Lambafell, Rangárþing eystra
Skátaheimilið Hraunbyrgi við Hraunbrún. Ljósm. í eigu Stjána Venus. Sótt 8. júní 2024 af https://www.facebook.com/photo/?fbid=118970688287583&set=gm.445498652210901&idorvanity=247258775368224.
Saga:
Húsið sem upphaflega stóð við Vesturgötu 12 í Hafnarfirði hefur gert víðreist síðan það var fyrst flutt árið 1958 þegar það var fjarlægt af Vesturgötunni og flutt upp á Norðurbraut í Hafnarfirði þar sem það stóð á tunnum í um tvö ár. Þá var gert samkomulag við skátafélagið Hraunbúa um að fá húsið. Þá var húsið flutt að Hraunbrún 57 og nýtt sem skátaheimili, sem fékk nafnið Hraunbyrgi. Húsið stóð þar sem húsið númer 1 við Hrauntungu stendur í dag (2024).1Minjar fluttar á brott (2002, 6. júní). Fjarðarpósturinn, 20. árg., 22. tbl., bls. 12; Geir Gunnlaugsson (2020, 9. nóvember). Sótt 7. júní 2024 af https://www.facebook.com/photo/?fbid=10216987588672310&set=a.1021119938643.
Þegar til stóð að rífa húsið árið 2001 keyptu hjónin Þorsteinn Njálsson heimilislæknir og Ólöf Pétursdóttir listmálari og hjúkrunarfræðingur húsið og fluttu það á jörðina Lambafell undir Eyjafjöllum í Rangárþingi eystra sem þau höfðu þá nýlega fest kaup á. Þar var húsið gert að hóteli, Hótel Edinborg, með 6 herbergjum, eins, tveggja og þriggja manna. Auk þess var aðstaða á lofti hússins til ráðstefnuhalds og svefnpokagistingar.2Hótel Edinborg opnað (2002, 11. júlí). Morgunblaðið, 90. árg., 160. tbl., bls. 16. Þar stendur húsið enn og hefur nú fengið nafnið Edinborg Guesthouse.
Það var auðvitað heilmikið mál að flytja þetta 48 tonna, 115 fermetra hús á tveimur hæðum, 7,5 m að breidd og 15 m langt, en til flutningsins voru notaðir öflugir trukkar, stórvirkir kranar og samstilltur hópur vanra manna. Vegna breiddar hússins þurfti að fara um Óseyrarbrú og alla leið upp fyrir Búrfell og yfir Þjórsá við Sultartangavirkjun, alls um 200 km leið. Víða þurfti að lyfta rafmagnslínum og rjúfa þurfti straum til Vestmannaeyja í um klukklustund þegar farið var með húsið undir rafmagnslínuna til Eyja. Einnig þurfti að skrúfa brúarhandriðið af brúnni yfir Þverá þegar þar var farið um.3Gamalt hús með framtíðarhlutverk (2002, 12. júní). Morgunblaðið, 90. árg., 136. tbl., bls. 16.
Það var Ágúst Flygenring (1865-1932) útgerðar- og kaupmaður sem byggði húsið við Vesturgötu sem skrifstofu- og verslunarhús árið 1903 eða 1904.
Það gekk lengst af undir nafninu Edinborg eða Edinborgarhúsið af því að árin 1908 – 1917 var það í eigu umsvifamikils verslunarfyrirtækis, Copland & Berrie í Edinborg á Skotlandi. En upphaflega reisti August Flygenring húsið sem skrifstofu- og verslunarhús árið 1904; hann átti það fyrstu árin, og eignaðist það síðan aftur 1917 þegar starfsemi Skotanna í Hafnarfirði lauk. En við stofnun Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar 1931 var það gert að höfuðstöðvum hennar og gegndi því hlutverki þar til frystihús útgerðarinnar reis hinum megin við götuna árið 1958, en þá voru skrifstofumar fluttar í nýja húsið.4Kristján Bersi Ólafsson (2002, 21. febrúar). Fjarðarpósturinn, 20. árg., 7. tbl., bls. 7.
Þess má geta að talsverðar deilur voru meðal bæjarbúa um hvað verða ætti um húsið þegar skátarnir hættu að nýta það. Í greininni sem vitnað er í hér að ofan lagði Kristján Bersi Ólafsson til að húsið yrði aftur flutt á sinn upphaflega stað og sumir töldu að húsinu hafi verið „stolið“ úr bænum.5Kristján Bersi Ólafsson (2002, 21. febrúar). Fjarðarpósturinn, 20. árg., 7. tbl., bls. 7.
Leitarorð: Hafnarfjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 16. júní, 2024
Heimildaskrá
- 1Minjar fluttar á brott (2002, 6. júní). Fjarðarpósturinn, 20. árg., 22. tbl., bls. 12; Geir Gunnlaugsson (2020, 9. nóvember). Sótt 7. júní 2024 af https://www.facebook.com/photo/?fbid=10216987588672310&set=a.1021119938643.
- 2Hótel Edinborg opnað (2002, 11. júlí). Morgunblaðið, 90. árg., 160. tbl., bls. 16.
- 3Gamalt hús með framtíðarhlutverk (2002, 12. júní). Morgunblaðið, 90. árg., 136. tbl., bls. 16.
- 4Kristján Bersi Ólafsson (2002, 21. febrúar). Fjarðarpósturinn, 20. árg., 7. tbl., bls. 7.
- 5Kristján Bersi Ólafsson (2002, 21. febrúar). Fjarðarpósturinn, 20. árg., 7. tbl., bls. 7.
Deila færslu
Síðast uppfært 16. júní, 2024