Lindargata 3, Tindastóll, Sauðárkróki
Hótel Tindastóll 1944. Hamrað járn (steinblikk) er á húsinu og nýtt hús hefur verið byggt við suðurgaflinn.
Sarpur.is. Mynd nr. LPr/1996-239. Sótt 27. október 2023 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=653092.
Hótel Tindastóll 2014. Ljósm.: Eggert. Jóhannesson.
Björn Björnsson (2014, 9. nóvember). Hótel Tindastóll á sér litríka sögu. Sótt 27. október 2023 af https://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/09/hotel_tindastoll_a_ser_litrika_sogu/.
Saga:
Uppruni hússins sem nú stendur við Lindargötu 13 á Sauðárkróki, og nefnt er Hótel Tindastóll, er óljós. Sagt hefur verið að danski kaupmaðurinn C. M. Nisson hafi látið reisa það um 1820 þegar hann hóf kaupmennsku í Hofsósi. Honum lynti ekki við kaupmenn sem þar voru fyrir og fékk því leyfi til að stunda verslun í Grafarósi og er talið að hann hafi flutt hús með sér þangað. Hvort það hús, eða nýtt hús sem hann byggði í Grafarósi um 1835, var flutt til Sauðárkróks 1884 er ekki vitað. Hins vegar þykir ljóst að Hótel Tindastóll hafi ekki verið byggður eingöngu úr nýjum viðum þegar það var reist á Króknum, en ekki er loku fyrir það skotið að viðirnir hafi verið fluttir notaðir til landsins, með viðkomu annað hvort í Hofsósi eða Grafarósi. Í þjónustu Nissons var Guðbrandur Stefánsson (1786-1857), völundur hinn mesti bæði á tré og járn. Hann stóð fyrir húsbyggingum Nissons bæði í Hofsósi og Grafarósi og var jafnframt verslunarstjóri hans. Ef uppruni Hótels Tindastóls er verslunarhús Nissons er Guðbrandur Stefánsson upphaflegur smiður hússins.
Fullvíst er að Halldór Stefánsson lét flytja húsið til Sauðárkróks árið 1884 í þeim tilgangi að reka þar gisti- og veitingahús. Um þetta leyti hafði verslunum á Króknum fjölgað og segja má að þar hafi verið nokkurs konar biðstöð Vesturfara og því var mikill skortur á gistirými í verslunarstaðnum. Húsið var flutt „sjóveg í flekum til Sauðárkróks“ þar sem Ólafur Briem snikkari reisti það aftur.1Kristmundur Bjarnason (1969). Saga Sauðárkróks. Fyrri hluti fram til ársins 1907, bls. 182. [Sauðárkróki:] Sauðárkrókskaupstaður; Sendibréf frá 19. öld (1973, 1. janúar). Skagfirðingabók, 6. árg., 1. tbl., bls. 147-155;Unnar Ingvarsson (2010, 4. ágúst). Tölvupóstur.
Ólafur nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn og þótti góður smiður
… duglegur, þegar hann var kominn að verki, en sló allri vinnu frá sér langtímum saman, stundaði þá brennivínsdrykkju og vísnagerð og lét hvort tveggja vel. Einkunn varð Ólafi lítið úr verki á vetrum, því að klápasmíði stundaði hann lítt.2Kristmundur Bjarnason (1969), bls. 444. 3Skv. Íslenskri orðabók er klápur (mjólkur)ílát eða klunnalega gerður hlutur og klápasmiður ílátasmiður eða vandræðagepill (1992:501). Íslensk orðabók (1992), bls. 501. Árni Böðvarsson (ritstjóri). 2. útg. Kom fyrst út 1983. Reykjavík: Mál og menning.
Húsinu er lýst þannig í Virðingabók fyrir Sauðárkrók frá 1916-1917:
Húsið er ein hæð með porti og risi og kvistur á því.
Niðri eru fimm íbúðarherbergi og eru þau öll veggfóðruð og máluð.
1 herbergið sem Sparisjóður Sauðárkróks hefur til afnota og er það veggfóðrað og málað. Í herbergi þessu eru 2 ofnar og tvær eldavélar.
1 búr, 1 eldhús, 1 forstofa máluð og steinbyggður forstofuskúr að vestan.
Á lofti eru 8 íbúðarherbergi, þaraf eitt veggfóðrað og málað.
Fimm eldstæði eru á loftinu, 2 geymsluherbergi og gangur.
Kjallari undir húsinu, hlaðinn og steinlímdur. Honum er skipt í fjögur geymsluherbergi.
Tveir reykháfar eru í húsinu og ganga rör frá öllum eldavélum í þá.
Húsið gamalt og fremur hrörlegt.
Stærð: 13.95 x 8.90 x 5.90, veggh., 3.25
Gluggar eru 25.
Útveggir úr timbri og pappa á þremur veggjum en úr timbri á einum.
Þak úr timbri og pappa.4Unnar Ingvarsson (2009, 1. október). Tölvupóstur.
Ekki er vitað, hvað húsið var nefnt fyrstu árin, en talið að Sigvaldi Blöndal, sem hóf hótelrekstur þar árið 1889, hafi fyrstur nefnt það Tindastól.5Kristmundur Bjarnason (1969), bls. 183. Segja má að hótel- og veitingarekstur hafi samfellt verið í húsinu til ársins 1969 og hófst svo aftur um síðustu aldamót eftir miklar endurbætur á húsinu.6Tölvur á hvern gafl (2000, 19. júlí). Morgunblaðið, bls. E 7. Sótt 27. október 2023 af https://timarit.is/page/1973588?iabr=on#page/n6/mode/1up/search/T%C3%B6lvur. Oft var glatt á hjalla í húsinu, en stundum þótti sýslumanni gleðskapurinn keyra úr hófi fram. Meðan engin fangageymsla var á Sauðárkróki greip hann stundum til þess ráð að stinga brennivínsberserkjunum í stóra poka eða ullarballa, binda traustlega fyrir og hengja upp á bita í danssalnum. Þetta var kallað að „poka“ menn og þótti gefa góða raun7Kristmundur Bjarnason (1969), bls. 401. Allur rekstur lagðist niður í húsinu á stríðsárunum þegar breskt herlið settist þar að.8Kristmundur Bjarnason (1973). Saga Sauðárkróks. Síðari hluti II. 1922-1948, bls. 25-26. [Sauðárkróki:] Sauðárkrókskaupstaður.
Gluggagerð hússins var breytt fyrir 1940 og húsið klætt hömruðu járni. Árið 2008 var byggð viðbygging til vesturs. Húsið er fast við Lindargötu 1 (Sólarborg), sem er næsta hús sunnan við Tindastól. „Þegar það hús var byggt árið 1942 var Hótel Tindastóll í slæmu ástandi og til stóð að rífa það. Þetta útskýrir nálægð þessara tveggja húsa. Í dag eru húsin samnýtt.“9Eyrún Sævarsdóttir, Sigrún Fossberg Arnardóttir, Sólborg Una Pálsdóttir og Sólveig Olga Sigurðardóttir (2018, deember). Húsakönnun Sauðárkróks. Norðurhluti Gamla bæjar, [bls. 83]. Sótt 27. október 2023 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_173.pdf.
Það vekur athygli að hús þetta er ekki friðlýst, eins og öll hús sem reist eru fyrir 1850, sbr. 6. gr. laga um húsafriðun nr. 104/2001, sem voru í gildi frá 2001 til 2012. Skýringin er líklega sú að ekki eru allir á eitt sáttir um aldur hússins.10Lög um húsafriðun nr. 104/2001. Sótt 23. október 2023 af https://www.althingi.is/lagas/139b/2001104.html.
Leitarorð: Skagafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 5. september, 2024
Heimildaskrá
- 1Kristmundur Bjarnason (1969). Saga Sauðárkróks. Fyrri hluti fram til ársins 1907, bls. 182. [Sauðárkróki:] Sauðárkrókskaupstaður; Sendibréf frá 19. öld (1973, 1. janúar). Skagfirðingabók, 6. árg., 1. tbl., bls. 147-155;Unnar Ingvarsson (2010, 4. ágúst). Tölvupóstur.
- 2Kristmundur Bjarnason (1969), bls. 444.
- 3Skv. Íslenskri orðabók er klápur (mjólkur)ílát eða klunnalega gerður hlutur og klápasmiður ílátasmiður eða vandræðagepill (1992:501). Íslensk orðabók (1992), bls. 501. Árni Böðvarsson (ritstjóri). 2. útg. Kom fyrst út 1983. Reykjavík: Mál og menning.
- 4Unnar Ingvarsson (2009, 1. október). Tölvupóstur.
- 5Kristmundur Bjarnason (1969), bls. 183.
- 6Tölvur á hvern gafl (2000, 19. júlí). Morgunblaðið, bls. E 7. Sótt 27. október 2023 af https://timarit.is/page/1973588?iabr=on#page/n6/mode/1up/search/T%C3%B6lvur.
- 7Kristmundur Bjarnason (1969), bls. 401.
- 8Kristmundur Bjarnason (1973). Saga Sauðárkróks. Síðari hluti II. 1922-1948, bls. 25-26. [Sauðárkróki:] Sauðárkrókskaupstaður.
- 9Eyrún Sævarsdóttir, Sigrún Fossberg Arnardóttir, Sólborg Una Pálsdóttir og Sólveig Olga Sigurðardóttir (2018, deember). Húsakönnun Sauðárkróks. Norðurhluti Gamla bæjar, [bls. 83]. Sótt 27. október 2023 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_173.pdf.
- 10Lög um húsafriðun nr. 104/2001. Sótt 23. október 2023 af https://www.althingi.is/lagas/139b/2001104.html.
Deila færslu
Síðast uppfært 5. september, 2024