Klaufabrekknakot, Svarfaðardal
Saga:
Árið 1896 reisti Bergur Bergsson (1846-1903), bóndi, framhús við bæ sinn á Hæringsstöðum í Svarfaðardal. Árið 1976 segir Ingólfur Davíðsson frá þessum framkvæmdum í greinaflokki sínum, Byggt og búið í gamla daga, og hefur orð á því að húsið hafi verið sérkennilegt. Hann birtir einnig mynd af skrautlega útskorinni fjöl sem Jón Bergsson skar út og sett var yfir dyr hússins. Ingólfur segir að fjölin hafi verið máluð í bláum og brúnum litum og hún sé enn til á Hæringsstöðum þó framhúsið hafi hins vegar verið flutt „fyrir alllöngu“ að Klaufabrekknakoti í sama dal og þar standi það enn (febrúar 1976) spöl frá íbúðarhúsinu og nýtt sem geymsluhús. Ingólfur birtir mynd af húsinu og vekur sérstaka athygli á timburlistunum, litlu 6 rúðu gluggunum og dyrum og segir að húsið sé vitnisburður um gamla og góða timbursmíð og fjölin um listfengi.1Ingólfur Davíðsson (1976. 22. febrúar). Byggt og búið í gamla daga. 112. Tíminn, 60. árg., 44. tbl., bls. 6.
Bygging framhúsa eða langhúsa í fremstu bæjarröðinni hófst eftir miðja 19. öld. Framhúsið
sneri hliðinni fram á hlaðið, eins og verið hafði að fornu, en sá var munurinn, að framhliðin var nú úr timbri. Útidyr voru þá venjulega á miðju húsi, bæjardyr innan þeirra, en timburveggir greindu þær frá skála og stofu. Stundum var kvistur á þaki yfir útidyrum. Þar sem þessar „timburstofur“ voru byggðar, hvarf gamli bæjarsvipurinn og framhliðin líktist kaupstaðarhúsi. Sennilega hafa kaupstaðarhúsin verið oft og einatt fyrirmynd þessara bygginga. Þessar timburstofur voru fátíðar fyrir 1880, en 1910 voru þær á 7% torfbæja.2Guðmundur Finnbogason (ritstjóri) (1943). Húsagerð á Íslandi, bls. 218. Í Iðnsaga Íslands, fyrra bindi, bls. 1-317.
Lilja Hallgrímsdóttir (1916-2014), sem bjó allan sinn búskap í Klaufabrekknakoti, segir að í dagbókum eiginmanns hennar, Karl Karlssonar (1912-2009), komi fram að þau hafi flutt húsið árið 1949. Húsið var tekið niður spýtu fyrir spýtu og þær númeraðar. Þau bjuggu í húsinu til ársins 1957 þegar nýtt íbúðarhús var byggt á Klaufabrekknakoti. Eftir það var húsið nýtt sem geymsla fyrir smíðaáhöld, reiðtygi og þess háttar þar til það var rifið árið 2002 eða 2003.3Lilja Hallgrímsdóttir (2010, 2. ágúst). Munnleg heimild.
Þess er rétt að geta að fjölin góða sem var yfir dyr hússins er nú varðveitt á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík.
Leitarorð: Svarfaðardalur
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 11. nóvember, 2024
Heimildaskrá
- 1Ingólfur Davíðsson (1976. 22. febrúar). Byggt og búið í gamla daga. 112. Tíminn, 60. árg., 44. tbl., bls. 6.
- 2Guðmundur Finnbogason (ritstjóri) (1943). Húsagerð á Íslandi, bls. 218. Í Iðnsaga Íslands, fyrra bindi, bls. 1-317.
- 3Lilja Hallgrímsdóttir (2010, 2. ágúst). Munnleg heimild.
Deila færslu
Síðast uppfært 11. nóvember, 2024