Lækjargata 4 er til vinstri á myndinni. Myndin er líklega tekin um 1985.

Hjörleifur Stefánsson (1986). Akureyri. Fjaran og innbærinn. Byggingarsaga, bls. 140. [Reykjavík:] Torfusam­tökin.
Lækjargata 4 er til vinstri á myndinni. Myndin er líklega tekin um 1985. Hjörleifur Stefánsson (1986). Akureyri. Fjaran og innbærinn. Byggingarsaga, bls. 140. [Reykjavík:] Torfusam­tökin.

Lækjargata 4, Akureyri

Byggingarár: <1870
Upphafleg notkun: Heyhlaða
Fyrsti eigandi: ?
Aðrir eigendur:
1870: Stefán Thorarensen sýslumaður
≈ 1870: Hendrik Schiöth
1920: Carl Schiöth
Upphafleg staðsetning: ?
Flutt: 1870 að Lækjargötu 4, Akureyri
Lækjargata 4 2

Lækjargata 4 í september 2017. Ljósm.: Ja.is.

Saga:

Um þetta hús segir Hjörleifur Stefánsson í bók sinni um byggingarsögu Fjörunnar og Innbæjarins á Akureyri:

Árið 1870 flutti Stefán Thorarensen sýslumaður heyhlöðu á balann vestan við íbúðarhúsið Aðalstræti 6 og mun það vera upphaf þess húss er þar stendur nú við Lækjargötu 4. Hinrik Schiöth breytti hlöðunni í skrifstofu og verslun. Árið 1920 byggði Carl Schiöth eina hæð og ris ofan á húsið, og árið 1923 byggði hann tvílyftan steinsteypuskúr vestan við húsið með stiga á milli hæðanna. Í brunavirðingu frá 1920 segir að á fyrsta gólfi sé ein skrifstofa og tvö vörugeymslupláss. Á lofti eru þá tvö vörugeymslupláss og forstofa. Efra loft er þiljað í tvennt til vörugeymslu. Ekki er fullljóst hvenær húsinu var breytt í íbúðir en það mun þó hafa verið eftir 1927.1Hjörleifur Stefánsson (1986). Akureyri. Fjaran og innbærinn. Byggingarsaga, bls. 140. [Reykjavík:] Torfusamtökin.

Stefán, sýslumaður Eyfirðinga og bæjarfógeti Akureyringa (1825-1901), hafði búið í húsinu við Aðalstræti 6, en Hendrik Schiöth bakari keypti það af honum um 1870 og hefur hlaðan fylgt með í kaupunum. Stefán kom til Akureyrar frá Danmörku þegar hann hlaut sýslumannsembættið árið 1859 með danska konu sína. Þegar Akureyri fékk kaupstaðarréttindi 1863 varð hann bæjarfógeti.2Jón Hjaltason (1994). Saga Akureyrar. Kaupstaðurinn við Pollinn 1863-1905. II. bindi, bls. 25. Akureyri: Akureyrarbær; Hjörleifur Stefánsson (1986), bls. 67-68; Klemens Jónsson (1948). Saga Akureyrar, bls. 74 og 93. Akureyri: Akureyrarkaupstaður.

Hendrik bakari kom til landsins frá Danmörku ásamt konu sinni Önnu árið 1868 til að annast rekstur fyrstu brauðgerðarinnar á Akureyri, sem var í eigu Höepfners kaupmanns. Þau bjuggu á Akureyri til dauðadags 1921 og 1923, þó þau hafi í upphafi aðeins ætlað að búa á Íslandi í eitt ár. Schiöth sá um rekstur brauðgerðarhússins í full 30 ár og var jafnframt póstafgreiðslumaður frá árinu 1879. Auk þess var hann gjaldkeri sparisjóðsins. Anna Schiöth var lærður ljósmyndari og tók margar af þeim elstu ljósmyndum sem til eru frá Akureyri. Hún var einn aðalhöfundur Lystigarðsins á Akureyri.3Klemens Jónsson (1948), bls. 111-112; Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, maí). Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg á Akureyri, bls. 38. Sótt 2. nóvember 2023 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_160.pdf.

Þau hjón voru aldrei efnuð, en höfðu altaf nóg fyrir sig að leggja, og var heimili þeirra alþekt fyrir gestrisni og alla prýði. Þau voru einhver hin vinsælustu hjón á Akureyri, og höfðu mikla þýðingu fyrir bæinn í 50 ár.4Klemens Jónsson (1948), bls. 112.

Schiöth-hjónin eignuðust fimm börn og var það Carl sonur þeirra sem hækkaði húsið.5Klemens Jónsson (1948), bls. 112; Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, maí), bls. 32.

Lesa má nánar um húsið í grein Arnórs Blika Hallmundssonar, sem finna má hér: https://www.akureyri.net/is/pistlar/hus-dagsins-laekjargata-4.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. desember, 2023

Heimildaskrá

  • 1
    Hjörleifur Stefánsson (1986). Akureyri. Fjaran og innbærinn. Byggingarsaga, bls. 140. [Reykjavík:] Torfusamtökin.
  • 2
    Jón Hjaltason (1994). Saga Akureyrar. Kaupstaðurinn við Pollinn 1863-1905. II. bindi, bls. 25. Akureyri: Akureyrarbær; Hjörleifur Stefánsson (1986), bls. 67-68; Klemens Jónsson (1948). Saga Akureyrar, bls. 74 og 93. Akureyri: Akureyrarkaupstaður.
  • 3
    Klemens Jónsson (1948), bls. 111-112; Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, maí). Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg á Akureyri, bls. 38. Sótt 2. nóvember 2023 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_160.pdf.
  • 4
    Klemens Jónsson (1948), bls. 112.
  • 5
    Klemens Jónsson (1948), bls. 112; Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, maí), bls. 32.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. desember, 2023