnarfirði (1992, 3. júní). Morgunblaðið, 79. árg., 124. tbl., bls. 30. Nokkrar deilur urðu um hugmyndina um að flytja húsið og raska þannig götumynd Suðurgötu, m.a. lagðist Byggðasafn Hafnarfjarðar gegn þeim áformum með svohljóðandi röksemdum: ,,Suðurgata 40 er hinsvegar góður fulltrúi þeirra bárujárnsklæddu timburhúsa sem einkenndu fyrra skeið í byggingarlist hafnfirska forsmiðsins Ásgeirs G. Stefánssonar en húsið hefur um nokkurt skeið liðið fyrir mikinn skort á eðlilegu viðhaldi.‘‘ Deilur þessar verða ekki raktar hér, en það var ekki fyrr en árið 2011 að ráðist var í að steypa kjallara undir húsið við Lyngbarð 2 í Hafnarfirði, á svonefndu Þorlákstúni, og flytja húsið þangað, þar sem fyrirhugað var að húsið yrði starfsmannaaðstaða við fyrirhugaða garð- og listamiðstöð, sem fyrirtækið Syðra Langholt ehf. hugðist gera þar. Gerðar voru miklar endurbætur á húsinu, en af öðrum framkvæmdum varð þó ekki og árið 2020 eignaðist Hafnarfjarðarbær húsið aftur og ekki vitað hver framtíð hússins verður.4Rósa Karen Borgþórsdóttir (2024, 12. júní). Tölvupóstur; Garð- og listmiðstöð á Þorlákstúni (2009, 22. apríl). Fjarðarpósturinn, 27. árg., 16. tbl., bls. 6; Héraðsdómur dæmdi að leigusamningur um Þorlákstún væri niður fallinn (2020, 7. júlí). Fjarðarfréttir. Sótt 16. júní 2024 af https://www.fjardarfrettir.is/frettir/heradsdomur-daemdi-ad-leigusamningur-um-thorlakstun-vaeri-nidur-fallinn.

 

Leitarorð: Hafnarfjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 16. júní, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 16. júní, 2024