Botn, áður en byggt var vð húsið. Ljósm. í eigu Gunnars Sæmundssonar.
Botn, áður en byggt var vð húsið. Ljósm. í eigu Gunnars Sæmundssonar.

Langi-Botn, Geirþjófsfirði

Heiti: Stapar – Norðmannabryggja - Botn - Langibotn - Langi-Botn
Byggingarár: 1863-1868
Upphafleg notkun: ?
Fyrsti eigandi: ?
Upphafleg staðsetning: Norðmannabryggja, Stapar, Arnarfirði ?
Flutt: 1886 í Botn í Geirþjófsfirði
100_2234

Botn í júlí 2010. Ljósm.: Nikulás Úlfar Másson.

Saga:

Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands kemur fram að hús þetta hafi verið flutt inn af norskum hvalföngurum og reist í Arnarfirði. Eitthvað er byggingarárið á reiki, ýmist er það sagt vera 1863, 1864 eða 1868. Talað er um að húsið hafi verið „sett niður á Stöpum“. Árið 1886 var húsið flutt á núverandi stað í botni Geirþjófsfjarðar og nefnt Langi-Botn eða Botn. Byggt var við húsið árið 1933 og sett ris á þá byggingu 1944.  Einnig hefur húsið verið klætt.1Langi-Botn, Geirþjófsfirði, verknr. 1126 í gagnasafni Minjastofnunar Íslands; Jónína Hafsteinsdóttir (1978, 31. janúar). Langibotn. Örnefnaskrá. Sótt 1. nóvember 2023 af https://nafnid.arnastofnun.is/ornefnaskra/14096.

Geirþjófsfjörður er einn af Suðurfjörðum Arnarfjarðar. Í honum norðanverðum eru Stapar og Stapatá. Rétt innan við tána eru Norðmenn sagðir hafa reist litla hvalveiðistöð, eiginlega útibú, um 1870. Staðurinn hefur verið nefndur Norðmannabryggja og sjást þar leifar bryggju á fjöru. Þar sést einnig grunnur hússins sem nú stendur í Botni eða Langabotni eins og bærinn er stundum kallaður.2Ragnar Edvardsson, minjavörður Vestfjarða (2010, 3. nóvember). Tölvupóstur; Kristján Auðunsson (2010, 23. október). Munnleg heimild. Jörðin fór í eyði árið 1969.

Þess má reyndar geta að því hefur jafnvel verið haldið fram að húsið í Botni hafi verið reist upphaflega á Siglufirði af norskum hvalveiðimönnum um 1840 og flutt til Geirþjófsfjarðar um 1880, en fyrir því eru afar óljósar heimildir.3Geirþjófsfjörður (28. desember 2008). Wikipedia, Frjálsa alfræðiritið. Sótt 1. nóvember 2023 af https://is.wikipedia.org/wiki/Geir%C3%BEj%C3%B3fsfj%C3%B6r%C3%B0ur

Hér eru heimildir afar gloppóttar og erfitt að átta sig á samhenginu, því ljóst er að það var ekki fyrr en árið 1883 sem Norðmenn reistu sína fyrstu hvalveiðistöð hér á landi, en að vísu voru þeir farnir að stunda hvalveiðar við Íslandsstrendur mun fyrr auk þess að ýmis félög sem höfðu aðsetur beggja vegna Atlantshafsins stunduðu hér veiðar og þurftu einhverja aðstöðu í landi. Auk þess höfðu Íslendingar veitt hvali í aldir, til dæmis voru veiðar stundaðar í Arnarfirði fram eftir 19. öld.4Trausti Einarsson (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirannsóknir Sagn¬fræði¬stofununar Háskóla Íslands 8. bindi. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. desember, 2023

Heimildaskrá

  • 1
    Langi-Botn, Geirþjófsfirði, verknr. 1126 í gagnasafni Minjastofnunar Íslands; Jónína Hafsteinsdóttir (1978, 31. janúar). Langibotn. Örnefnaskrá. Sótt 1. nóvember 2023 af https://nafnid.arnastofnun.is/ornefnaskra/14096.
  • 2
    Ragnar Edvardsson, minjavörður Vestfjarða (2010, 3. nóvember). Tölvupóstur; Kristján Auðunsson (2010, 23. október). Munnleg heimild.
  • 3
    Geirþjófsfjörður (28. desember 2008). Wikipedia, Frjálsa alfræðiritið. Sótt 1. nóvember 2023 af https://is.wikipedia.org/wiki/Geir%C3%BEj%C3%B3fsfj%C3%B6r%C3%B0ur
  • 4
    Trausti Einarsson (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirannsóknir Sagn¬fræði¬stofununar Háskóla Íslands 8. bindi. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. desember, 2023