Kornhús (Ullarhús), Árbæjarsafni, Reykjavík
Kornhúsið á Vopnafirði árið 1973. Ljósm.: Þór Eyfeld Magnússon. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. ÞM-6443. Sótt 18. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=650488.
Kornhúsið á Árbæjarsafni. Heimild: Árbæjarsafn. Kornhús. Sótt 18. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/feea75ad-ad81-461e-b9d2-76ca5ec47672.
Saga:
Danska verslunarfyrirtækið Örum og Wulff hafði mikil umsvif í Vopnafjarðarkauptúni í um eina öld frá árinu 1814. Fyrirtækið var helsti atvinnurekandinn, stundaði verslun og útgerð og byggði fjölda húsa.1Bryndís Zoëga og Guðný Zoëga (2005, maí). Fornleifaskráning Vopnafjarðar. Svæðisskráning, bls. 12, Byggðasafn Skagfirðinga, skýrsla nr. 2005/41. Meðal annars er talið að það hafi byggð tvö pakkhús, sem gengu undir nöfnunum Kornhús eða Beykisbúð og Ullarhús eða Kjöthús. Miðað við núverandi (2024) aðstæður stóðu húsin austan við húsið nr. 4 við Hafnarbyggð (Kaupfélagið) og norðan Hafnarbyggðar 4a, Kaupangs.
Kornhúsið og Ullarhúsið eru af algengri gerð verslunarhúsa frá 19. öld. Slík hús voru víða um land, en eru nú flest horfin. Vopnafjarðarhúsin eru reisuleg hús og traust. Þau eru vel viðuð, einkum minna húsið, sem er Ullarhúsið. Húsin eru úr furu og grind beggja húsanna er klædd að utan með tjörguðum borðum, láréttum á öðru húsinu en lóðréttum á hinu. Bæði húsin eru ein hæð og hátt ris með tveimur loftum, efra lofti og neðra, bæði manngeng.
Í kornhúsinu var kornvaran borin í sekkjum og hvolft í stóran trékassa. Í botni kassans lá renna niður á neðri hæðina, með dragloku á endanum. Á neðri hæðinni var varningur geymdur í tunnum, svo sem fernisolía, tjara og steinolía. Árið 1909 var sláturhús reist við austurenda Kornhússins og farið að slátra sauðfé inni. Seinna var farið að geyma kjötskrokka á neðri hæð Kornhússins og voru stórir krókar á bitum hafðir til þess að hengja skrokkana á.2Yrki arkitektar og Náttúrustofa Vestfjarða (2022, 5. apríl). Plássið. Vopnafjörður. Húsa- & fornleifakönnun, bls. 136-137.
Almennt gegndi húsið [þ.e. Kornhúsið] hlutverki pakkhúss, þ.e. vöruhúss, þó eru til heimildir um að á 19. öld hafi það einnig verið notað til búsetu. Frægasti íbúi þess er eflaust Kristján Jónsson fjallaskáld, en hann var ráðinn sem barnakennari á Vopnafirði árið 1868. Hann lést þar ári seinna.3Árbæjarsafn. Kornhús. Sótt 18. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/feea75ad-ad81-461e-b9d2-76ca5ec47672/nanar.
Vegna fyrirhugaðra nýbygginga á aðalathafnasvæði Vopnafjarðarkaupstaðar upp úr 1970 reyndust þessi tvö elstu hús bæjarins vera fyrir. Þá ákvað Þjóðminjasafnið að kaupa húsin og fékk leyfi Árbæjarsafns til að endurreisa þau á safnlóðinni. Árið 1974 var Kornhúsið tekið niður og viðir þess fluttir í Árbæjarsafn og Ullarhúsið árið eftir. Fjórum árum síðar var grind Kornhússins reist.4Hörður Ágústsson (2000). Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, bls. 70. [Reykjavík:] Húsafriðunarnefnd ríkisins. Þjóðminjasafnið gaf síðan Árbæjarsafni húsið árið 1992 í tilefni af 25 ára afmæli þess.5Árbæjarsafn. Kornhús. Sótt 18. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/feea75ad-ad81-461e-b9d2-76ca5ec47672.
Húsin tvö standa nú saman líkt og á Vopnafirði syðst á safnlóð Árbæjarsafns. Neðri hæð Kornhússins hýsir tímabundnar sýningar safnsins, en efri hæðin er nýtt sem funda- og veislusalur.6Árbæjarsafn. Kornhús. Sótt 18. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/feea75ad-ad81-461e-b9d2-76ca5ec47672/nanar.
Tekið skal fram að ekki er sérstök umfjöllun um Ullarhúsið, því ekki finnast heimildir um að það hús hafi verið notað til íbúðar.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 18. júlí, 2024
Heimildaskrá
- 1Bryndís Zoëga og Guðný Zoëga (2005, maí). Fornleifaskráning Vopnafjarðar. Svæðisskráning, bls. 12, Byggðasafn Skagfirðinga, skýrsla nr. 2005/41.
- 2Yrki arkitektar og Náttúrustofa Vestfjarða (2022, 5. apríl). Plássið. Vopnafjörður. Húsa- & fornleifakönnun, bls. 136-137.
- 3Árbæjarsafn. Kornhús. Sótt 18. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/feea75ad-ad81-461e-b9d2-76ca5ec47672/nanar.
- 4Hörður Ágústsson (2000). Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, bls. 70. [Reykjavík:] Húsafriðunarnefnd ríkisins.
- 5Árbæjarsafn. Kornhús. Sótt 18. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/feea75ad-ad81-461e-b9d2-76ca5ec47672.
- 6Árbæjarsafn. Kornhús. Sótt 18. júlí 2024 af https://app.arbaejarsafn.is/hus/feea75ad-ad81-461e-b9d2-76ca5ec47672/nanar.
Deila færslu
Síðast uppfært 18. júlí, 2024